02.02.1976
Neðri deild: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Haustið 1972 hafði lögreglan í Keflavík með höndum rannsókn á umfangsmiklu smyglmáli. Upplýsingar, sem lögreglumenn fengu, urðu til þess að athygli þeirra beindist að ákveðnu veitingahúsi í Reykjavík — veitingahúsinu Klúbbnum. Fóru lögreglumennirnir m. a. að fylgjast nákvæmlega með rekstri hússins og ferðum þar í kring. Eina nóttina uppgötvuðu þeir að ólöglegir áfengisflutningar áttu sér stað að veitingahúsinu frá ríkisverslun. Kærðu lögreglumennirnir athæfið strax morguninn eftir.

Hinn 12 okt. þetta haust gerðist það jafnframt, að rannsóknardeild ríkisskattstjóra sendi bréf til sakadóms Reykjavíkur, þar sem greint var frá grunsemdum skattrannsóknarstjóra um ýmiss konar misferli í sambandi við starfrækslu veitingahússins að Lækjarteigi 2 sem rekið var af hlutafélaginu Bæ — en þar er um sama veitingahús að ræða og í daglegu tali er nefnt Klúbburinn. Um framhald málsins leyfi ég mér að vitna orðrétt í skýrslu Hallvarðs Einvarðssonar þáv. aðalfulltrúa við embætti saksóknara ríkisins sem dómsmrn. hefur af ástæðum, sem því einu er kunnugt, ekki birt með öðrum bréfum í grg. sem rn. sendi frá sér s. l. laugardag, þótt þessi skýrsla sé með allra mikilvægustu gögnum í málinu. Í skýrslunni, sem ég hef undir höndum, segir svo orðrétt um framhald málsins:

„Með bréfi rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, dags. 12. þ. m., til sakadóms Reykjavíkur, sbr. meðfylgjandi ljósrit, var greint frá grunsemdum skattrannsóknarstjóra um ýmiss konar misferli í sambandi við starfrækslu veitingahússins að Lækjarteigi 2 hér í borg sem rekið væri af hlutafélaginu Bæ. Var beiðst rannsóknar á máli þessu og jafnframt vakin athygli á tilteknum rannsóknaraðgerðum sem nauðsynlegar þættu til upplýsinga í máli þessu, enda þótti þá þegar sýnt að rannsókn málsins mundi verða allumfangsmikil. Við upphaf rannsóknar málsins voru samráð milli skattrannsóknarstjóra, ríkisendurskoðanda, tollgæslustjóra, rannsóknardómara og fulltrúa saksóknara, auk þeirra lögreglumanna sem unnið höfðu að frumathugun lögreglu í málinu. Dómsrannsókn málsins hófst svo í sakadómi Reykjavíkur laugardaginn 14. þ. m. Þótti fljótlega sýnt að þær grunsemdir, sem uppi höfðu verið um misferli í þessu efni, höfðu við veigamikil rök að styðjast. Er svo var komið skýrði fulltrúi saksóknara, sem fylgdist með rannsókn málsins, lögreglustjóranum í Reykjavík frá rannsókn þessari og jafnframt gerði rannsóknardómari lögreglustjóranum stuttlega grein fyrir því sem þá virtist fram komið varðandi fyrrgreint kæruefni í sambandi við starfrækslu þessa veitingahúss. Ákvað lögreglustjóri þá að leggja þegar bann við frekari áfengisveitingum í þessu veitingahúsi uns annað yrði ákveðið og mun hann í því efni hafa stuðst við ákvæði 2. mgr. 14. gr. áfengislaga nr. 82 1969. Sú ákvörðun lögreglustjóra var að áliti saksóknara sjálfsögð og eðlileg eins og á stóð. Var það bæði á ýmsan hátt ótvírætt í þágu rannsóknar málsins auk þess sem áframhaldandi starfræksla þessa veitingahúss, eins og málum þá var komið, var allsendis óviðeigandi frá sjónarmiði almennrar réttarvörslu. Var tvímælalaust nærtækast að beita fyrrgreindri heimild lögreglustjóra samkv. 2. mgr. 14. gr. áfengislaganna, enda hæpið að unnt hefði verið að grípa jafnskjótt til annarrar réttarheimildar til slíkrar sviptingar eins og málum var háttað í upphafi rannsóknar. Eðlilegt var að tekið væri fyrir frekari áfengisveitingar í þessu veitingahúsi meðan rannsókn málsins stæði yfir eða a. m. k. á meðan hin eiginlega sakadómsrannsókn, svo sem yfirheyrslur, stæðu yfir. Efni kynnu hins vegar að hafa getað orðið til endurskoðunar á þessu banni á síðara stigi rannsóknarinnar, t. d. óvíst að bíða hefði þurft loka skattsvikarannsóknar skattrannsóknarstjóra eða loka bókhaldsrannsóknar.“

