27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

21. mál, Olíusjóður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér er hér hreyft miklu máli, eins og síðasti ræðumaður drap á og varla þess að vænta að það verði tekið eitt sér. Eftir þær umr., sem átt hafa sér stað um sjóðamyndun sjávarútvegsins, og afleiðingar af því fyrirkomulagi er nú öllum landslýð málið mætavel ljóst og þess vegna þarf ekki að fara mjög nákvæmlega í þessi mál að sinni. Þau munu örugglega fyrr eða síðar koma inn í þingsalina að nýju og þá gefst betra tækifæri til að ræða þessi mál.

Flm. sagði, held ég nokkurn veginn orðrétt, að þm. hefðu ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir samþykktu. Ég vil ekki taka þetta til mín, heldur mótmæla, því að ég kom hér oft upp, og í hvert skipti sem aukning átti sér stað varaði ég við þessu, hvað við værum að fara út í. Og ég held að þó að aðrir hafi staðið að samþykkt um þetta til að fylgja fram stefnu tveggja ríkisstj. í þessu efni, þá hafi þeir vitað hvað þeir voru að gera. En það má, held ég, segja eins og síðasti ræðumaður sagði, að þetta hafi þróast í verri átt en menn ætluðust til.

Ég mótmælti þessu margoft á sínum tíma og hef hér nál. um það, sagði að það væri verið að tjalda hér til nokkurra mánaða, eins of; segir orðrétt í nál. mínu: „í 5–6 mánuði, heldur en að reyna að takast á við vandann og leysa hann betur til frambúðar.“ En menn eru jafnan bjartsýnir og vona að þó að syrti í álinn einstöku sinnum, þá birti skjótt upp aftur. Nú hafa menn komist að raun um að útlitið er ekki þannig á næstu mánuðum og e. t. v. ekki á næstu árum og þess vegna verði menn að horfast í augu við þá staðreynd að stokka kerfið upp. Á þeirri forsendu er ekkert óeðlilegt að hv. þm. flytji till. um að taka þetta til meðferðar og það fyrr en siðar. Hins vegar hefur komið rækilega fram í öllum þessum umr. og kom skýrt fram áðan að í sérstaka, stóra n. hafi verið skipaðir valinkunnir menn til að fjalla um þetta mál og taka það fyrir í heild.

Myndun sumra þessara sjóða, — ég vil taka það fram: sumra þessara sjóða, eins og Olíusjóðsins og Tryggingasjóðsins, — var neikvæð ráðstöfun og ég var sannfærður um það allt frá upphafi að það væri neikvæð ráðstöfun. Vegna hvers? Vegna þess að það skapaði ekki aðhald, heldur hið gagnstæða. Það hvatti heldur til óeðlilegrar eyðslu í úthaldinu og ekki til vöruvöndunar og ekki til þeirrar árvekni sem nauðsynlegt er að eigi sér stað, ekki aðeins í sjávarútvegi, heldur alls staðar. Og ef það er rétt, sem frsm. segir, að svo ofsaleg skekkja geti ríkt að það komi fyrir að menn borgi yfir 100 kr. raunverulega vegna álagsins í olíu pr. lítra, þá sjá allir hvers lags fjarstæða þetta er. Það er enn verra en mér datt nokkurn tíma í hug að það gæti orðið. Ég hef ekki tök á því að draga þessar upplýsingar í efa, sem hv. þm. leggur hér fram, en manni hrýs hugur við að sjá slíkar tölur, að slíkt hafi getað átt sér stað. Mér datt aldrei í hug að það væri kannske um fjórföldun, fimmföldun að ræða, eins og þetta var skýrt á sínum tíma, en að um tugföldun sé að ræða, fyrr má nú rota en dauðrota. Hljóta allir að sjá að við erum komnir út í algert fen og nær ekki nokkurri átt annað en að gera úr því raunveruleika að þetta komist í lag og málin séu öll stokkuð upp.

Tryggingasjóðurinn líka er stórhættulegur og býður upp á mikla misnotkun, þó mjög mismunandi mikla eins og gengur. En ekkert vafamál er að menn hafa trassað umgengni um skip og pössun vegna þess að mörg tjón eru bætt almennt séð og menn bera litla ábyrgð sjálfir. Því miður er þetta svo. Það er kannske erfitt tölulega að sanna slíkt. En þeir, sem fylgjast vei með, hafa séð hvað er að ske.

Þó að samhjálp sé eðlileg og sjálfsögð, eins og á sér stað við vissa sjóði, eins og Aflatryggingasjóðinn og sumt fleira í þessu kerfi, þá má hún ekki vera með þeim hætti að hún sé neikvæð og stuðli að trassaskap í meðferð á bátum og í meðferð á afla. Þá hefur hún alveg þveröfug áhrif. Og það kemur nú í ljós og hefur verið rökstutt, bæði af frsm. og í umr. af sjómönnum, að þetta nýja sjóðakerfi, þessir síðustu tveir stærstu sjóðir hafa haft þessi leiðinlegu áhrif.

Sjómenn hafa nú kröftuglega mótmælt sjóðakerfinu, og ég held að ekki hafi verið síður ástæða eða átylla hjá þeim að stofna til þessara óyndisúrræða sem þeir gerðu, að sigla í land skipum sínum, sú aukning, sem varð á sjóðakerfinu undanfarna mánuði, en bara fiskverðið, þó að það væri kannske sú kveikja sem setti þessa hreyfingu af stað. En sú geysilega mismunun, sem mönnum er gert að taka á sig í gegnum þessa sjóðamyndun, er búin að grafa um sig í marga mánuði. Og þegar samningum manna var komið þannig á bátaflotanum að yfir helmingur var tekinn af óskiptum afla áður en gildandi kjarasamningar gátu fengið að njóta sín, þá ofbauð mönnum bókstaflega.

Við fulltrúar Alþfl. á Alþ. höfum margmótmælt þessari þróun undanfarin ár. Við töldum þetta stefna út í öfgar og hafa öfug áhrif. Við vorum alltaf til umr. um að stokka þessi mál upp og reyna að finna æskilega lausn. En ákveðinn þingmeirihl., bæði hjá núv. ríkisstj. og þeirri síðustu áður en þessi tók við, fylgdi þessu fram til tímabilsbundinnar lausnar, sem átti að gilda vertíð fyrir vertíð, en ekki hefur verið fundin endanleg lausn, nema hún sé þá í augsýn núna, eftir því sem lofað hefur verið.

En það er rétt hjá síðasta ræðumanni, að ekki er hægt að taka einn sjóðinn skyndilega úr kerfinu og skipta honum upp eða líta svo á sem hann sé afnuminn. Það er orðið of flókið til þess að það sé hægt. Þess vegna er það eins og samkomulag liggur fyrir um hjá báðum aðilum og raunar þremur aðilum, því að hér er um mál að ræða er snertir ríkisvaldið, útgerðaraðilann og svo skipshafnir, þá verða þessir aðilar að koma sér saman um heilbrigt og nýtt kerfi og raunverulega taka þessi mál öll frá grunni og koma með nýja skipan. Önnur lausn fæst ekki að mínu mati í þessu máli, svo að til frambúðar verði. Það er nú að sýna sig að þetta hefur svo neikvæð áhrif og gerir mönnum svo mishátt undir höfði í sínum rekstri að það getur ekki talist frjáls atvinnuvegur lengur á Íslandi sem býr við slíkt skipulag.