26.01.1976
Sameinað þing: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

Jarðskjálftar í Þingeyjarsýslum

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég tek undir ummæli hæstv. forseta um jarðskjálftana á Kópaskeri og nágrenni og vil í framhaldi þeirra ummæla og í tilefni af ræðum hv. 1. þm. og 4. þm. Norðurl. e. skýra nokkuð frá því, hvað gert hefur verið af hálfu stjórnvalda í þessu máli.

Skömmu eftir að þessir atburðir gerðust fór heilbr.- og trmrh., sem hefur með höndum yfirstjórn Viðlagatryggingar, norður til að skoða staðhætti og afleiðingar þessara atburða. Ríkisstj. ræddi málið, m. a. það viðhorf, að það heyrir undir fleiri rn. en eitt, og varð niðurstaðan á fundi ríkisstj. að félmrh. var falið að hafa umsjón með undirbúningi aðgerða og samhæfingu.

Eftir ósk minni kom oddviti Presthólahrepps, þar sem Kópasker er, á fund í félmrn. í s. l. viku. Á þeim fundi gaf oddvitinn, Friðrik Jónsson, ítarlegar upplýsingar um afleiðingar jarðskjálftans. Það kom fram í þeim viðræðum, að oddviti taldi engin umtalsverð slys hafa orðið á fólki, en þeir, sem hefðu þurft á læknishjálp að halda, hefðu fengið hana strax, því að læknir hafi verið staddur á Kópaskeri þann dag. Almannavarnarnefnd hefði útvegað flutning öllum sem þess óskuðu, og voru um 90 manns fluttir frá Kópaskeri þá strax. Íbúar í Presthólahreppi voru 1. des. s. l. 289 að tölu, þar af á Kópaskeri og í næsta nágrenni 130–140. En tjón af völdum jarðskjálftans mikla 13. jan. varð aðallega í tveimur hreppum auk Presthólahrepps, þ. e. Kelduneshreppi og Öxarfjarðarhreppi. Auk tjónsins á Kópaskeri er talið að meira eða minna tjón hafi orðið á 80 bæjum í nefndum hreppum. Miklar skemmdir urðu á húsum á Kópaskeri, eitt hús a. m. k. talið með öllu ónýtt, en nokkur óíbúðarhæf nema til komi meiri eða minni viðgerð. Viðlagatryggingar koma hér til hjálpar. Langmesta tjónið varð á bryggjunni og áföstum varnargarði, og hafa verkfræðingur og kafari á vegum Vita- og hafnamálaskrifstofunnar kannað skemmdirnar og má vænta skýrslu frá þeim innan fárra daga. Vatnsveitan, sem nær til 33 heimila auk vinnustaða, virtist í fyrstu hafa skemmst mjög alvarlega, en skemmdir hafa þó við nánari skoðun reynst nokkru minni en ætlað var í fyrstu. Sími og rafmagn gengu mjög úr lagi. Ég skal ekki rekja frekar það tjón sem hér hefur orðið, en það er víðtækt og alvarlegt. Inn í þetta dæmi allt kemur atvinnuástand og atvinnutjón.

Í framhaldi af viðræðum við oddvita Presthólahrepps og könnun á því, hvaða rn. kæmi hér helst við sögu, var ákveðið að skipa n. manna sem hefði það verkefni að kanna tjónið, gera skýrslu um það, gera till. um úrbætur og útvegun fjár til þeirra. Í því sambandi vil ég taka fram, að það er ætlun ríkisstj. að hlaupa hér undir bagga með svipuðum hætti og þegar tjón varð af náttúruhamförum í Neskaupstað í fyrra. Í þessa nefnd manna hafa verið skipaðir: frá heilbr: og trmrn. Jón Ingimarsson skrifstofustjóri, frá samgrn. Steingrímur Arason deildarverkfræðingur Vita- og hafnamálastofnunar, Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri í félmrn., sem er formaður n., og í n. á einnig sæti Friðrik Jónsson oddviti Presthólahrepps. N. hefur þegar verið skipuð og mun taka til starfa tafarlaust. Þá hefur félmrn. ákveðið í dag að veita Presthólahreppi aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að upphæð 4 millj. kr. og er sú fjárhæð nú á leiðinni til oddvita.