Þannig stóð málið sem sagt 14. okt. árið 1972. Veitingahúsinu hafði verið lokað vegna umfangsmikilla meintra lögbrota aðstandenda þess og var ætlunin að hafa það lokað á meðan verið væri að ljúka rannsókn á mikilvægustu þáttum málsins, enda það talið mjög brýnt af hálfu allra þeirra sem rannsóknina höfðu með höndum.

Nú líða fram nokkrir dagar og ekki verður séð af þeim gögnum, sem ég hef undir höndum, hvað gerst hefur á þeim tíma. Næst er það vitað í málinu að hinn 18. okt. 1972 — fjórum dögum eftir að lokunin kom til framkvæmda og örfáum sólarhringum eftir að rannsóknarlögreglumenn höfðu orðið varir við ólöglega flutninga áfengis að næturlagi til umrædds veitingahúss — ritar veitingamaðurinn dómsmrn. bréf þar sem hann áfrýjar ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrn. samkv. heimild í 14. gr. laga nr. 82 1969, eins og segir í grg. rn. Vek ég athygli á því, að áfrýjunarbréf veitingamannsins er ekki birt né heldur rökstuðningur hans fyrir þeirri beiðni að rn. ógildi lokunarúrskurð lögreglustjóra. Er hér um að ræða enn eitt mikilvægt gagn í málinu sem dómsmrn. hefur ekki birt, af hvaða ástæðum sem það kann að vera, en í bréfinu færir veitingamaðurinn væntanlega rök að þeirri beiðni sinni að honum verði heimilað að hefja starfrækslu hússins á ný þótt rannsókn á meintum afbrotum sé nýlega hafin og þeir, sem rannsóknina hafa með höndum, hafi lagt mikla áherslu á að húsið sé lokað fyrir starfrækslu á meðan. Hvorki rökstuðningur veitingamannsins fyrir beiðninni né rökstuðningur dómsmrn. fyrir afgreiðslunni er í grg. dómsmrn.

En dómsmrn. er ekki lengi að bregða við eftir að umrætt bréf hefur borist. Strax daginn eftir að bréfið er dagsett hefst rn. handa. Athöfnum þess er lýst í greinargerð þess með tilvitnun í minnisblað þess starfsmanns rn., sem um málið fjallaði. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„19. okt. 1972“ — það er að segja daginn eftir að umrætt bréf veitingamannsins er dagsett. — „Ræddi við lögreglustjóra um vinveitingabannið í Lækjarteig 2. Taldi hann rétt að halda banninu áfram á meðan rannsóknardómari teldi þess þörf. Rannsóknardómari teldi ekkert gefa tilefni til þess að falla frá banninu.

20. okt. 1972. Ræddi við Þóri Oddsson fulltrúa í sakadómi. Taldi málið alfarið vera ákvörðun lögreglustjóra. Hallvarður Einvarðsson aðalfulltrúi saksóknara hefði komið upplýsingum um málið til lögreglustjóra þegar rannsókn var að hefjast. Hefðu menn talið algerlega óviðeigandi að starfsemin héldi áfram.

Rannsóknin snýst um áfengisinnkaup sem fóru fram frá áfengisútsölu utan afgreiðslutíma og áfengið er ekki merkt VH. Þá er bókhald allt í molum, skattframtölum hefur ekki verið skilað, launamiðum o. fl. Ekki taldi hann bannið skipta lengur máli fyrir rannsóknina, en fannst þó rétt að láta það standa áfram.

