26.01.1976
Sameinað þing: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

Jarðskjálftar í Þingeyjarsýslum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þar sem náttúruhamfarir í Axarfjarðarhéraði og grennd hefur borið hér á góma, vil ég af því tilefni segja örfá orð hér á hinu háa Alþ. um bað alvörumál.

Ég vil þá fyrst þakka hæstv. forseta fyrir hans orð um þetta hér á undan. Ég fór um þetta svæði fyrir skömmu ásamt Halldóri Blöndal varaþm. Við skoðuðum verksummerki og ræddum viðhorf fólksins heima fyrir gagnvart þessum hamförum náttúrunnar og afleiðingum þeirra. Ég get tekið undir með hv. þm. Ingvari Gíslasyni, 1. þm. Norðurl. e. Hér hafa orðið hrikalegar náttúruhamfarir, hrikalegri en margir ef til vill gerðu sér grein fyrir, og mikið og raunar ófyrirsjáanlegt eignatjón sem okkur samborgurum íbúa þessa svæðis er rétt og skylt að bæta svo sem gert hefur verið við hliðstæðar kringumstæður.

Kópasker, sem einna verst hefur orðið úti í jarðskjálftunum, svo sem kunnugt er, er ekki stórt þorp, en þó er það mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir landbúnaðarhéraðið í Axarfirði og vaxtarbroddur byggðar á svæðinu frá Melrakkasléttu að Tjörnesi. Skjót endurreisn Kópaskers er því ekki einungis mikilvæg fyrir íbúa staðarins sjálfs, heldur fyrir alla þróun byggðar á umræddu svæði.

Ég legg áherslu á að mikilvæg forsenda endurreisnar Kópaskers eftir náttúruhamfarirnar byggist ekki síst á því að tryggja bættar samgöngur við staðinn svo og nágrannasveitir, Núpasveit, Öxarfjarðarhrepp og Kelduhverfi. Enn fremur er þörf á skjótri aðstoð bæði hins opinbera og einkaaðila til þess að endurnýja brýnustu heimilismuni fólks og lagfæra íbúðarhús til bráðabirgða. Þá verður að undirbúa endurreisn mannvirkja sveitarfélagsins, svo sem bryggju, vatnsveitu, holræsa, og koma upp vararaforkustöð fyrir þorpið. Í því sambandi er rétt að undirstrika að hefðu slíkar náttúruhamfarir átt sér stað samtímis raforkuskorti, eins og oft átti sér stað s. l. vetur, hefði ólýsanlegt hættuástand skapast á Kópaskeri eftir jarðskjálftann mikla og á undanförnum vikum.

Sú áhersla, sem ég legg á bættar samgöngur við þau byggðarlög sem harðast hafa orðið úti í jarðskjálftunum, stafar ekki síst af því, að ég varð þess var að samgöngur voru ekki tryggðar betur en svo við jarðskjálftasvæðið á Kópaskeri, að þar fyrirfannst ekki tæki til þess að ryðja snjó af vegum. Slíka þjónustu þarf að fá frá Húsavik eða Raufarhöfn því lífsspursmál getur verið fyrir Kópaskersbúa að komast um næsta nágrenni sitt í hvaða veðri sem er ef hættu ber að höndum. Þá mætti benda á að brýn þörf er á að fá þegar í stað færanleg ljós á flugvöllinn á Kópaskeri, þannig að hægt sé að fljúga þangað hvenær sem er sólarhrings, en nú er örðugt að fljúga þangað í myrkri. Ástandið í samgöngumálum bæjanna að Skógum í Öxarfjarðarhreppi var einnig þannig að verulegt sig hafði þar komið í veginn og snjór safnast þar í svo að ófært mátti heita á þessa bæi, en eins og kunnugt er af fréttum hafa bændur á þessum bæjum barist við ólýsanleg vandamál af völdum jarðskjálftanna. Augljóst er að algjört grundvallaratriði fyrir þá og ég vil segja mannréttindamál er að skjótt sé brugðið við um að tryggja þeim samgöngur a. m. k. um næsta nágrenni sitt, og sama má segja um allt jarðskjálftasvæðið.

Augljóst er af þeim dæmum, sem ég hef rakið hér að framan, að algjört grundvallarskilyrði þess að hjálpa fólki á jarðskjálftasvæðunum til þess að glíma við náttúruhamfarirnar og enduruppbyggingu að þeim loknum er að tryggja samgöngur við svæðið og veita íbúum þess traust á opinbera þjónustu og fyrirgreiðslu. Gífurlegar vegaskemmdir hafa orðið á þessu svæði vegna sprungna, jarðsigs, misgengis og brúarskemmda. Vafalaust koma þessar skemmdir enn betur í ljós þegar vorar og frost fer úr jörðu. Þá þarf að vera vel á verði af hálfu Vegagerðar ríkisins ef ekki eiga að hljótast slys af. Ég vil taka það fram, að ég hef þegar rætt framangreindar ábendingar við Vegagerð ríkisins. Vegagerðin hefur þegar gert ráðstafanir til aukinnar þjónustu við jarðskjálftasvæðið og ber að þakka það.

Náttúruhamfarir gerast nú tíðar á Íslandi. Eldgos í Vestmannaeyjum, snjóflóð í Neskaupstað og jarðskjálftar á Norðausturlandi hafa einungis á 3 árum valdið gífurlegu eigna- og manntjóni. Þjóðin og forustumenn hennar hafa mætt þessum áföllum af manndómi. Samhjálp hefur verið veitt. Alþ. hefur verið þar einróma í fararbroddi, bæði á sviði fjáröflunar og lagasetningar um Viðlagatryggingu Íslands. Sú löggjöf hefur nú sannað gildi sitt, og reynsla undanfarinna ára sýnir ótvírætt að enn þarf að móta frekar og endurskipuleggja með löggjöf og lifandi starfi aðgerðir til þess að mæta og koma í veg fyrir áföll af völdum náttúrunnar. Í því efni mætti minna á hugsanlegar hafískomur, en lög eða reglur um skipuleg viðbrögð við þeim vágesti eru ekki til enn. Væri ekki vanþörf á að hafa þar allan vara á, þótt engin ástæða sé til að mikla fyrir sér slíka hættu.

Ég vil þakka hæstv. ríkisstj. fyrir skjót viðbrögð vegna náttúruhamfaranna á Norðausturlandi og er þess fullviss að ríkisstj. og Alþ. munu halda áfram að greiða fyrir endurreisn jarðskjálftasvæðanna á Norðausturlandi og bæta íbúum þeirra tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, á hliðstæðan hátt og gert var í Vestmannaeyjum og Neskaupstað. Ég er þess fullviss að þingheimur allur og öll þjóðin óskar þess, að þessum hamförum linni sem fyrst, þannig að endurreisnarstarfið geti hafist af fullum krafti.