02.02.1976
Neðri deild: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það fari ekki hjá því að forseti sé mér sammála um það, að á mig hafa verið bornar sakir af því tagi sem ég þurfi af mér að bera. Ég skal reyna að vera eins stuttorður og ég mögulega get, en því miður get ég ekki lokið því á einni eða tveim mínútum. (Gripið fram í.) Nei, ég bíð ekki með það til morguns.

Ég verð fyrst að taka það fram, að ég er ekki einn um að undrast framkomu hæstv. dómsmrh. nú allra síðustu dagana. Hæstv. ráðh. er raunar orðinn eins og tveir gjörólíkir menn: annars vegar sá trausti, staðfasti og rólyndi maður sem hann var áður kunnur fyrir að vera, svo ber það allt í einu við, án þess að það geri nokkur boð á undan sér, að hann breytist í allt aðra manngerð, líkt og eitthvað illt hafi í hann hlaupið. Ég held að ég sé ekki einn um að hafa veitt þessu athygli. Mér þykir það mjög miður.

Ég er kannske yfirleitt veikur fyrir því eins og margir vestfirðingar að nota heldur stór orð, en ég tel að ég hafi reynt að gæta þess mjög vel í ræðu minni áðan að nota ekki slík orð. Ég vil leyfa mér að segja að framkoma hæstv. ráðh. af og til í þessum ræðustól áðan, þ. e. a. s. þegar hann virtist breytast í annan persónuleika en honum er eðlilegt, — slík framkoma var hæstv. dómsmrh. ekki sæmandi og ég ætla ekki að svara honum uppi með sama hætti, með því að nota sömu stóryrði, með því að viðhafa sömu framkomu. Það getur vel verið að slíkt skemmti einhverjum, en það sæmir ekki óbreyttum þm. að hegða sér þannig og það sæmir þó enn síður sjálfum dómsmrh. í landinu að láta þetta henda sig.

Ég get þó ekki annað en gert aths. við nokkuð af því sem fram kom hjá hæstv. ráðh. áðan, rétt til þess að lofa mönnum að sjá hvernig hann meðhöndlar staðreyndir.

Hann skýtur sér, hæstv. ráðh., á bak við núv. vararíkissaksóknara, Hallvarð Einvarðsson, og lætur í það skína að ástæðan fyrir því, að rannsókn þessa umfangsmikla máls, sem kom upp fyrir 41/2 ári, er ekki lokið, sé hans sök. Þetta leyfir hæstv. ráðh. sér að segja, þó að hér hafi verið vitnað í ummæli sama manns, núv. vararíkissaksóknara, þar sem hann segir að niðurfelling dómsmrn. hafi verið „allsendis ótímabær, ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum“, og kvartar mjög undan þeim áhrifum sem þessi ákvörðun rn. hafi haft á rannsókn málsins. Síðan leyfir hæstv. dómsmrh. sér að láta í það skína úr ræðustól á Alþ. að það sé þessum embættismanni að kenna hversu seint og illa hefur til tekist að reka málið.

Þá hafði hæstv. ráðh. einnig þau orð um mig, að því er mér skildist, — ég held að ég hafi skrifað þau orðrétt, — að ég hafi komið hingað upp í ræðustól til þess að veita mér upp úr svaðinu. En hvað hef ég gert? Ég hef vitnað í bréf núv. vararíkissaksóknara. Ég hef vitnað í bréf lögreglustjórans í Reykjavík. Og ég hef fyrst og fremst vitnað orðrétt í grg. sjálfs dómsmrn. Þetta var meginefnið í ræðu minni áðan. Um þetta segir hæstv. ráðh. að ég sé að velta mér upp úr svaðinu. Hvers svaði? Svaði lögreglustjórans í Reykjavík, svaði núv. vararíkissaksóknara eða svaði dómsmrn.? Ég tek það fram, að ég hef ekki vitnað í ræðu minni áðan — ég á hana hér skrifaða — í eitt orð í þeirri grein, sem hæstv. dómsmrh. ræðir um að hafi komið í Vísi, þannig að telji hann það svað, sem þar var skrifað, þá hef ég ekki velt mér upp úr því svaði. Ég hef aðeins vitnað í bréf frá m. a. rn. hæstv. ráðh. sjálfs

Þá sagði hæstv. ráðh. einnig, hélt yfir mér fræðandi fyrirlestur um tilganginn með 14. gr. áfengislaganna. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að ljúka máli sínu á örfáum sekúndum.) Ég mun ljúka máli mínu eins fljótt og ég mögulega get, virðulegi forseti, en hæstv. ráðh. hefur farið rangt með þær upplýsingar sem ég las upp áðan. Ég skal vera mjög stuttorður, en ég get ekki annað en leiðrétt það sem hann rangt fer með í því efni sem ég vitnaði orðrétt í. Ég get ekki annað. 2. mgr. 14. gr. hljóðar svo:

„Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma þegar sérstaklega stendur á.“

Lengra er þetta ekki. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðh. um túlkun á þessu atriði. Ég er ekki sérfræðingur í lögum eins og hann. Það eina, sem ég legg fram máli mínu til stuðnings, er álit viðkunns embættismanns í ríkiskerfinu, núv. vararíkissaksóknara. Hann er öndverðrar skoðunar við hæstv. dómsmrh. Í hans orð hef ég vitnað.

