27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

60. mál, jafnrétti kynjanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við þm. Alþfl. á Alþ. höfum leyft okkur að flytja till. til þál. um setningu löggjafar um jafnrétti kynjanna.

Á s. l. ári lagði ríkisstj. norska Verkamannaflokksins fyrir Stórþingið frv. til l. um jafnrétti kynjanna og er það enn til meðferðar í þinginu. Í þessu frv. eru fjölmörg nýmæli varðandi jafnrétti kvenna og karla til viðbótar þeim lagaákvæðum sem gild eru þar í landi og raunar víða um þessi efni, einkum þó um launajafnrétti kvenna og karla. Í frv. eru auk þess ýmis önnur atriði, ýmis nýmæli sem vakið hafa miklar umr., ekki aðeins í Noregi, heldur um gjörvöll Norðurlönd. Það, sem í þessari till. felst, er að Alþ. álykti að fela hæstv. ríkisstj. að láta semja frv. um jafnrétti kynjanna þar sem sé haft mið af ýmsum nýmælum sem einmitt felast í hinu norska frv.

Það var á árinu 1961 sem þm. Alþfl. undir forustu Jóns Þorsteinssonar þáv. alþm. fluttu frv. sem varð að lögum um launajöfnun kvenna og karla. Er óhætt að fullyrða að samþykkt þeirra laga markaði tímamót í jafnréttisbaráttu kvenna á sviði launamála. Fyrir þremur árum, 1973, fluttu þm. úr öllum flokkum undir forustu hv. þm. Svövu Jakobsdóttur frv. um Jafnlaunaráð, sem einnig var merkilegt mál. Jafnlaunaráði var m. a. ætlað að hafa raunhæft eftirlit með því að ákvæðum laga um launajöfnuð kvenna og karla yrði fylgt í reynd, en ýmsir töldu að á því væri nokkur misbrestur. Því miður hafa fjárveitingar til Jafnlaunaráðsins verið svo takmarkaðar að það hefur enn ekki getað hafist handa um að starfa af þeim krafti sem ég veit að Jafnlaunaráðið vill að sé í störfum þess. Því miður tókst ekki að fá fram umtalsverða hækkun á fjárveitingum til Jafnlaunaráðsins við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir gildandi ár, en það stendur vonandi til bóta.

Það, sem gert er ráð fyrir í þessari till., er að þessi tvenn lög, þ. e. a. s. lög um launajafnrétti kvenna og karla annars vegar og lög um Jafnlaunaráð hins vegar, séu sameinuð í einn lagabálk og auk þess höfð hliðsjón við frv.- smíðina af nokkrum nýmælum sem einkum og sér í lagi felast í hinu norska frv., sem eins og ég sagði áðan hefur vakið mikla athygli, ekki aðeins í Noregi, heldur um öll Norðurlönd.

Í till. er sagt í fyrsta lagi, að meginatriði frv. skuli vera að konum skuli í reynd tryggt algert jafnrétti á við karlmenn á öllum sviðum þjóðlífsins og konur og karlar skuli eiga jafnan rétt til vinnu og menntunar. Þá er bent á að nauðsyn sé skýrra og ótvíræðra lagaákvæða um að við ráðningu í störf, flutning milli starfa, skiptingu í launaflokka, veitingu orlofs frá starfi eða uppsögn skuli óheimilt að miða reglur við það, hvort um konu eða karl sé að ræða, og ef bæði karl og kona geti gegnt starfi sé óheimilt að miða auglýsingu við annaðhvort kynið. Það er líka gert ráð fyrir að bannað sé að vinnuveitandi óski þess að væntanlegur starfsmaður sé fremur af öðru kyninu en hinu. Og til þess að tryggja rétt hvors kynsins sem er og í þessu tilfelli þá fyrst og fremst kvenna er gert ráð fyrir því, að umsækjandi, sem fái ekki stöðu sem hann hefur sótt um, geti krafist þess að vinnuveitandi láti honum í té skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, reynslu eða aðra hæfni sá umsækjandi hafi haft til að bera sem stöðuna hlaut. Lagaákvæði um þetta efni eru engan veginn ónauðsynleg. Nægir í því sambandi að vitna til þess, að ég hef fyrir satt að það hafi gerst í einu rn. hér að konu, sem hafði háskólapróf og tilskilda menntun til þess að gegna ákveðnu starfi sem hún sótti um, hafi verið synjað um starfið og öðrum veitt það og þau rök höfð uppi, að vísu munnlega, að starfið hentaði ekki konu.

Þá er gert ráð fyrir því, að í því frv., sem till. gerir ráð fyrir að samið verði, sé kveðið ótvírætt á um að með sömu launum fyrir sömu vinnu sé átt við allar greiðslur og öll hlunnindi sem vinnuveitandi lætur af hendi og launin skuli ákveðin með nákvæmlega sama hætti hvort sem um er að ræða karl eða konu. Jafnframt er gert ráð fyrir skýrum lagaákvæðum um að konur og karlar, sem starfa hjá sama vinnuveitanda, skuli eiga sama rétt til starfsmenntunar og starfsþjálfunar ásamt orlofi til þess að afla sér slíkrar menntunar og þjálfunar, en um slíkt eru engin ákvæði í gildandi lögum, hvorki lögum um launajafnrétti né lögum um Jafnlaunaráð.

Að síðustu er gert ráð fyrir því, að tekið verði í það frv., sem við leggjum til að samið verði, ákvæði um að auglýsingar megi ekki vera með þeim hætti, að í ósamræmi sé við grundvallarregluna um jafnrétti kynjanna, né heldur þannig, að það særi siðferðisvitund annars hvors kynsins. En það fer ekki á milli mála að konur eru mjög misnotaðar sem auglýsingatæki á þann hátt, að mjög eðlilegt er að konur telji sér með því sýnd lítilsvirðing, að kyn þeirra sé óvirt með misnotkun á ósmekklegri og ósiðferðilegri misnotkun á kveneðlinu. Þetta er mál sem víða er rætt, ekki aðeins á Norðurlöndum, heldur í Vestur-Evrópu og Ameríku. Mér er að vísu ekki kunnugt um að nokkurs staðar hafi verið tekin í lög ákvæði um þetta efni, enda eru þau eflaust vandsamin, en málið er á dagskrá í öllum siðuðum löndum þar sem mikið kveður að auglýsingum á annað borð. Gildir þetta raunar ekki einvörðungu um misnotkun kveneðlisins í auglýsingaskyni, heldur væri full ástæða til þess að setja almennar reglur um það, með hvaða hætti auglýsingar skuli gerðar, þannig að þær misbjóði ekki heilbrigðum smekk eða heilbrigðri siðgæðisvitund neytenda, burt séð frá því sem nú þegar er bannað, að í auglýsingum megi að sjálfsögðu ekki felast blekkingar, eina og allir hljóta að vera sammála um.

Ég vona að þessi till. hljóti góðar undirtektir. Það er nauðsyn á sameiningu þeirra laga sem um það efni gilda sem till. fjallar um, og ég vona að samstarf geti tekist milli allra flokka um að nauðsyn sé á þeirri lagasetningu sem hér er lagt til að undirbúin verði.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn. Sþ.