Hallvarður Einvarðsson taldi rétt að bannið stæði á meðan meginþungi rannsóknarinnar færi fram, a. m. k. fram í næstu viku.“

Því næst er fjallað um athuganir sem dómsmrn. gerir á 14. gr. áfengislaganna. Svo segir í grg. dómsmrn. með leyfi forseta:

„Að svo búnu ræddi ég málið við ráðh., og vorum við sammála um að líta bæri svo á að ákvæðið ætti ekki við hér, a. m. k. ekki lengur. Tilvist ákvæðisins í áfengislögum væri fyrst og fremst með tilliti til öryggissjónarmiða. Almenn réttarfarslög yrðu að ákvarða hvort veitingar yrðu bannaðar framvegis. Því skyldi bannið fellt niður. Ákvæði 12. gr. áfengislaga um leyfissviptingu geta hins vegar komið til skoðunar þegar niðurstaða rannsóknar liggur fyrir. Baldur Möller var þessu algjörlega sammála.

Þetta tilkynnti ég lögreglustjóra, sem kvaðst ósáttur við að starfsemin héldi áfram, en kvaðst þó mundu tilkynna niðurfellinguna sjálfur án fyrirskipunar rn.“

Svo mörg voru orðin á minnisblaðinu. Næsta skref er svo það, að lögreglustjóri, Sigurjón Sigurðsson, sendi svo hljóðandi bréf, dags. 20. okt. 1972 — þetta bréf hefur ekki birst áður:

„Hér með leyfi ég mér að tilkynna yður, herra veitingamaður, að bann það gegn áfengisveitingum í veitingahúsinu að Lækjarteig 2 hér í borg, sem gilt hefur frá 14. þ. m., hefur nú verið fellt niður.

Sigurjón Sigurðsson.

Hr. Sigurbjörn Eiríksson,

Álfsnesi, Kjalarnesi.“

Þann sama dag sendi lögreglustjóri saksóknara ríkisins annað bréf er hljóðar svo — og hefur það bréf ekki heldur verið birt opinberlega áður:

„Reykjavík, 20. okt. 1972.

Hér með leyfi ég mér að senda yður, herra saksóknari, afrit af bréfi er ég hef að fyrirlagi dómsmrn. sent Sigurbirni Eiríkssyni veitingamanni varðandi niðurfellingu á banni við áfengisveitingum í veitingahúsinu að Lækjarteig 2 hér í borg.“

Með öðrum orðum: aðeins tveimur sólarhringum eftir að bréf veitingamannsins til dómsmrn. með óskum um að rn. hnekki úrskurði lögreglustjórans í Reykjavík er dags. hefur veitingamanninum verið heimilað fyrir atbeina rn. að hefja starfrækslu að nýju. Verður ekki annað sagt en að þessi snöggi háttur, sem hafður var á afgreiðslu þessa erindis, stangist illilega á við ýmislegt annað í málum þessum, eins og e. t. v. mun síðar fram koma.

Hver urðu svo viðbrögð þeirra manna sem höfðu haft með höndum rannsókn hinna fjölmörgu meintu lögbrota þeirra aðila sem hér um ræðir? Menn geta sjálfsagt farið nærri um hvernig tíðindunum hefur verið tekið af þeim lögreglumönnum sem höfðu rétt aðeins haft tíma til að hefja rannsóknir sínar. Viðbrögð annarra málsaðila eru til skjalfest frá þessum tíma.

Í bréfinu til saksóknara ríkisins frá 20. okt. 1972 komst lögreglustjórinn í Reykjavík svo að orði um bréf það sem hann hafði þá um daginn sent Sigurbirni Eiríkssyni veitingamanni varðandi niðurfellingu á banni við áfengisveitingum í Klúbbnum, að það bréf hefði hann sent „að fyrirlagi dómsmrn.“

Í grg. dómsmrn. — bls. 8 - segir svo með tilvitnun í minnisgreinar þess starfsmanns rn., sem um málið fjallaði:

„19. okt. 1972. Ræddi við lögreglustjóra um vínveitingabannið í Lækjarteig 2. Taldi hann rétt að halda banninu áfram á meðan rannsóknardómari teldi þess þörf.“

Síðar segir í þessari sömu greinargerð — minnisgreinum starfsmannsins frá 20. okt., eftir að hann hefur greint frá því að dómsmrh. og ráðuneytisstjóri séu þeirrar skoðunar að lokun hússins beri að aflétta: „Þetta tilkynnti ég lögreglustjóra, sem kvaðst ósáttur við að starfsemin héldi áfram, en kvaðst þó mundu tilkynna niðurfellingu sjálfur án fyrirskipunar rn.“

Á bls. 7 í sömu grg. segir enn fremur orðrétt: „Lögreglustjóri felldi niður ákvörðun sína er hann vissi afstöðu ráðh.“

