27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

21. mál, Olíusjóður

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér er fram borin, hefur nú verið hér í sölum þingsins nokkurn tíma og á þeim tíma hafa gerst allmiklir hlutir í þessu máli, þ. e. a. s. að fiskiskipafloti Íslands á stórum svæðum við landið sigldi að landi, m. a. til að mótmæla sjóðakerfi sjávarútvegsins. Sem betur fer hefur sú deila leyst í bili. En það, sem hér er fram borið, á samt jafnbrýnt erindi og áður. Menn hafa fengið það mikið innlegg í málið, að ég ætla að þeir séu betur undir það búnir að taka á móti till. Ég vil þó leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það sem hér stendur.

Till. til þál. um afnám Olíusjóðs fiskiskipa. Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja niður Olíusjóð fiskiskipa og afnema þau útflutningsgjöld er honum við koma. Endurskoðaðar verði allar greiðslur sjávarútvegsins í formi útflutningsgjalda með lækkun þeirra fyrir augum. Fiskverð verði hækkað sem þessum leiðréttingum nemur.

Greinargerð.

Á undanförnum árum hafa vaxið mjög afskipti Alþ. af deilum sjómanna og útgerðarmanna um kaup og kjör. Hafa afskipti þessi löngum orðið á þann veg að stærri og stærri hluti fiskverðsins hefur verið greiddur utan skipta. Þetta hefur verið gert með myndun sameiginlegra sjóða af útflutningsgjöldum á sjávarafurðum. Með þessu móti nýtur hvert skip ekki lengur að fullu þess afla sem það færir að landi. Þetta kerfi brýtur öll hagfræðilögmál, skapar rangar hugmyndir um það, hvað sé arðbært í sjávarútvegi á hverjum tíma, og stuðlar að rangri ákvarðanatöku. Skal ég nú leitast við að skýra þetta nánar.

Í sumar fór af verði bræðslufisks meira en helmingur af fiskverðinu í sjóðina, tekið sem útflutningsgjöld.

Ég læt hér fylgja sem sýnishorn hvernig greiðslur útflutningsgjalda geta orðið. Hér fylgja einnig útreikningar Þjóðhagsstofnunar á útflutningsgjöldum sjávarafurða. Þeir ættu að opna augu manna fyrir því um hvaða upphæðir er að ræða.“

Sem dæmi um hvernig þetta kemur út gagnvart einstökum skipum er tekið gamalt skip, gert út frá Patreksfirði, Garðar BA 64. Aflamagnið er 936 tonn. Þetta er þorskur á vetrarvertíð. Aflaverðmæti er um 30 millj. kr. Það er það sem greitt er fyrir aflann sem fiskverð. Útflutningsverðmæti — aflinn er verkaður í saltfisk og þá er um tvöföldun að ræða — er 60 millj. kr. Útflutningsgjöld af saltfiski eru 18.3% og það gerir samtals 10 millj. og 980 þús.

Svo kemur að ráðstöfun gjaldsins. Ég tel að sumir þeirra sjóða, sem hér eru upp taldir og fá lítið í sinn hlut, eigi mun meiri rétt á sér en aðrir. Ég vil nefna sem dæmi í því sambandi bæði samtök sjómanna og Landssamband ísl. útvegsmanna, sjávarrannsóknirnar, hafrannsóknaskipið. Ég veit ekki hvort Fiskimálasjóður sem slíkur styrkir útgerðina beint, en hann styrkir þó t. d. tilraunastarfsemi varðandi útflutning á sjávarafurðir. En svo eru tveir sjóðir sem taka bróðurpartinn af þessu fé, og það eru Olíusjóður og Tryggingasjóður.

Ég vil biðja menn alveg sérstaklega að athuga þessa tvo sjóði. Tryggingasjóðurinn tekur 1 millj. 527 þús. kr. af þessum eina bát, sem er orðinn gamall eins og ég sagði áður, og þetta er miklu meira gjald en tilheyrir honum til greiðslu á sinni tryggingu. Olíusjóðurinn aftur á móti tekur 6 millj. 900 þús. — og fyrr má nú rota en dauðrota. Útreikningar koma á næstu bls. varðandi Olíusjóðinn sem ég vil biðja menn alveg sérstaklega að athuga. Notkunin hjá bátnum er 51 þús. lítrar. Verðið á þessari olíu, eins og honum er seld olían, er 5.80 á lítra. Það gerir 295 800 kr. Þetta er hann látinn borga beint yfir borðið fyrri olíuna, en framlagið, sem hann er látinn greiða í Olíusjóð, er 6 millj. 900 þús. Samtals er hann látinn greiða fyrir olíu 7 195 800 kr. Rétt kostnaðarverð á olíu er 20.20 kr. Eigin greiðsla, sem ætti þá að dragast þarna frá, er 5.80 kr. Mismunurinn, það sem hann hefur fengið greitt úr sjóðnum, er 14.40 kr. Samtals hefur báturinn greitt fyrir olíu, eins og við sjáum þarna neðst, 7 195 800 kr., sú tala var komin áður, og ef deilt er með lítrafjöldanum í þetta, þá kemur í ljós að hann hefur þurft að borga fyrir hvern lítra af olíu 141 kr.

