27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

84. mál, jarðhitaleit á Snæfellsnesi

Flm. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Á þskj. 91 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um jarðhitaleit á Snæfellsnesi.

Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstj. er lögð mikil áhersla á hagnýtingu innlendra orkugjafa hvar sem því verður við komið. Þar er varmaorkan að sjálfsögðu í fremstu röð. Stefna skal að því að koma á fót hitaveitum þar sem aðstæður leyfa, hagnýta jarðvarmann svo sem kostur er, en tryggja öðrum sem fyrst raforku til húsahitunar.

Byggðir landsins eru mjög misauðugar af jarðhita. Sums staðar er hann á yfirborði jarðar í heitum hverum og laugum, svo sem víða í Borgarfjarðarhéraði þar sem gífurlega mikill jarðhiti er óvirkjaður. Annars staðar er hann dýpra í jörðu. Mikið skortir á að landið sé fullkannað að þessu leyti. Þó eykst þekking manna á þessu sviði ár frá ári. Talið er að Vesturland búi yfir miklum möguleikum á aukinni nýtingu jarðhita, og er það raunar alveg augljóst.

Á Snæfellsnesi hefur nokkur jarðhitaleit farið fram á síðustu árum. Hefur hún verið framkvæmd af starfsmönnum jarðhitadeildar Orkustofnunar að beiðni ýmissa aðila heima fyrir. Jarðhiti hefur fundist á nokkrum stöðum á nesinu, aðallega sunnanfjalls, en hans hefur einnig orðið vart norðanfjalls, og vitað er um jarðhita í Breiðafjarðareyjum. Sérfræðingar þeir, sem kannað hafa þessi mál, hafa komist að orði m. a. á þessa leið:

„Það hefur háð jarðhitaleit á norðanverðu Snæfellsnesi hversu skammt alhliða rannsóknir á eiginleikum og dreifingu jarðhita á nesinu eru á veg komnar. Allt þekkt jarðhitavatn á Snæfellsnesi er ölkelduvatn og talsvert frábrugðið heitu vatni á flestum öðrum lághitasvæðum landsins að efnasamsetningu og e. t. v. uppruna. Þá eru kaldar ölkeldur mun algengari á Snæfellsnesi en í öðrum landshlutum.Æskilegt væri að gera heildarkönnun á jarðhita á Snæfellsnesi, líkt og gert hefur verið í nokkrum byggðarlögum sunnanlands og norðan. Slík heildarkönnun byggist á nákvæmri jarðfræðikortlagningu og jarðeðlisfræðilegum mælingum á stórum svæðum umhverfis jarðhitastaði svo og rannsókn á efnainnihaldi heita vatnsins. Að heildarkönnun lokinni er mun kostnaðarminna og öruggara að athuga nánar einstök svæði með tilliti til borana fyrir þéttbýlisstaði og byggðakjarna.“

Leyfist mér, herra forseti, að skjóta hér inn stuttri aths. Í síðustu mgr. grg. segir að um erindi þetta hafi verið rætt á aðalfundi sýslunefndar snæfellinga, — snæfellinga með litlum staf. Er það furða þó að þingeyingnum yrði að orði, þegar hann ræddi um afrek vinstri stjórnarinnar, þó heldur vinsamlega: Þó er hart að þurfa að skrifa þingeyingur með litlum staf. — Ég vil bæta því við, að vonandi — og þess sjást nokkur merki — verður nú farið að láta til skarar skríða um endurskoðun og endurbætur á þeim breytta rithætti sem hvolft var yfir þjóðina eins og þrumu úr heiðskíru lofti ekki alls fyrir löngu.

Já, það er rétt, sýslunefnd snæfellinga hefur nokkuð fjallað um þessi málefni. Á undanförnum árum hafa fjárstyrkir verið veittir úr sýslusjóði til jarðhitaleitar, m. a. við Laugargerðisskóla í Eyjahreppi. En betur má ef duga skal. Hér er um mikið og kostnaðarsamt rannsóknarefni að ræða. Á hinn bóginn er það mjög brýnt hagsmunamál hverju héraði að fá sem fyrst glöggt yfirlit yfir nýtanlegan jarðhita á svæðinu. Till. þessi er flutt í því skyni að hraða athugunum og framkvæmdum í þessum efnum á Snæfellsnesi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, þegar umr. verður frestað, að máli þessu verði vísað til hv. allshn.