M. ö. o.: 19. okt. 1972 lýsir lögreglustjórinn í Reykjavík sig andvígan því að veitingahúsið verði opnað á ný til starfrækslu. 20. okt. er honum tjáð að ráðh. og ráðuneytisstjóri séu sammála um að lokun hússins skuli ógilt. Lögreglustjóri „kvaðst ósáttur við“, en þó muni hann breyta ákvörðun sinni án þess að bíða eftir „fyrirskipunum rn.“ Í bréfi til saksóknara ríkisins þennan sama dag segist hann hafa tilkynnt Sigurbirni Eiríkssyni niðurfellingu á veitingabanninu „að fyrirlagi rn.“ — Þetta er afstaða lögreglustjórans í Reykjavík samkv. skriflegum gögnum frá þessum tíma. Hann er andvígur þeim málalyktum, sem urðu í dómsmrn., en fellst á að breyta um skoðun eftir að hann hefur heyrt þá niðurstöðu frá rn. sem rn. hefur samkv. lögum úrskurðarvald til þess að knýja í gegn.

Þá kemur að þriðja aðila þessa máls, embætti saksóknara ríkisins. Hver er afstaða þess? 23. okt. sendi saksóknari ríkisins dómsmrn. „til athugunar afrit af skýrslu og umsögn Hallvarðs Einvarðssonar aðalfulltrúa“ um mál þetta. Þessa mikilvægu skýrslu hefur dómsmrn. ekki birt, eins og ég sagði áðan er ég vitnaði í fyrri hluta hennar. Síðari hluti hennar er umsögn saksóknaraembættisins um ákvörðun rn. Hún hljóðar svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Er rn. aflétti þessu banni hinn 20. þ. m. var sakadómsrannsókn málsins hvergi nærri lokið, rannsóknargögn um rannsókn málsins höfðu eigi heldur borist embætti saksóknara eða dómsmrn. og frumskýrslum ríkisendurskoðanda og skattrannsóknarstjóra um þeirra athugun eigi heldur lokið. Að sögn rannsóknardómara og skattrannsóknarstjóra eru hins vegar þegar fram komin veigamikil gögn sem benda til þess að upplýst verði í málinu um veruleg söluskattssvik og ófullnægjandi launaframtöl, enn fremur um verulega bókhaldsóreiðu svo og um brot á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 118 1954, sbr. reglugerð nr. 121 1966, um sölu og veitingar áfengis, og í því sambandi beinist rannsóknin einnig að því, hvort um hafi verið að ræða brot í opinberu starfi af hálfu tiltekinna starfsmanna áfengisverslunarinnar. Þá er og líklegt að rannsóknin muni beinast að því að kanna hvort reglur hlutafélagalöggjafar hafa verið haldnar við stofnun og rekstur Bæjar hf. Þykir því næsta einsýnt að saksóknara beri að lokinni rannsókn málsins að stefna því til dóms, þ. á m. með þeirri kröfu ákæruvalds, að þeir aðilar, sem ábyrgir kynnu að reynast, yrðu sviptir þeim opinberu leyfum sem liggja kunna til grundvallar rekstri þessa veitingahúss, þar með talið leyfum til áfengisveitinga.

Fyrrgreind niðurfelling dómsmrn. hinn 20. þ. m. á umræddu banni lögreglustjóra frá 14. þ. m. þykir því af hálfu saksóknara hafa verið allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum.“

Það var í þessa skýrslu sem Vilmundur Gylfason vitnaði í föstudagsgrein sinni í Vísi og dómsmrn. lýsti hann ósannindamann að. Orðin, sem Vilmundur vitnaði til, hef ég þegar lesið, en les nú aftur til þess að gefa þeim aukna áherslu. Þau hljóða svo, með leyfi forseta:

„Fyrrgreind niðurfelling dómsmrn. hinn 20. þ. m. á umræddu banni lögreglustjóra frá 14. þ. m. þykir því af hálfu saksóknara hafa verið allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum.“

Halda menn að þannig sé til orða tekið í umsögn þessa embættis um aðgerðir dómsmrn. að ástæðulausu? Hvers vegna valdi rn. þann kost að lýsa Vilmund Gylfason ósannindamann, en forðaðist jafnframt að birta þá mikilvægu heimild sem hann vitnaði í?

Því hefur verið haldið fram, að þessi heimild sé ekki marktæk — ekki sé um að ræða álit embættis saksóknara ríkisins á framferði rn.

