27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

21. mál, Olíusjóður

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð um þetta mál og byrja á því að leiðrétta það, sem fram kom í framsöguræðu flm., að flotinn hafi nú siglt til lands út af sjóðakerfinu. Það var skýrt tekið fram af þeim, sem voru í viðræðunefndinni, að ágreiningurinn og orsökin fyrir því, að þeir komu í land, eru af öðrum toga spunnin. Það er út af ágreiningi um fiskverðið. En þeir undirstrika að það verði unnið að endurskoðun á sjóðakerfinu, eins og ákveðið hafði verið og stefnt var að með þeirri nefndarskipun sem komið var á, eins og öllum þm. er kunnugt um.

Ég vil líka mótmæla því að þm. hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera þegar ákvörðun var tekin um þessa ráðstöfun í sambandi við olíuverðhækkunina. Það var vissulega um mikinn vanda að ræða þegar svo skyndileg hækkun átti sér stað sem vitað var að greip verulega inn í rekstrarkostnað útgerðarinnar. Ef ekkert hefði verið gert á þeim tíma, þá hlaut það að leiða af sér að það var ekki hægt að halda fiskiskipaflotanum úti. Hvort þetta var það réttasta, sem gert var, það skal ég ekki um segja, en það var álit þm. á þeim tíma. Þetta hefur verið gert oftar en einu sinni vegna þess að verðhækkanir hafa oft orðið. Þetta var það sem horft var að, og ég held að það hafi verið gert á sínum tíma að yfirveguðu ráði, vegna þess m. a. að menn bjuggust ekki í upphafi við því að það yrði um slíkt langvarandi hækkað verð að ræða á olíunni eins og raunin hefur á orðið og allt bendir til að verði í framtíðinni. Það er ekki sjáanlegt í dag að um verðlækkun verði að ræða á olíunni. Þess vegna er sjálfsagt — og það var Alþ. búið að sjá — að endurskoða þessi mál í ljósi þess að hér væri um verulega verðhækkun að ræða á þessum þýðingarmikla kostnaðarlið útgerðarinnar.

Annars má segja að sú till., sem hér liggur fyrir, till. til þál. um afnám Olíusjóðs fiskiskipa, sé angi af því deilumáli sem staðið hefur undanfarna daga varðandi kjör sjómanna og kostnaðarhlutdeild útgerðarinnar og hvernig hún verði upp borin. Hins vegar er, eins og ég hef vikið að, ekki um nýtt mál að ræða varðandi endurskoðun á sjóðakerfinu í heild. Hv. þm. er kunnugt um þær umr. sem áttu sér stað í sambandi við lausn fiskverðsins og erfiðleika útgerðarinnar á síðustu vertíð, þar sem upp kom mikill ágreiningur um þessi mál. Það varð að samkomulagi, sem kunnugt er, að endurskoða þessi mál öll í heild, þ. e. sjóðakerfið, með það fyrir augum að draga stórlega úr kerfinu eða fella það niður, eftir því sem talið yrði rétt að athuguðu máli. Það voru tilmæli beggja samningsaðila að þannig yrði að málinu staðið, og í samræmi við það var af hendi sjútvrn. skipuð n. eftir tilnefningu aðila til þess að vinna að lausn þessa máls í heild. Í þessari n. eiga sæti Jón Sigurðsson forstjóri Hagrannsóknastofnunarinnar, en hann er form. n., en aðrir nm. eru Óskar Vigfússon frá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar, en hann var jafnframt form. þeirrar viðræðunefndar sem staðið hefur í viðræðum við ríkisstj. undanfarna daga, Hilmar Jónsson frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, Pétur Sigurðsson frá Alþýðusambandi Vestfjarða, Sigfinnur Karlsson frá Alþýðusambandi Austurlands, Ingólfur Stefánsson og Ingólfur Karlsson frá Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson og Ágúst Flygenring frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Ingimar Einarsson frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda.

Eins og sjá má af þessari nefndarskipan er ljóst að allir þeir aðilar, sem mestra hagsmuna eiga að gæta, eiga fulltrúa í n. sem hefur með höndum þessa endurskoðun sem búið var að ákveða. Það var þegar í upphafi lögð á það megináhersla af hendi hæstv. sjútvrh.n. tæki strax til starfa og miðaði störf sín við það að niðurstöður og till. lægju fyrir eigi siðar en 1. des. n. k.

Það er með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, að ég tel fram komna þáltill. á þskj. 24 óþarfa. Að ætla sér að taka þannig sérstaklega einn þátt í sjóðakerfinu út úr, eins og hér er lagt til, er ekki heldur æskilegt. Mál þessi eru og hafa verið í athugun hjá þeim mönnum sem ættu að þekkja best til, og er vonandi að þeim takist að komast að sameiginlegri niðurstöðu, eins og að er stefnt, fyrir 1. des. n. k.

Í 8. lið þess samkomulags, sem nú hefur verið undirritað af hendi fulltrúa viðræðunefndarinnar og fulltrúa ríkisstj., er undirstrikað það sem ég hef hér sagt, en þar segir, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir því að störfum tillögunefndar um breytingar á sjóðakerfi og hlutaskiptum í sjávarútvegi verði hraðað og að því stefnt að till. komi fram fyrir mánaðamótin nóv.-des. n. k. Ríkisstj. metur þær ábendingar, sem fram hafa komið frá sjómönnum um ágalla sjóðakerfisins, og mun beita sér fyrir sem nánastri samvinnu við samtök sjómanna og útvegsmanna í þessu máli. Hreinni hlutaskipti og launakerfi, sem stuðlar að því að þeir, sem vel afla og fara vel með afla og útgerðarvörur og eldsneyti, njóti þess í sínum hlut, er tvímælalaust brýnasta framfaramál sjávarútvegsins um þessar mundir. Á hitt verður þó að benda, að vegna þess hve þetta mál er margslungið og snertir ekki aðeins löggjöf, heldur ekki síður kjarasamninga, er naumast við því að búast að það verði leyst í skyndi í heilu lagi. Að þessu verður kappsamlega unnið næstu vikur.“

Það kom líka fram — og ég veit að þm. hafa veitt því eftirtekt — í þeim viðræðum sem fjölmiðlar hafa haft við þá viðræðunefnd sem hefur verið í forsvari fyrir sjómenn að undanförnu, að þeir teldu að hér væri um svo mikið vandamál að ræða að það væri ekki hægt að leggja þetta niður í einni svipan, heldur yrði að vinna þetta upp þannig að það yrði tekið í áföngum.

Nú skal ég ekkert um það segja, hvað sú n., sem hefur þessi mál til meðferðar, kemst að niðurstöðu um. Það mun koma í ljós þegar n. skilar störfum. En eins og ég hef vakið hér athygli á, er m. a. þessi þáttur sjóðakerfisins, sem hér er lagt til að taka út úr einan sér og afgreiða, til meðferðar hjá n. sem skipuð var eftir tilnefningu og ábendingu frá sjómönnum, útgerðarmönnum og oddaaðilinn er frá ríkisstj. Ég vil vænta þess að þessi n. ljúki störfum á tilsettum tíma.

Okkur er öllum ljóst að hér er um mikið vandamál að ræða. Í upphafi, þegar þetta var sett á, var ábyggilega gert ráð fyrir að þetta fyrirkomulag þyrfti ekki að verða svona langvarandi. Menn gerðu sér vonir um að olíuverðið lækkaði aftur. En sú hefur raunin orðið á, að það hefur heldur farið hækkandi en lækkandi, og þess vegna er þörfin enn brýnni en áður að þessi mál verði tekin til endurskoðunar, eins og nú er að unnið.