27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég tel eðlilegt og raunar sjálfsagt að hv. 3. þm. Reykn. hreyfi því máli sem hér hefur verið til umræðu utan dagskrár. Hann var búinu að láta mig vita af þessu, og það er allt rétt sem hann sagði um það, að okkur kom saman um að ýmissa orsaka vegna, sem ég ætla ekki að rekja hér, mundi fara betur á því að hafa þessar umr. í dag heldur en í gær. Ég fer ekki nánar út í það.

Það er svo sem ekki ný bóla að því sé haldið fram að á Íslandi séu geymd kjarnorkuvopn. Það hefur gerst við og við, og sá kvittur hefur gosið upp, að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefði undir höndum kjarnorkuvopn, og síðustu daga hefur nokkuð verið birt um þetta í blöðum, eins og hv. 3. þm. Reykn. kom inn á og las nokkuð upp úr. Er það byggt á upplýsingum eftir bandarískan greinahöfund, Barry Schneider að nafni. Í viðtali við Dagblaðið, sem birt var föstudaginn 23. þ. m., segir hann sig hafa gert kort og merkt inn á það alla þá staði í heiminum, sem hann teldi líklega geymslustaði slíkra vopna, þ. á m. Ísland, hafi hann sýnt þetta kort nokkrum bandarískum þm. og hafi þeir ekki hreyft neinum athugasemdum. Dregur hann svo þá ályktun af þessu, að mjög sterk rök hnígi að því að hér væru kjarnorkuvopn.

Það er óþarfi að taka það fram aftur sem hv. 3. þm. Reykn. gerði skilmerkilega, að bandarísk yfirvöld hafa ekki látið í té upplýsingar um það, hvar kjarnorkuvopn séu geymd. Þess vegna var kannske tæpast við því að búast að þessir mikilsvirtu og vel menntuðu þm. færu að taka fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum og segja annaðhvort já eða nei við þessari spurningu þessa blaðamanns. Mér finnst þessi röksemdafærsla ekki sannfærandi, enda er utanrrn. kunnugt um að hér hafa aldrei verið geymd kjarnorkuvopn, hvorki fyrr né síðar, og satt að segja virðist mér liggja nær að þeir, sem að þessum fullyrðingum standa, sanni mál sitt betur áður en þeir draga í efa réttmætar upplýsingar íslenskra stjórnvalda.

Ég vil segja um Barry Schneider að hann er ekki á neinn hátt í tengslum við bandarísk yfirvöld. Hann tilheyrir hópi sem er á móti bandarískum vopnabúnaði, og auðvitað hefur hann fullt leyfi til þess. Hins vegar tel ég ekki að ástæða sé til að taka orð hans trúanleg fremur en þær yfirlýsingar sem íslensk stjórnvöld gefa,

En menn verða að sjálfsögðu að gera það upp við sig og ráða því, hverjum þeir vilja trúa í þessu efni, og ef Barrry Schneider nýtur svona mikils álits, að menn telji sjálfsagt að taka orð hans góð og gild án þess að kanna þau frekar, þá er náttúrlega ekki um annað að gera en taka því.

Ég vil enn fremur segja það, að samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér frá Washington, er engin þingskýrsla til um hvar bandaríkjamenn geyma kjarnorkuvopn sín. Þær upplýsingar, sem umræddur greinarhöfundur telur sig hafa frá bandarískum hljóta því að orka tvímælis svo að ekki sé meira sagt um það.

Ég vil þá reyna að koma að þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín. Þær voru fjórar ef ég, hef tekið rétt eftir.

Fyrsta spurningin var um það, hvort ekki væri alveg tvímælalaust án vilja og vitundar íslenskra yfirvalda ef kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli. Svarið við þessari spurningu er afdráttarlaust neitandi. Við höfum aldrei léð máls á því, að kjarnorkuvopn væru geymd hér, og við teljum okkur hafa vitneskju fyrir því, að þau séu ekki hér.

Um aðra spurningu má segja það, að kannske megi gagnrýna hvernig bæði þessi ríkisstj. og allar aðrar hafa fylgst með því hvort hér væru geymd kjarnorkuvopn eða ekki. Ég get fullvissað hv. þ m. um það, að menn úr varnarmáladeild hafa farið þarna um allan völlinn og ekki orðið varir við neitt torkennilegt. Hins vegar eru þeir meðvitað ekki sérfræðingar í vopnabúnaði og það er ekki alveg 100% víst að þeir þekki kjarnorkusprengjur, en ég vil ekki fullyrða það. Ég held þó að mér sé alveg óhætt að segja það og tel mig hafa fyrir því óyggjandi upplýsingar að slík vopn séu ekki geymd á Keflavíkurflugvelli. Engu að síður, vegna þess hvaða umr. og blaðaskrif hafa orðið um þessi mál nú nýverið, þá hef ég ákveðið og hafið ráðstafanir til þess að reyna að ganga til fulls úr skugga um það, að ég fari hér með rétt mál. Það er þá svar mitt við þriðju spurningu hv. 3. þm. Reykn. að ráðstafanir verða gerðar, og þær ráðstafanir, sem ég hef í huga, eru að láta athuga hvort Geislavarnir ríkisins eða aðrir íslenskir vísindamenn um kjarnorkuefni geti með geislamælingum gengið fullkomlega úr skugga um þetta.

Það hefur verið hreyft þeirri hugmynd hér á hv. Alþ. og víðar að íslendingar ættu að koma sér upp herfróðum mönnum. Ég hef ekki verið þessarar skoðunar. En ef meiri hl. Alþ. er þeirrar skoðunar að við eigum að stofna hér herdeild eða deild sérfróðra manna til þess að fylgjast með því hvað varnarliðið er að gera hér, þá er auðvitað hægurinn hjá, þá getur Alþ. samþ. slíka þáltill. og þá verður hún að sjálfsögðu framkvæmd. Hins vegar hef ég ekki séð hana enn. Það má vera að hún sé í prentun nú, ég veit það ekki.

Ég vona að þessar upplýsingar, sem ég hef reynt að gefa hér, að vísu með fremur litlum fyrirvara, séu fullnægjandi. Ég er hv. 3. þm. Reykn. þakklátur fyrir þau ummæli, sem hann lét falla í minn garð, að vegna smávægilegrar sjúkrahúsvistar hef ég ekki haft ýkjamikinn tíma til að sinna þessum málum undanfarnar 6 vikur. Ég met það við hann að hann skuli taka tillit til þess, og þetta eru þau svör sem ég get gefið á þessari stundu.