27.01.1976
Sameinað þing: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

74. mál, uppbyggingaráætlun fyrir Skeggjastaðahrepp

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, höfum leyft okkur að flytja till. til þál. um uppbyggingaráætlun fyrir Skeggjastaðahrepp í Norður-Múlasýslu. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar hefjast handa um gerð áætlunar um alhliða uppbyggingu í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu. Áætlunin verði unnin af Landnámi ríkisins í samvinnu við Framkvæmdastofnun ríkisins á grundvelli ítarlegra till. og grg. frá Búnaðarsambandi Austurlands. Áætlunin taki mið af eftirfarandi höfuðatriðum:

1. Landbúnaður í Skeggjastaðahreppi verði efldur með sérstöku átaki með það markmið í huga að koma upp fullnægjandi aðstöðu til búskapar á minnst 16 lögbýlum, svo að þar verði hagkvæm skilyrði til búrekstrar og viðunandi íbúðarhúsnæði. Fjármagnsútvegun í formi óafturkræfra framlaga og lána verði við það miðuð, að ábúendur leggi fram í upphafi allt að 15% heildarkostnaðar. Auk lögboðinna lána og styrkja verði veittir sérstakir styrkir og lán með hagstæðum kjörum.

2. Framkvæmdum þessum verði komið í kring á næstu 5 árum og fjármagnsútvegun og undirbúningur við það miðaður að þær geti hafist sumarið 1976. Ræktun lands og afréttargirðingar skulu hafa forgang í landbúnaðaráætluninni.

3. Sérstök áætlun verði gerð um útgerð og fiskvinnslu með tilliti til eflingar Hafnarþorps. Félagsleg þjónusta verði tryggð og til þess séð, að skortur á íbúðarhúsnæði hindri ekki þá nauðsynlegu þróun þorpsins sem haldast þarf í hendur við uppbyggingu í sveitinni. Tryggt verði sérstakt lánsfé og fjárframlög til framkvæmdanna í þorpinu.

4. Framkvæmd áætlunarinnar skal vera í höndum Landnáms ríkisins og Framkvæmdastofnunar ríkisins í náinni samvinnu við hreppsnefnd Skeggjastaðahrepps og Búnaðarsamband Austurlands.“

Fyrir till. eins og þessari mætti vissulega hafa langa framsögu, þar sem rakin væri hin alkunna saga byggðaþróunar og byggðaröskunar á Íslandi, þar sem dregin væru fram í dagsljósið skýr og ljós dæmi um blómlegar byggðir sem nú eru í eyði, þar sem greint væri frá vanda þeirra sem tæpast standa í dag hvað snertir aðstöðu alla, þar sem spurning um líf eða dauða heilla byggðarlaga væri krufin og orsaka leitað, úrbóta krafist, svo sem um eru ótalin dæmi. Ég hef kosið að hafa þessa framsögu þeim mun styttri sem grg. hennar er ítarlegri, þ. e. ekki frá hendi okkar flm., heldur frá þeim heimaaðilum sem hafa í raun unnið að miklu leyti það verk sem hér er lagt til að Alþ. samþykki raunhæfa framkvæmd á.

Áhyggjur af eyðingu byggðar á þessum slóðum eru frumforsendur þeirrar athugunar sem hér er byggt á. Og hér er ekki um athugun eina að ræða. Ákveðnar till. koma í kjölfarið, rökstuddar af þeim aðila sem ég treysti best til að gera till. til úrbóta á þeim grunni sem traustan má telja, þar sem ekki er rasað um ráð fram í neinu.

Skeggjastaðahreppur hefur um margt sérstöðu. Hann er á mörkum tveggja kjördæma, Austurl. og Norðurl. e. Samstaða íbúanna með öðrum austfirðingum hefur nýlega verið undirstrikuð rækilega, og skylda okkar sem þm. þessa útvarðar okkar í norðri er vissulega mikil og brýn. Því þykir okkur hv. 5. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, rétt að knýja á málefni þessa fólks með auknum krafti, og að þessari till. okkar standa í raun allir þm. Austurl. heils hugar. Í grg. með till. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hnignun búskapar og alvarleg hætta á eyðingu byggðar eru þær höfuðorsakir, sem jafnt heimaaðilar og við flm. höfum að leiðarljósi og valda því framar öðru að hart þarf við að bregða. Þar að auki er hér um samtengda þætti að ræða, sem varða annars vegar öryggisleysi í litlu þorpi, atvinnu- og félagslegt, og hins vegar núverandi stöðu sveitarinnar sem að liggur, en búskap hefur hnignað þar mörg undanfarin ár.

