27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

60. mál, jafnrétti kynjanna

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessu fram komna frv. og jafnframt boðuðu frv. ríkisstj. Það er mjög ánægjulegt að fleiri en aðeins konur hér á þingi skuli hafa hug á að gera eitthvað í þessum málum. En jafnframt harma ég að hafa ekki fengið eitthvað að sjá um það frv. sem er í undirbúningi hjá hæstv. félmrh.

Það hefur mikið verið rætt um norska frv., eins og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason tók hér fram, en hann tók ekki fram að það hefur ekki allt verið eingöngu jákvætt. Það, sem mig langar að koma á framfæri hér í því sambandi, er að í þeim umr., er farið hafa fram í Noregi, hefur fólk, sem er að berjast fyrir jafnréttismálum, bent á að kannske hefði verið betra að láta ekki semja lagafrv. um jafnrétti kynjanna, heldur hreint og beint um bann við misrétti. Í þeim blaðaskrifum, sem þar hafa verið, hefur verið bent á ákveðin vandkvæði sem fólki þykja fyrirsjáanleg við beitingu þessara laga.

Við höfum líka dálitla reynslu af slíkum hlutum hér. Það voru samþykkt hér ágæt lög um Jafnlaunaráð, en það kemur strax fram, þegar á að fara að beita þeim, að á því eru vandkvæði. Því miður hefur framkvæmdin í sambandi við lögin um Jafnlaunaráð ekki reynst eins og menn vonuðust til. Þar er ýmsu um að kenna, t. d. því, að þetta ráð hefur ekki fengið fjárveitingu til þess að halda uppi þeirri starfsemi sem því er ætlað.

Í Noregi er líka bent á það, að e. t. v. sé ekki nóg að semja bara lög um jafnrétti kynjanna. Það geti verið nauðsynlegt að veita konum ákveðin, tímabundin forréttindi á meðan aðstaðan er jöfnuð. Og það er líka bent á eitt sem ekki kemur fram í þessari till., en gæti að sjálfsögðu komið fram ef sett yrði n. til að semja slíkt lagafrv., að það sé alveg nauðsynlegt í allri slíkri lagasetningu að gæta þess, að fullt tillit sé tekið til hlutverks kvenna í fjölgun mannkynsins.

Það er stór spurning, hvernig verður tryggt að framkvæmd slíkra laga verði framkvæmd í raun, og þá er spurningin, eins og hv. þm. Svava Jakobsdóttir benti á: Hver er það, hvaða aðili, sem hefði eftirlitið ?