26.01.1976
Sameinað þing: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

Jarðskjálftar í Þingeyjarsýslum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. forseta Alþ. fyrir að minnast þeirra erfiðleika og þess tjóns sem ýmsar byggðir Þingeyjarsýslna hata orðið fyrir. Eins og fram kom hjú hæstv. forsela Alþ. hefur þetta tjón fyrst og fremst orðið í Norður-Þingeyjarsýslu og á þeim stöðum sem hæstv. forseti nefndi. Ég held að ég megi fullyrða það, að orð hæstv. forseta munu vekja bæði von og traust meðal fólksins á tjónasvæðunum, og þau verða áreiðanlega skoðuð sem tákn um samkennd þings og þjóðar með þessu fólki, sem á í umtalsverðum erfiðleikum.

Eins og hv. þm. og raunar landsmönnum öllum er kunnugt, þá er ljóst að tjón af jarðskjálftum í Norður-Þingeyjarsýslu er verulegt og að það kemur víða við. Þetta tjón snertir fyrst og fremst margs konar byggingar og önnur mannvirki, þ. á m. opinber mannvirki, bæði hafnarmannvirki og vegi og kannske fleira. Og samansafnað tjón einstaklinga er mjög tilfinnanlegt. En það er lán í óláni að ekki hafa orðið slys á mönnum. Enn verður ekkert um það sagt, hversu upphæðin er há af því tjóni sem bæta má fébótum. Heimamenn vinna að sjálfsögðu að því að meta tjónið og færa þá hluti í lag sem brýnastir eru og við verður ráðið fjárhagslega og tæknilega, eins og á stendur. En hitt er augljóst, að skaði norður-þingeyinga hefur orðið meiri en svo, að þeir geti risið óstuddir undir honum. Mér er kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hefur fjallað um vanda norður-þingeyinga og haft góð orð um að koma myndarlega til liðs við uppbyggingarstarfið þar nyrðra. Þó að mér sé þetta að vísu nokkuð kunnugt, þá tel ég ástæðu til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félmrh. í forföllum forsrh., hvað líði aðgerðum ríkisstj. í sambandi við þessi mál, þ. e. a. s. hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir um það, að norður-þingeyingar fái jarðskjálftatjónið bætt.