Ég ber þá virðingu fyrir Alþ., að ég vil halda því fram að þm. hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, hvað þeir voru að samþ., þegar Olíusjóðurinn var samþ. í því formi sem hann er núna, eins og þetta er framkvæmt. Ég tel að þegar sum skip eru skattlögð til að borga upp í 141 kr. fyrir lítra af olíunni, þá sé um mistök í framkvæmd að ræða, þetta hafi ekki getað verið ætlun eins eða neins. Að mínu viti er á hreinu að þessu verður að breyta.

Svo vil ég taka fyrir seinni hluta þessa og þar fæst hugmynd um hvaða upphæð er hér um að tefla, og það er mat Þjóðhagsstofnunar. Þessar tölur eru byggðar á afla fram til 15. sept., en áætlaðar það sem eftir er af árinu. Það er Tryggingasjóður fiskiskipa — þetta eru milljónir — 1247. Olíusjóður fiskiskipa 1550. Viðbót við Olíusjóð skv. frv. 1440. Aflatryggingasjóður, almenn deild, 440. Aflatryggingasjóður, áhafnadeild, 530. Fiskveiðasjóður 457. Ferskfiskmat ríkisins 50. Fiskimálasjóður 28. Aðrir viðtakendur, þ. e. sjávarrannsóknir, samtök sjómanna og útvegsmanna, 38. Þetta eru allt millj. kr. Þetta gerir samtals 5 milljarða 790 millj. kr.

Ég held að allir, sem leitt hafa hugann að þessu kerfi, geri sér grein fyrir því að tilvist þess er sjávarútveginum til lítillar blessunar. Halda menn að hið alranga olíuverð hvetji menn til sparnaðar í meðferð olíunnar? Deilur um skiptakjör á fiskiskipum verður að leysa á annan veg, og hvert skip verður að fá réttar greiðslur fyrir þann afla sem það kemur með að landi.

Menn hafa e. t. v. veitt því athygli, ef þeir bera saman útreikninga Þjóðhagsstofnunar annars vegar á olíugjaldinu, hvað það er stór hluti af útflutningsgjaldinu í heild, og hins vegar hvað það er stór hluti þegar þeir skoða þetta hjá bátnum, sem tekinn er hér sem dæmi, þá kemur í ljós að þetta er til muna stærri hluti hjá þessu eina fiskiskipi sem þarna er um að ræða, og það stafar af því að útflutningsgjöldum af saltfiski er þannig skipt að af þessum 18.3% fara um 11.5% í Olíusjóðinn sé um saltfisk að ræða, en venjulega er þetta nálægt 8%. Eins og Þjóðhagsstofnun reiknar fær Olíusjóðurinn rúman helming af því sem hér er um að ræða. Hann fær sem sagt 3 milljarða af 5 milljörðum 790 millj.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mjög langt mál fram yfir það sem ég hef sagt, en vil þó aðeins geta þess, að Olíusjóður er stofnaður og sú ákvörðun er tekin hér á Alþ. þegar verðhækkun verður á olíu og það veruleg. Hvort olía aftur á móti er í dag miklu dýrari, miðað við verð á fiski, heldur en t. d. á árunum 1930–1940 hef ég ekki kynnt mér, en ég er mjög í vafa um að það sé.

Aðalatriðið í málinu virðist mér vera það, að hvert skip verði að fá andvirði þess afla sem það kemur með að landi, en ekki setja þetta þannig upp að heil byggðarlög séu e. t. v. látin greiða ógrynni fjármagns í olíu fyrir einhverja aðra. Það tel ég að sé alveg forkastanleg ráðstöfun, svo að ekki sé meira sagt. Mér er til efs að slíkt geti nokkurn tíma leitt til annars en að liggi við uppreisnarástandi á flotanum, eins og verið hefur undanfarið.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að þessari till. verði vísað til sjútvn. Ed., með leyfi hæstv. forseta. Svo þakka ég fyrir.