Þá er enn fremur haldið fram af hálfu dómsmrh. að ég hafi verið að gera aths. við það, halda fram að það væri ekki rétt að dómsmrn. eigi að taka lokaákvörðun í málinu. Ríkissaksóknari hefur ekkert um þetta að segja, sagði hæstv. ráðh. Ríkissaksóknari á ekki að gefa dómsmrh. leiðbeiningar eða fyrirmæli um það, hvernig honum beri að úrskurða. Þetta er auðvitað alveg rétt. En ég hef hins vegar aldrei hreyft andmælum við því, að lögum samkv. beri dómsmrn. að úrskurða um svona mál. Hvorki ég né vararíkissaksóknari, Hallvarður Einvarðsson, höfum haft uppi mótmæli við því, að lögum samkv. eigi dómsmrh. að úrskurða um þetta mál. Hins vegar hef ég, vararíkissaksóknari og fleiri mótmælt þessum úrskurði rn., og það finnst mér ansi hart, ef háttsettir starfsmenn í ríkiskerfinu, eins og núv. vararíkissaksóknari, þáv. aðalfulltrúi saksóknara ríkisins, hafa ekki leyfi til þess að hafa skoðun á aðgerðum dómsvaldsins og mótmæla aðgerðum þess, ef þeir telja þær aðgerðir á röngum grunni reistar. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því, hvernig stóð á því að hæstv. ráðh. lét ekki birta — (Forseti: Ég vil vekja athygli á því að fundartími er nú liðinn og það er ekki tími til frekari fsp. í dag.) Þá vek ég athygli aðeins á því, að hæstv. ráðh. lét ekki birta þessa grg. núv. vararíkissaksóknara sem ég er að ræða um.

Þá sagði hæstv. ráðh. einnig að rannsóknardómari hefði talið ástæðulaust að halda banninu áfram, hann hefði talið það ástæðulaust og þarflaust og þess vegna hefði bannið á rekstri vínveitingahússins Klúbbsins verið afnumið. Þetta er rangt. Ég vitna orðrétt í skýrslu rn. sjálfs: „Ekki taldi hann“, þ. e. a. s. Þórir Oddsson fulltrúi í sakadómi, „bannið skipta lengur máli fyrir rannsóknina, en fannst þó rétt að láta það standa áfram.“ Hæstv. dómsmrh. ætti að fara rétt með tilvitnanir í sínar eigin skýrslur.

Þá hélt hæstv. ráðh. því enn fremur fram, að það hafi ekki verið að fyrirlagi rn. sem bannið hefði verið fellt niður, heldur hefði lögreglustjóri gert það, — lögreglustjóri hefði gert það, rn. hefði ekki komið nálægt þessu. Þetta er rangt. Ég er hérna með bréf lögreglustjórans í Reykjavík. Ég skal lesa það orðrétt, það hljóðar svo: „Hér með leyfi ég mér að senda yður, herra saksóknari, afrit af bréfi er ég hef að fyrirlagi dómsmrn. sent Sigurbirni Eiríkssyni veitingamanni“ o. s. frv. Og ég get rökstutt það einnig með því að vitna í skýrslu hæstv. dómsmrh., að það er skoðun lögreglustjórans að rn. hafi úrskurðað í þessu máli, þótt úrskurðurinn hafi ekki verið formlega felldur.

Að lokum þetta, og ég skal ljúka máli mínu nú mjög fljótlega: Hér hélt hæstv. ráðh. langa tölu um það, hversu ógeðfellt lundarfar það væri að nefna nöfn í sambandi við rannsókn síðara málsins, sem nefnt hefur verið í mæltu máli Geirfinnsmálið, hvílíku ógeðslegu lundarfari það lýsti. Ég er með mína ræðu skrifaða hér frá orði til orðs. Ég nefndi eigi nöfn þeirra tveggja manna sem Ólafur Jóhannesson, hæstv. dómsmrh., ræddi um. Sá maður, sem fyrst nefndi þeirra nöfn hér á hinu háa Alþ., var hæstv. dómsmrh. sjálfur, með hans orðum lýsir það ógeðfelldu lundarfari að nefna nöfn í þessu sambandi.

Að lokum þetta: Ég get staðið jafnréttur eftir mitt framlag hér í dag eins og þegar ég gekk til þessa ræðustóls. Það hefur enginn komið að máli við mig til þess að biðja mig að gera það sem ég hef gert hér í dag. Þá ákvörðun mína tók ég einn og sjálfur, og ég veit ekki hvort einhverjir né heldur hversu margir standa á bak við mig í því máli sem ég hef hér flutt. En það skal ég segja hæstv. dómsmrh. Ólafi Jóhannessyni, að eigi ég einhvern stuðning í þeim málflutningi sem ég hef hér verið að lýsa, þá er hann kominn frá almenningi í landinu, en ekki aðilum eins og þeim sem hæstv. ráðh. valdi heitið „glæpahringur“ í útvarpsþætti í gærkvöld og virtist hafa átt við hluta af samstarfsmönnum sínum í ríkisstj.