Í gær spurði ég Hallvarð Einvarðsson, núv. vararíkissaksóknara, nánar um þetta mál. Hann leyfði mér að hafa þetta eftir sér orðrétt:

„Skoðun mín á niðurfellingu dómsmrn. á banninu gegn áfengisveitingum í veitingahúsinu við Lækjarteig 2 í Reykjavík, sem tilkynnt var í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 20. okt. 1972, kemur fram í „skýrslu og umsögn Hallvarðs Einvarðssonar aðalfulltrúa til saksóknara ríkisins um mál nr. 2686 frá 1972“. Þeirrar sömu skoðunar er ég enn.

Skýrslu þessa samdi ég sem starfsmaður embættis saksóknara ríkisins og afhenti hana þáv. yfirmanni mínum, Valdimar Stefánssyni saksóknara. Þegar hinn sama dag og ég afhenti saksóknara umrædda skýrslu sendi hann skýrsluna rakleiðis til dómsmrn. með bréfi dags. 23. okt. 1972.“

Þetta sagðist Hallvarður geta staðfest hvenær sem er með skriflegum hætti ef eftir því kynni að verða óskað. Samkv. þessu er ljóst: 1) Núv. vararíkissaksóknari er enn sömu skoðunar um athæfi rn. og hann var er hann samdi margumrædda skýrslu sína sem aðalfulltrúi saksóknara ríkisins. 2) Valdimar Stefánsson saksóknari ríkisins lítur þeim augum á málið, að hann bregður við strax samdægurs og hann fær skýrsluna í hendur og sendir hana rn. til athugunar. Hann býður ekki með það einn dag að senda skýrsluna frá sér. Valdimar breytir engu í skýrslunni, hvorki efni né orðfæri, en þar er m. a. ávallt komist þannig að orði: saksóknara ber“, „saksóknari álítur“. „Fyrrgreind niðurfelling þykir því af hálfu saksóknara hafa verið allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum.“

Mikið hefur verið um það rætt, hvort í þessu felist persónuleg skoðun Valdimars heitins Stefánssonar. Um það veit ég ekki og vil ekkert fullyrða. Hins vegar er harla ólíklegt að hann sem opinber embættismaður mundi hafa meðhöndlað skýrsluna með þessum hætti sem yfirmaður Hallvarðs Einvarðssonar ef hann hefði verið ósammála áliti hans.

Af því, sem þegar hefur verið sagt um mál þetta, er því ljóst að dómsmrn. hefur þar haft afskipti af rannsókn sakamáls sem bæði rannsóknarlögreglumenn, lögreglustjóri og embætti saksóknara ríkisins lögðust alfarið gegn, töldu „ástæðulausa, ótímabæra og ekki studda almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum“. Hvaða áhrif þessi afskipti hafa haft á frekari rannsókn málsins geta menn getið sér til. En hvers vegna gerði dómsmrn. þetta? Hvers vegna taldi það nauðsynlegt að beita sér með þessum hætti gegn þeim aðilum sem höfðu rannsókn málsins með höndum? Skýringar þær, sem fram komu í grg. rn., tel ég ekki fullnægjandi. Ég vil að það komi fram skýrar og afdráttarlausar hvers vegna dómsmrn. grípur til þessara aðferða til þess að opna veitingastaðinn gegn yfirlýstum vilja rannsóknarlögreglumanna, lögreglustjóra og saksóknara ríkisins.

Virðulegi forseti. Það má að sjálfsögðu lengi velta vöngum yfir því hvaða áhrif afskipti rn. af málinu hafi haft á rannsókn þess. Þótt ég hafi talað hér nokkuð langt mál og eigi enn nokkrar setningar ósagðar, þá fer því fjarri að mér hafi auðnast á þeim skamma tíma, sem ég hef haft til stefnu, að verða mér úti um allar þær upplýsingar sem ég hef komist á snoðir um eða getað fengið. Af þeim fregnum, sem ég hef haft upp á síðkastið, hef ég þó orðið ýmsu nær um eftir hverju ég ætti að spyrja ef tíminn hefði verið lengri. Þau svör gætu e. t. v. varpað nokkru ljósi á það sem ég ræddi um áðan, þ. e. a. s. hver áhrifin af þessum afskiptum kynnu að hafa orðíð.