Brýnustu verkefnin koma fram í tillögugerðinni sjálfri, átak í uppbyggingu sveitarinnar sem felst í áætlun um minnst 16 lögbýli þar sem búskaparaðstaða yrði viðunandi, og efling þorpsins á Höfn, þar sem bætt hafnaraðstaða yrði aðalþátturinn ásamt átaki í húsnæðismálum.

Í þessu sambandi skal sérstök áhersla lögð á tvennt:

1) Sveitin er af kunnugustu mönnum talin einkar vel fallin til sauðfjárbúskapar þar eð landgæði og landrými fara saman í ríkum mæli.

2) Rétt við bæjardyrnar eru fengsæl fiskimið, en um sumarútgerð eina er að ræða sakir ónógrar hafnaraðstöðu. Þetta fámenna sveitarfélag skilar í dag tugmilljónum í þjóðarbúið, þó að aðstæður allar séu svo erfiðar sem raun ber vitni.

Þótt um verulega aðstoð yrði að ræða í formi lánsfjár og beinna styrkja mundi fjármagnið skila sér margfalt á fáum árum.

Fyrir liggja greinargóðar upplýsingar um ástand mála nú og ákveðnar till. til úrbóta, sem okkur þykir rétt að komi fram á Alþ. að meginstofni.“

Þeir tveir höfuðþættir, sem till. er byggð á, eru annars vegar lendbúnaðarþátturinn, en í fskj. er saga hans og þróun og framtíðasýn rakin af héraðsráðunautnum á Austurlandi, Páli Sigbjörnssyni, á þann hátt, að betur verður ekki gert. Hinn þátturinn varðar þorpið að Höfn í Bakkafirði. Þar búa að vísu fáir, en framleiðsla þar á mann mun með eindæmum og gjaldeyrisverðmætið eftir því, sem á var minnt áðan. Það væri mikið glapræði ef þessi fengsælu fiskimið fengju ekki í auknum mæli að skila arði til íbúanna einmitt á þessum fámenna stað og um ,leið í þjóðarbúið sjálft. Til þess að svo megi verða þarf framkvæmdir, fyrst og fremst í hafnarmálum, en þar mun torveldastur róðurinn, því að oft hefur heyrst að hafnarframkvæmdir, jafnvel minnstu úrbætur, ættu engan rétt á sér. Meira að segja hefur því heyrst fleygt á vissum æðri stöðum að besta ráðið væri að flytja þessar fáu hræður burt, til þá auðvitað betri hafnar. Það virðist oft auðvelt að ganga á snið við staðreyndir eins og þær, hver tugmilljónaverðmæti eru þarna dregin á land við þær frumstæðu aðstæður sem þó eru þar í dag og aðeins koma að gagni að hluta, þ. e. a. s. vegna þess að það er aðeins yfir tiltölulega skamman tíma ársins. Við leggjum því áherslu á það, að hafnarmálin verði skoðuð ítarlega í þessari áætlun sem forsenda að viðgangi og eflingu þorpsins. En til þess þarf samfélagslegt sérátak, — átak sem, eins og við segjum, kostar fjármuni, en fjármuni, sem við höfum trú á að muni skila sér margfalt til baka, og fjármuni, sem þetta fólk á svo sannarlega fullan rétt á. Nú er einmitt verið að gera nokkurt átak varðandi fiskvinnsluna. Von okkar er sú, að þar standi ekki á eðlilegri aðstoð þótt okkur sé ljóst að hér er um byrjunaráfanga að ræða.

Hin félagslega þjónusta á stað sem þessum er auðvitað í algeru lágmarki og íbúarnir í þéttbýlinu mundu hiklaust telja að hún væri alls engin. En þó er rétt að benda á að sveitarstjórn hefur ýmislegt gert í átt til þess, t. d. nú með byggingu tveggja leiguíbúða sem er stórátak í þessu byggðarlagi fámennisins og hefur raunar orðið erfitt, svo erfitt að bjartsýnin ein hefur byggt á stundum. Við leggjum á það sérstaka áherslu að uppbygging þorpsins atvinnulega og félagslega verði skipulögð í tengslum við uppbyggingu blómlegrar sveitar. Hér er um nauðsynlegt samhengi að ræða, enda er hreppurinn að sjálfsögðu félagsleg heild.

Af því að ég minntist á húsnæðismálin áðan, þá er fullljóst að á því sviði þarf að gera sérátak þar sem samfélagið kemur inn í í ríkara mæli en annars staðar, a. m. k. hvað varðar skipulag og byrjunaruppbyggingu. Ef menn kynnu að spyrja hvert vit væri í þessu, þá vísa ég þeim hinum sömu enn á það tugmilljóna framlag sem gæti orðið margfalt við breyttar og betri aðstæður. Um þjóðhagslegan ávinning er því engin þörf að deila. Hann verður of ótvíræður til þess. Spurningin er aðeins um að aðhafast eitthvað áður en um seinan verður.

