27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vona að hæstv. utanrrh. taki það ekki sem móðgun þó að ég segi að þau orð, sem hann lét falla áðan í tilefni af því máli sem hér er til umr., eru langt frá því að geta talist nein trygging fyrir því að ekki séu kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Ég vil fá að heyra hæstv. ráðh. skýra frá því með hvaða hætti hann hefur komist að þessari „óyggjandi niðurstöðu“ eða fengið það sem hann nefnir „óyggjandi upplýsingar“ um það, að ekki eru geymd kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Á meðan hann gerir þetta ekki, þá tel ég því miður, a. m. k. persónulega, einskis virði þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan.

Hann heitir því að nú skuli gera ráðstafanir og sendir sérfræðingar — kjarnorkusérfræðingar — til þess að athuga hvort einhvers staðar sé um að ræða þá geislavirkni á Keflavíkurflugvelli sem bent gæti til þess að þarna séu kjarnorkuvopn. Ég er álíka ófróður um þetta að sjálfsögðu eins og hæstv. utanrrh., en ég gæti vel trúað því að kjarnorkuvopn væru einmitt geymd í þess háttar hylkjum að geislun frá þeim dreifðist ekki hvert sem vera skyldi.

Ég tel óhjákvæmilegt að stjórnvöld setji rannsóknarnefnd í þessi mál. Sú n. gæti verið skipuð fulltrúum sem t. a. m. væru tilnefndir af stjórnmálafli. Hins vegar er spurning hvert þessi n. ætti að leita upplýsinga svo að þær gætu talist öruggar. T. d. til hinnar svonefndu varnarmáladeildar utanrrn.? Heldur held ég að lítið yrði leggjandi upp úr upplýsingum sem þaðan kæmu, enda hefur forstöðumaður þeirrar deildar, eins og hv. þm. Gils Guðmundsson nefndi áðan, sagt að hann hefði „takmarkaða aðstöðu“ til þess að kanna þessi mál til hlítar. Er hann þó heimagangur á Keflavíkurflugvelli, eins langt inni við gafl hjá ameríkananum á Keflavíkurflugvelli eins og okkur íslendingur getur komist. Ég segi líka að ég tel hæpið að treysta t. d. þeim upplýsingum sem við kynnum að fá frá hermálaráðuneyti Bandaríkjanna í sambandi við þessi mál eða einhverjum undirstofnunum þess, svo oft hafa þeir aðilar orðið berir að helberum ósannindum í sambandi við mál af þessu tagi. Við getum hins vegar leitað að mínum dómi upplýsinga, sem mark væri á takandi, t. d. hjá vissum aðilum í nágrannalöndum okkar og sérstaklega hjá frændþjóðum okkar, eins og hv. þm. Gils Guðmundsson vék einnig að áðan, og líka vestur í Bandaríkjunum sjálfum, t. d. hjá utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar eða einhverjum þeim ágætu n. sem starfa á vegum Bandaríkjaþings og hafa allt að því ótakmörkuð völd til þess að kanna mál, kryfja til mergjar og rannsaka, yfirheyra menn. Ég held satt að segja, að svo framarlega sem einlægur vilji er hjá íslenskum stjórnvöldum til þess að komast að óyggjandi niðurstöðu varðandi þessi mál, þá ættu íslensk stjórnvöld að sniðganga höfuðstöðvar lyginnar í þessum efnum, eins og til að mynda hermálaráðuneyti, og snúa sér beint að þeim nefndum sem ég var nú að nefna.

Mér virðist raunar kominn tími til að íslensk stjórnvöld leiti til þessara nefnda varðandi ýmis önnur mál, eins og t. a. m. hugsanlega starfsemi bandarísku leyniþjónustunnar hér á landi. Þessar nefndir hafa að undanförnu verið að fletta miskunnarlaust ofan af starfsemi leyniþjónustunnar heima í Bandaríkjunum og víðs vegar um heiminn. Og auðvitað hefðu íslensk stjórnvöld fyrir löngu átt að vera búin að gera ráðstafanir til þess að afla þeirra upplýsinga sem áreiðanlega er að finna í þeim plöggum sem upp hafa komið í þessu sambandi varðandi starfsemi bandarísku leyniþjónustunnar hér á landi. Eða dettur nokkrum manni í hug að hin miklu umsvif bandarísku leyniþjónustunnar hafi ekki náð hingað. Og dettur nokkrum manni í hug að agentar hennar beri eitthvað meiri virðingu fyrir mannhelgi hér upp á Íslandi heldur en vestur í Bandaríkjunum sjálfum? Úr því að bandarískir þm. eru í hópum saman á þeim skrám yfir hættulegar persónur sem bandaríska leyniþjónustan hefur sett saman, hví skyldu þá ekki einhverjir íslenskir stjórnmálamenn líka vera ú þeim skrám? Og símahleranir sem þessi þjónusta hefur orðið uppvís að, halda menn að þær mætti ekki líka framkvæma hérna? Það þarf ekki að skríða niður í neinn símstöðvarkjallara hér í Reykjavík frekar en vestur í Bandaríkjunum til þess að framkvæma þær með þeim tækjum sem bandaríska leyniþjónustan hefur yfir að ráða. Ef íslensk stjórnvöld láta sig einhverju varða mannhelgi hér uppi á þessu landi, þá eiga þau að sjálfsögðu að gera ráðstafanir í þessa átt.