Eins og fram kom í máli mínu hér áðan stóðu lögreglumenn fólk að verki haustnótt eina árið 1972 að flytja ólöglegt áfengi frá ríkisverslun í Klúbbinn. Ég mundi hafa spurt, hefði mér gefist tími til, hvort rannsókn þessa máls væri lokið, hvort ákæra hafi verið birt nú tæpu hálfu fjórða ári eftir að atburðirnir gerðust.

Í skýrslu Hallvarðs Einvarðssonar er m. a. upplýst að grunur leiki á stórfelldum skattsvikum. Ég mundi hafa spurt, hefði mér auðnast tími til: Er þeirri rannsókn lokið? Hefur sú rannsókn leitt til þess að ákæra hefur verið gefin út?

Í skýrslu Hallvarðs Einvarðssonar er rætt um verulega bókhaldsóreiðu. Ég mundi hafa spurt: Hefur þeim ábendingum, sem þar komu í ljós, verið fylgt eftir með rannsókn? Er þeirri rannsókn lokið? Hefur hún leitt til ákæru?

Í skýrslu Hallvarðs Einvarðssonar eru jafnframt látnar í ljós efasemdir um að reglur hlutafélagalöggjafar hafi verið haldnar við stofnun og rekstur Bæjar hf. sem annaðist rekstur veitingahússins. Ég mundi hafa spurt, ef mér hefði gefist tími til: Hefur rannsókn á því máli farið fram? Er henni lokið? Hvað leiddi hún í ljós?

Og ég mundi líka hafa spurt hlutaðeigandi aðila hvort sú ósk hafi komið fram nú síðustu daga frá þeim rannsóknarlögreglumönnum, er önnuðust rannsókn málsins, að ný athugun yrði hafin á því frá grunni og sú athugun fengin í hendur sérstökum umboðsdómara er fengi sér til aðstoðar lögmenn og lögreglumenn til þess sérstaklega að fjalla um þetta mál.

Ég vil hér og nú fara fram á það og legg á það þunga áherslu, að rannsókn þessa máls verði hraðað eftir öllum föngum og hvorki sparað fé né fyrirhöfn til þess að leiða málið til lykta. Mér finnst vel koma til mála að fela þá rannsókn sérstökum hópi rannsóknarmanna. Þá vil ég enn fremur fara þess mjög eindregið á leit við dómsmrn., að það birti opinberlega, ekki aðeins hluta þeirra umsagna og bréfa, sem rn. hefur undir höndum í þessu máli, heldur sem flest þeirra, þ. á m. greinargerð og umsögn aðalfulltrúa saksóknara ríkisins sem ég las upp úr áðan og bréf veitingamannsins frá 18. okt. 1972 með umsókn hans um að lokun veitingastaðarins verði ógilt. Ég vil fá að sjá þau rök sem veitingamaðurinn hafði fyrir þeirri umsókn sinni og rn. hefur augsýnilega fallist á.

En virðulegi forseti, sagan er enn ekki öll. Enn þurfa rannsóknarlögreglumenn að hafa afskipti af sömu aðilum og hér hefur verið um rætt, að þessu sinni vegna fjölmargra ábendinga um hugsanleg tengsl þeirra við önnur alvarleg mál sem rannsökuð hafa verið nú um nokkurt skeið og af sömu rannsóknarlögreglumönnum og einkum komu við sögu í því máli sem ég hef nýlega lokið við að rekja. Þá gerist það m. a. að annar þeirra tveggja aðila, sem um ræðir og hlut átti að fyrra málinu, er kallaður til yfirheyrslu.

Hinn 3. febr. 1975 senda þessir aðilar báðir dómsmrn. bréf. Bréf þetta er birt í greinargerð dómsmrn. og verður því ekki lesið upp hér. Í bréfinu er hins vegar kvartað undan því að ýmsar grunsemdir og sögusagnir hafi spunnist um aðild þeirra að svonefndu Geirfinnsmáli og er þess m. a. farið á leit að dómsmrn. rannsaki tilurð söguburðarins. Þá segir einnig í grg. rn. að lögfræðingur þessara aðila, Ingi Ingimundarson, hafi sent rn. bréf um sama efni, dags. 18. febr. 1975. Bréf þetta er ekki birt í grg. rn., en ég hef afrit af þessu bréfi undir höndum. Er lögmaðurinn öllu ákveðnari í bréfi sínu en þeir tvímenningarnir, því auk þess að rekja nokkur dæmi um sögusagnir þær, sem ganga milli manna um meinta aðild tvímenninganna að Geirfinnsmálinu, segir lögmaðurinn orðrétt að „einhvers konar stórfelld mistök hafi átt sér stað við meðferð hins svonefnda Geirfinnsmáls og smyglmáls sem upp kom.“ Er leitt getum að því í bréfinu, að söguburðurinn á hendur tvímenningunum megi rekja til mistaka við meðferð málsins. Er nauðsynlegt að hafa þetta álit lögmannsins í huga þegar rætt er um viðbrögð dómsmrn. og þær ályktanir sem rannsóknarlögreglumenn drógu af þeim.