Ef mönnum þykir ósamræmi hjá okkur tillögumönnum í því að fela heildarverkefnið Landnámi ríkisins, þá yrði þessi þáttur, þ. e. a. s. höfnin og það sem lýtur að þorpinu yfirleitt, það yrði sá hluti verksins sem áætlanadeild Framkvæmdastofnunar sæi um, svo sem kemur fram í tillgr. sjálfri. En því er Landnám ríkisins sett hér inn sem eðalaðili málsins, að enn brýnna er þó verkefnið sem að landbúnaðinum lýtur, enda þar búið að vinna meira verk og skipulegra en varðandi hitt. Eyðing sveitarinnar vofir nefnilega yfir. Sómaklerkurinn séra Sigmar Torfason, oddviti þeirra, sem býr góðu búi á prestssetrinu, segir hér um mestu hættuna að ræða sem að byggðarlaginu steðjar. Hins vegar kveður hann þar á engan vafa, að eyðing sveitar leiði að sér annað og meira.

Í köflum, sem eru í fskj., er ástand rakið og áætlun gerð varðandi landbúnaðinn. Ég minni aðeins á niðurstöðuna á bls. 7, töflu VI, þar sem fram kemur að það vanti í raun og veru fjármagn varðandi það að koma landbúnaðaráætluninni í framkvæmd, 36 millj. Það er að vísu nokkuð mikið fé og auðvitað hafa þessar tölur hækkað nokkuð frá því að þessi áætlum var gerð, en þær eru þó hvergi nærri svimandi á okkar mælikvarða í dag, síst þegar haft er í huga hvað í húfi er.

Miklar deilur hafa átt sér stað um meginatriði þessa máls, þ. e. a. s. framtíð og réttmæti landbúnaðar í þessu landi yfirleitt. Það er furðulegt að svo skuli vera, en engu að síður bláköld staðreynd. En svo langt hefur þetta tal oft gengið, að svo hefur verið að skilja, að ein brýnasta aðgerð okkar íslendinga væri að leggja búskap og bændastétt niður. Fram hjá þessum staðreyndum verður að vísu ekki gengið, og við tillögumenn gerum okkur þess ljósa grein, að mörgum finnst hér um sóun að ræða, að þessi þáttur till. e. t. v. og e. t. v. till. öll sé óráð hið mesta. Þeir um það. Ekki skulum við neita því, að ýmislegt er á annan veg í landbúnaði okkar en ætti að vera. En við bendum þá jafnframt á, að svo mun vera um flestar eða allar atvinnugreinar okkar, að ekki sé minnst á þau óarðbæru störf sem margir þeirra stunda, sem mest hafa hneykslast á íslenskum landbúnaði. Við þykjumst vita, að hér á Alþ. muni ekki vera um þá að ræða sem svo hugsa, svo að það er óþarft að hafa hér um langt mál.

Í framhaldi af töflu VI segir svo í grg. Páls Sigbjörnssonar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Sú framkvæmdaáætlun, sem sett er upp hér að framan, er talsvert kostnaðarsöm og krefst allmikils fjármagns í lánum og styrkjum úr opinberum sjóðum. Því er eðlilegt að ýmsar spurningar vakni þegar farið verður að taka ákvörðun um það, hvort ástæða sé til að koma áætluninni í framkvæmd. Hér skal minnst á nokkur atriði sem svara þarf í því sambandi.

Spyrja má t. d.: Er nauðsynlegt að byggja upp svo margar jarðir til að halda byggðinni við? Aldrei verður hægt að setja fram ákveðna og óumdeilanlega tölu býla sem þurfi að vera í byggð til að félagsaðstaða í sveitinni verði bærileg. Augljóst er þó, að tala fullgildra bænda má ekki fara neitt að marki niður fyrir þetta lágmark til að félagsaðstaða verði sæmileg, t. d. með smalamennsku og margt fleira. Með þetta mikilli byggð væri og mestur hluti landkosta sveitarinnar hóflega nýttur. Ein eyðijörð stór og góð er þó ekki tekin með og fleiri minni.

Ef litið er á aðstöðu bænda í Skeggjastaðahreppi, sem lagt hafa fram ævistarf sitt og fjármuni til að skapa sér skilyrði til atvinnu og búsetu, kemur fram að þeir sitja nú uppi með aleigu sína gagnslausa og verðlausa ef þannig fer sem horfir, að byggðin fari í auðn. Sama er að segja um þá sem þorpið á Bakkafirði byggja. Þessi þróun er á engan hátt sök þess fólks sem þarna býr, heldur eru það breyttir þjóðfélagshættir sem valda, en þó fyrst og fremst vanræksla þjóðfélagsins að veita þarna félagslega þjónustu til jafns við það sem annars staðar hefur verið gert. Það er ekki mikill munur á aðstöðu þessa fólks og þess sem misst hefur sitt í náttúruhamförum.

