27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

26. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það var fyrir 15 árum að fyrst var ákveðið að sveitarfélögin skyldu fá hluta af söluskatti og skyldi sá hluti renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, en þaðan skyldi honum úthlutað til sveitarfélaganna í samræmi við fólksfjölda. Þessi ráðstöfun varð mikil lyftistöng fyrir sveitarfélögin og lagfærði mjög fjárhag þeirra og jók olnbogarúm þeirra. Síðan hafa nokkrar breytingar orðið í þessu efni, þannig að nú fá sveitarfélögin eða Jöfnunarsjóður þeirra bæði hluta af söluskatti og af tolltekjum ríkissjóðs. Þessar greiðslur úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna fara fram þrisvar á ári, 30. apríl, 30. sept. og 31. des.

Nú hefur Samband ísl. sveitarfélaga óskað þess, að þessar greiðslur úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna dreifðust jafnar yfir árið en nú er, og miðað við greiðslustöðu og greiðsluerfiðleika margra sveitarfélaga mundi það greiða mjög úr málum þeirra og létta fjárhagsörðugleika þeirra ef greiðslur úr Jöfnunarsjóði til þeirra færu fram mánaðarlega.

Efni þessa frv. er að lögunum verði breytt á þá lund að í staðinn fyrir að sveitarfélögin fá þessar greiðslur nú þrisvar á ári skuli þau fá þær mánaðarlega. Er þannig orðið við óskum sveitarfélaganna í þessu efni.

Skv. gildandi lögum skal ríkissjóður, sem innheimtir þetta fé, endurgreiða það til Jöfnunarsjóðs mánaðarlega, og að þessu leyti mundu þær greiðslur vel geta fallið saman.

Í 2. gr. þessa frv. er svo staðfesting á þeirri lagabreytingu sem gerð var á síðasta þingi um auknar tekjur til Lánasjóðs sveitarfélaga, en þá var ákveðið að hann skyldi efldur verulega með auknum framlögum, bæði frá ríkissjóði og Jöfnunarsjóði.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir í hv. d., og legg til að því verði vísað til félmn.