Nú líða tæpar fjórar vikur. Þá gerist það að dómsmrn. sendir bæjarfógetanum í Keflavík — því embætti einu og á það legg ég áherslu sem stjórnaði rannsókn málsins — bréf sem dómsmrn. birtir á bls. 1 í grg. sinni. Í bréfi þessu er lýst efnisatriðum í framangreindum bréfum tvímenninganna og lögmanns þeirra til dómsmrn. Svo segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Svo sem fram kemur í umræddum erindum telja hlutaðeigendur lítt þolandi fyrir sig og fjölskyldur sínar að liggja undir þeim söguburði og illmælum er þeir hafa mátt þola vegna mála þessara án þess að eitthvað verði aðhafst af opinberri hálfu til þess að beina frá þeim grunsemdum sem ætla verði að beinst hafi að þeim að verulegu leyti vegna framkvæmdar á rannsókn ofangreindra mála.“

Þetta orðalag þykir mér loðið. Þessi hugsun þykir mér óskýr. Er rn. aðeins með þessu að gera rannsóknaraðila málsins viðvart um hvaða augum ákveðnir málsaðilar líta á hvernig hann stendur að rannsókninni? Eða er rn. með þessu að taka undir það álit? Það kann að orka tvímælis hvort þetta orðalag beri að skilja svo, að dómsmrn. þyki eitthvað athugavert við framkvæmdina á rannsókninni. Hins vegar var það skoðun þeirra lögreglumanna, sem að rannsókn málsins störfuðu, að svo væri. Í því sambandi vil ég lesa bréf sem ég hef í höndum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Keflavík, 31. janúar 1976.

Skv. ósk Sighvats Björgvinssonar alþm. nú í dag um að ég geri grein fyrir viðbrögðum mínum við bréfi dómsmrn., dags. 11. mars 1975, vil ég taka fram eftirfarandi:

Ég var einn af þeim mönnum sem höfðu með höndum rannsókn þess máls sem vitnað er til í bréfi þessu. Ég hafði m. a. talað við annan manninn sem þar er tilgreindur.

Í ljósi fyrri afskipta dómsmrn. af máli veitingahúss þessa og vegna þess að mér virtist rn. vera að taka undir ummæli þess efnis að einhvers konar stórfelld mistök hefðu átt sér stað við rannsókn þessa máls túlkaði ég bréfið svo, — það má vera röng túlkun, — að rn. væri að fara þess á leit að draga úr yfirheyrslum og rannsóknum á þessum þætti málsins.

Við létum því yfirheyrslum og athugunum á þessum manni lokið á þessu stigi rannsóknarinnar. Dómsmrn. hlýtur að hafa verið um það kunnugt, en þaðan bárust engar frekari athugasemdir fyrr en með bréfi, dags. 4. júní 1975, þar sem ákveðið var að formlegri rannsókn yrði hætt.