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning og til þess að koma í veg fyrir útúrsnúninga og hártoganir sem vissir menn iðka gjarnan þegar einhver leyfir sér að ýja að því, að það væri vissara fyrir okkur íslendinga að hafa gát á hlutunum í samskiptum okkar við bandaríkjamenn, þá skal það tekið fram, að ég tel einnig sjálfsagt að rannsökuð sé starfsemi rússnesku leyniþjónustunnar hér á landi og leyniþjónustu annarra stórvelda sem eru jafnvel enn þá lengra í austur á þessum hnetti okkar. Ég tel m. ö. o að það sé sjálfsagt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að hreinsa burt öll óþrif af þessu tagi.

Nú langar mig til þess að víkja nánar að því sem hv. þm. Gils Guðmundsson aðeins drap lauslega á, en það eru viðbrögð bandarískra hernaðaryfirvalda við þeim fullyrðingum um kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli sem hér eru til umr.

Póker nefnist fjárhættuspil sem lengi hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í því spili er það mikill styrkur að vera með það sem bandaríkjamenn nefna „pokerface“. „Poker-face“ hefur sá maður sem lætur aldrei sjá þess nein merki í svip sínum hvers konar spil hann er með á hendinni. Þegar hernaðaryfirvöld á Keflavíkurflugvelli voru innt eftir því hvað hæft kynni að vera í fullyrðingum Barry Schneiders um það að kjarnorkuvopn væru á Keflavíkurflugvelli, þá svöruðu þau því til, að það væri regla bandaríkjamanna að staðfesta aldrei neitt varðandi þessi efni, fullyrða aldrei hvort á einhverjum stað væru eða væru ekki kjarnorkuvopn — eða m. ö. o., þau settu upp „pokerfaee“. Og hvers vegna? Að sjálfsögðu vegna þess að bandaríkjamenn meta gildi herstöðva yfirleitt, þar með að sjálfsögðu einnig herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, eftir því hve mikill stuggur andstæðingum þeirra stendur af þeim. Þetta er liður í hinu glæfralega stórveldatafli um völd og áhrif í heiminum, hinu skuggalega pókerspili. Samkv. mati bandaríkjamanna kemur Keflavíkurflugvöllur þeim því aðeins að gagni í þessu tafli að andstæðingar þeirra reikni með því, geri a. m. k. fastlega ráð fyrir því, að Keflavíkurflugvöllur sé atómstöð. — Og þeim mun hættulegri atómstöð sem andstæðingarnir telja að Keflavíkurflugvöllur sé, þeim mun meiri styrkur telja bandaríkjamenn að sjálfsögðu að þeim sé að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Leiðir þá ekki af þessu, að svo framarlega sem helstu andstæðingar bandaríkjamanna í þessu tafli, þ. e. a. s. rússar, hafa sannfærst um að Keflavíkurflugvöllur sé atómstöð, þá hljóti þeir, ef til stríðs kemur, að gera ráðstafanir til þess að hún verði sem fyrst óvirk, þessi atómstöð, og mundu þá beita til þess sams konar vopnum og þeir telja að þar séu? Á því er að sjálfsögðu enginn vafi.

Var nú einhver að spyrja hvort ég sé að gefa það í skyn að bandaríkjamenn láti sig einu gilda öryggi íslensku þjóðarinnar — þessir ágætu vinir okkar? Ég er ekki aðeins að gefa það í skyn, ég er að fullyrða það. Og þá á ég reyndar ekki við bandarísku þjóðina yfirleitt. Ég er að tala um hernaðaryfirvöld hennar sem stjórna þessu tafli fyrir hennar hönd. Bandarísk hernaðaryfirvöld láta sig einu gilda hver kunna að verða afdrif íslensku þjóðarinnar í þessu tafli, enda eru þeir eflaust fleiri en Joseph Luns framkvæmdastjóri NATO, sem heimsótti okkur sællar minningar nú fyrir skemmstu, sem telja að þetta land þessarar litlu þjóðar hafi fyrst og fremst gildi sem flugvélamóðurskip sem ekki sé hægt að sökkva. Og hitt er jafnvíst, að hvað svo sem vera kann um vináttu í okkar garð hjá rússnesku þjóðinni, þá er næsta hæpið að treysta því að hjá rússneskum hernaðaryfirvöldum yrði að finna meiri tillitssemi gagnvart íslendingum, afdrifum þeirra, ef taflið kæmist á það stig að upp úr syði og styrjöld skylli á.

Hæstv. utanrrh. okkar hefur sem sé lýst því yfir, að hann sé sannfærður um að það séu ekki til kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli. Þurfum við þá nokkuð frekar að hafa áhyggjur af málinu? Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvort við teljum líklegt að höfuðandstæðingar bandaríkjamanna, rússar, leggi meira upp úr þessari yfirlýsingu utanrrh. okkar eða þeim viðbrögðum talsmanna bandarískra hernaðaryfirvalda, sem sett hafa upp „poker-faee“ í þeim augljósa tilgangi að koma umfram allt í veg fyrir það, að andstæðingar bandaríkjamanna fari að reiknast með því að Keflavíkurflugvöllur sé eitthvað annað og saklausara en atómstöð.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. þm. Gils Guðmundsson sagði hér áðan í lok ræðu sinnar. Ég vona að þetta mál verði til þess að auka skilning íslensku þjóðarinnar á því, að til þess að losa okkur til fulls við þá hættu sem okkur stafar af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, hvort sem þar eru í rauninni geymd kjarnorkuvopn eða ekki, — til þess að losna til fulls við þá hættu er aðeins ein leið til, og hún er sú, að við losum okkur við þessa herstöð.