27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

60. mál, jafnrétti kynjanna

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í júlímánuði s. l. var ákveðið að láta semja frv. til l. um jafnrétti kvenna og karla. Tilgangurinn var að fella saman í ein lög gildandi ákvæði um þessi efni, taka einnig upp nýmæli og skýrari fyrirmæli til þess að tryggja í reynd jafnrétti og jafnstöðu kvenna og karla. Í félmrn. hefur síðan í fyrrasumar verið unnið að undirbúningi frv., og nokkru fyrir jól lágu fyrir drög að frv. um jafnrétti kvenna og karla. Þá þótti ekki rétt að leggja frv. fram vegna annríkis á þingi. Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón m. a. af því frv. sem liggur fyrir norska Stórþinginu og hv. 1. flm. þessarar till. minntist á.

Ég geri ráð fyrir að þetta frv. verði lagt fyrir Alþ. fljótlega. Ég vil taka það fram, að ég skýrði hv. 1. flm. till. frá þessum undirbúningi lagafrv. áður en hann flutti till. sína.