Virðingarfyllst,

Haukur Guðmundsson,

rannsóknarlögreglumaður, Keflavík.“

Við þetta hef ég fáu einu að bæta. Þó þessu. Ekki verður séð að rn. hafi óskað eftir svörum þeirra aðila, sem rannsóknina önnuðust, við þeim umkvörtunum að framkvæmd rannsóknarinnar hafi með einhverjum hætti verið ábótavant, hvorki eftir að rn. ritaði bréfið til bæjarfógetans í Keflavík né á þeim fimm vikum sem liðu frá því rn. barst bréf þeirra og þar til það ritaði bæjarfógetanum til. Rn. þótti sem sé aldrei ástæða til þess að leita eftir áliti rannsóknarlögreglumannanna sjálfra eða spyrjast fyrir um það hjá þeim hvernig rannsókninni væri hagað.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að í bréfum tvímenninganna og lögmanns þeirra er kvartað yfir sögusögnum sem höfðu orðið til ekki aðeins í umdæmi Keflavíkurlögreglunnar, heldur einnig og jafnvel að meiri mun í öðrum lögsagnarumdæmum. Samt sem áður telur rn. ekki ástæðu til að skýra neinu öðru lögregluembætti en því, sem rannsókn málsins hafði með höndum, frá óskum málsaðila um að þeir yrðu hreinsaðir af öllum söguburði. Einnig þetta atriði varð til þess að hafa þau áhrif á rannsóknarlögreglumennina, að þeir túlkuðu bréfið svo, að rn. væri að fara þess á leit að dregið yrði úr yfirheyrslum og rannsóknum á þessum þætti málsins, eins og Haukur Guðmundsson kemst að orði í yfirlýsingu sinni, þótt sú túlkun þeirra hafi vissulega getað verið röng, eins og hann einnig tekur fram.

Í framhaldi af þessu er þó eitt atriði enn sem ég hefði kosið að fá upplýst hjá rannsóknarlögreglumönnunum ef tími hefði gefist til, þ. e. hvort margumrætt bréf til bæjarfógetans í Keflavík sé einu afskiptin sem dómsmrn. hafi haft af umræddri rannsókn á þessu stigi eða þeim síðari. Ég hefði gjarnan viljað spyrja þessa menn, ef mér hefði gefist tími og tækifæri til, hvort þeim hefðu þar að auki borist nokkur munnleg skilaboð frá rn., annaðhvort símleiðis eða gegnum þriðja aðila, um að rannsóknarlögreglumenn aðhefðust eitthvað eða létu eitthvað ógert í sambandi við rannsókn sína á málinu.

Ástæðan fyrir því, að mál þetta kemur nú upp á ný, er m. a. sú, að við rannsókn á öðru afbrotamáli nýverið bárust lögreglunni nýjar upplýsingar af öðrum málum. Ekki hefur verið skýrt frá neinum málsatvikum í því sambandi opinberlega. Þó mun ljóst vera að yfirheyrslur af einhverju tagi hafa m. a. farið fram yfir hluta af þeim aðilum sem hér hefur verið um fjallað. Í þriðja sinn á fáum árum beinist rannsókn því í þessa sömu átt.

Fjölmargar sögusagnir og hvers kyns gróusögur eru á kreiki um aðild þessara aðila að þeim málum sem rannsóknin nú snýst um, mun alvarlegri en þær sem getið var um í bréfi til rn. frá 3. febr. 1975 og urðu til þess að rn. ritaði bæjarfógetanum í Keflavík bréfið dags. 11. mars 1975, sem varð til þess að frekari yfirheyrslum var hætt. Því kann vel að vera að viðkomandi aðilar finni hjá sér skiljanlega þörf fyrir að fá þeim söguburði hnekkt, sem nú gengur, og beini því til rn. sambærilegum umkvörtunum og undir svipuðum kringumstæðum og þeir gerðu á s. l. vetri Fari svo, er þá líklegt að dómsmrn. meðhöndli slíkt erindi með sama eða svipuðum hætti og það gerði í fyrra með bréfinu til bæjarfógetans í Keflavík dags. 11. mars 1975?

Virðulegi forseti: Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég held að það fari vart fram hjá neinum, sem á mál mitt hefur hlýtt, að ég tel að afskipti dómsmrn. af þeim málum, sem ég hef gert hér að umtalsefni, séu vægast sagt mjög óæskileg og hvað fyrra málið snertir, Klúbbmálið svonefnda, mun alvarlegri og raunar ósæmileg með öllu. Ég byggi þessa skoðun mína ekki á sérstakri þekkingu á lögum. Slíka sérþekkingu á ég ekki til frekar en aðrir leikmenn. Ég byggi hana hins vegar á réttlætiskennd minni og því, sem samviska mín og réttsýni segja mér — á þeirri réttlætistilfinningu sem verður að vera undirstaða þeirra laga, sem þjóðin setur sér, og athafna þeirra, sem lögin eiga að framkvæma og laganna að gæta í umboði almennings.

Ég get ekki talað fyrir munn annarra í þessu máli en sjálfs mín. En ég á þó bágt með að trúa því fyrr en ég tek á, að í hópi 60 þm. á löggjafarsamkundu þjóðarinnar sé aðeins einn sem sjái eitthvað athugunar- og ámælisvert við þá málsmeðferð sem ég hef hér lýst.