Viðurkennt hefur verið að þjóðfélaginu beri að bæta því fólki tjónið, sem fyrir slíku verður. Að síðustu skal svo minnt á byggðastefnuna sem nú er mjög höfð á orði og jafnvel einn liður í yfirlýstri stefnu núv. ríkisstj. Hér er mjög gott tækifæri til að sýna hana í verki.

Það byggðarlag, sem hér um ræðir og nú stendur höllum fæti, hefur fram til þessa fengið ákaflega smáar upphæðir af framkvæmdafé þjóðarinnar. Þrátt fyrir það hafa verið framleidd þar mjög mikil verðmæti, mest úr sjó, en þó einnig talsvert af landbúnaðarvörum.

Náttúruskilyrði eru þarna góð, bæði til sjós og lands, en til þess að hægt sé að nýta þau þarf að skapa íbúunum viðhlítandi aðstöðu, félagslega og atvinnulega, sem krefst eðlilega nokkurrar fjárfestingar.“

Hér gæti ég lokið mínu máli og. vitnað í þessa niðurstöðu svo og annað sem kemur fram í hinn glögga og fróðlega fskj. Páls Sigbjörnssonar sem í raun og veru hefur undirbúið þessa till. í hendur okkar flm., en aðeins örfá orð að lokum.

Ég hygg að ýmsum þyki sem um hæpið fordæmi kunni að vera að ræða. Lögð er til séráætlun um tiltölulega lítið verkefni, fámennan útskaga, sem sumir hugsa e. t. v. að best sé geymdur eins og er og þar með í raun gleymdur. En við minnum á í grg. að svipuð átök hafa áður verið gerð eða eru í framkvæmd til stöðvunar byggðareyðingar og skipulegs uppbyggingarstarfs. Nægir að minna á Inndjúpsáætlun og viðhald byggðar á Hólsfjöllum og Efrafjalli í því sambandi. Auk þess bendum við á að hina viðtæku gagnasöfnun og ítarlegu tillögugerð, sem þegar liggur fyrir, og sérstaklega hið mikla starf Páls Sigbjörnssonar héraðsráðunautar Búnaðarsambands Austurlands þarf og á að nýta sem fyrst. Því er lögð áhersla á að áætlunargerð hefjist nú þegar hjá þeim tveimur opinberu stofnunum sem nú eiga að taka við niðurstöðum að heiman.

Mér hefur borist til eyrna frá sérfræðingum að galli sé á gjöf Njarðar,. galli sé á þessari tillögugerð um áætlun. Víst vissum við flm. að gallalaus var hún ekki, En hitt óraði okkur ekki fyrir, að gallinn væri sá, að hún væri of fullkomin hvað snertir landbúnaðinn og því of lítið að gera fyrir sérfræðingana. En svona eru þeir sumir hverjir blessaðir, og mannlegt er það að telja það eitt gott sem frá þeim sjálfum kemur. Við hins vegar — með fullri virðingu fyrir öllum sérfræðingum — teljum þetta aðalstyrk till. og erum sannfærðir um að engir geta hér nánar og betur um fjallað en heimamenn sjálfir og sá maður sem gleggsta yfirsýn hefur varðandi allan landbúnað á Austurlandi, þar með talinn landbúnað í þessari nyrstu sveit fjórðungsins.

Að lokum leggjum við þunga áherslu á 4. lið till., þ. e. a. s. að framkvæmdin skuli vera í náinni samvinnu við hreppsnefnd Skeggjastaðahrepps og Búnaðarsamband Austurlands. Við hefðum gjarnan viljað snúa honum hreinlega við, en vafalaust er hér þó um réttari framkvæmd að ræða, þ. e. að framkvæmdin skuli þó vera í höndum Landnámsins. og Framkvæmdastofnunarinnar. En við leggjum engu að síður mikla áherslu á að þessi samvinna verði viðhöfð, og æskilegast væri að heimaaðilar réðu hér verulega ferðinni.

Að endingu þetta: Byggðamál eins og þetta hlýtur að eiga miklu fylgi að fagna hér á Alþ., og við treystum því að málið nái fram að ganga nú á þessu þingi. Ef við svæfum mál eins og þetta og aðhöfumst ekkert, horfum upp á eyðingu áður blómlegrar byggðar, þá svæfum við og slævum fleira. Þá er okkur ekki alvara, þá er byggðastefnan ekki okkar mál í raun. Við flm. viljum a. m. k. trúa öðru.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessu máli verði vísað til hv. atvmn.