27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tengja mikið þessar umr. utan dagskrár. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. utanrrh. þau svör sem hann á þessari stundu taldi sig reiðubúinn að gefa, enda þótt ég verði að viðurkenna að hæstv. ráðh. tókst ekki að svipta þeirri óvissuhulu af þessu máli sem að mínu viti hefur hvílt yfir því og hvílir yfir því enn. Spurningunni um hugsanlega geymslu kjarnorkuvopna á Keflavíkurflugvelli er eins ósvarað eftir sem áður, því miður.

Ég vil samt vona og ég tel mig geta lagt þann skilning í orð hæstv. ráðh. að hann hafi fullan skilning á því, að íslenska þjóðin vill vita vissu sína í þessum efnum. Almenningur í landinn, fyrst og fremst þeir sem búa í nánd herstöðvarinnar, en einnig aðrir, á að mínu viti heimtingu á að fá að vita hvað er raunhæft í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. sagði það sama og ég hef heyrt bæði hann og aðra ráðamenn segja oft áður: „Við teljum okkur,“ sagði ráðh., „hafa vitneskju fyrir því að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn.“ En þetta er okkur ekki fullnægjandi, þar sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á það með neinu eðlilegu móti hvernig þessi vitneskja er til komin, á hverju hún byggist, á hversu traustum grunni hún byggist. Og það, sem hefur verið haft eftir öðrum ráðamönnum og ég vitnaði dálítið til áðan og þó ekki nema að litlu leyti, bendir ótvírætt í þá átt að sú vitneskja, sem þeir telja sig hafa, er á harla litlum og ótraustum grunni reist. Ég vitnaði til þess, sem haft var eftir formanni varnarmálanefndar, og annar ráðamaður hygg ég að hafi sagt í viðtali fyrir fáum dögum að hann hafi ekki rekið sig á neinn slíkan búnað á Keflavíkurflugvelli. Í sambandi við slík ummæli af ráðamanna hálfu vil ég aðeins segja það, að hamingjunni sé lof að hann hefur ekki rekið sig hastarlega á kjarnorkusprengju. Þetta mál er að vísu þess eðlis, að það er varla hægt að hafa það í flimtingum, en manni finnst óneitanlega að þessi og þvílík viðbrögð séu næsta brosleg þegar um slíkt mál eins og þetta er að ræða.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að ég hygg að það séu ýmsir möguleikar fyrir hæstv. utanrrh. að afla upplýsinga, koma þeim á framfæri í fyrsta lagi við utanrmn. og síðan væntanlega við alþjóð. Með ýmsu móti má afla upplýsingu um þessi mál sem hljóta að teljast mikilvæg fyrir okkur íslendinga sem búum við það nú um sinn, því miður, að þessi herstöð er í mesta þéttbýli landsins. M. a. vil ég bendu honum á það, að nágranna- og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, utanrrn. þeirra allra, að ég held, hafa sérstakar deildir sem fást við rannsóknir, hreinar rannsóknir á því sem snertir hernaðarmál og þ. á m. ekki síst kannske kjarnorkumál. Ég vil þá alveg sérstaklega í því sambandi benda á utanrrn. svía sem hefur marga menn í sinni þjónustu einmitt í sambandi við könnun á þessum málum, og sumar upplýsingar þeirra liggja, að ég hygg, hreinlega á lausu ef eftir þeim væri leitað. Svipað hygg ég að sé með norðmenn, þó að þeir hafi ekki eins sterkt lið í sambandi við slíkar rannsóknir. Háskólar á Norðurlöndum – mér er kunnugt um það, að bæði háskólar í Noregi og Svíþjóð hafa á sínum vegum eða í tengslum við háskólana eru rannsóknir í gangi og rannsóknastofnanir hreinlega starfandi í sambandi við utanríkismál og hernaðarmál. Frá þessum stofnunum hygg ég að megi fá ýmsar upplýsingar sem gætu verið okkur verðmætar og a. m. k. betri en það eitt að segja: Ég er sannfærður um að hér eru engin kjarnorkuvopn. — Það er allt of veikt að fullyrða slíkt eingöngu og geta ekki skýrt frá því, á hvaða rökum þær fullyrðingar eru byggðar.

Svo vil ég aðeins endurtaka það, að þrátt fyrir þær umr., sem hér hafa farið fram um það, hvort kjarnorkuvopn kunni að vera hér, þá er hitt að sjálfsögðu aðalatriði málsins, sem ég skal gera að mínum síðustu orðum, að meðan hér er erlend herstöð í landinu, sem við ráðum ekki á neinn hátt yfir og getum ekki stjórnað á nokkurn hátt, kemur alltaf til með að ríkja meiri eða minni óvissa í þessum efnum. Þess vegna er eina raunverulega lækningin í þessum efnum sú eð losna við þessa herstöð.