03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök sem færð voru fyrir því á sínum tíma að Atvinnuleysistryggingasjóður ætti ekki að standa undir greiðslum þessa nauðsynjamáls. Ég ætla að mótmæla því, sem hér var sagt af næsta ræðumanni á undan mér, að Atvinnuleysistryggingasjóður sé ekki eign verkalýðshreyfingarinnar. Ég veit að hér er um umdeilt mál að ræða, en ég staðhæfi það enn einu sinni, að hann er eign verkalýðshreyfingarinnar fyrst og fremst, enda hluti af kjarasamningum og laun voru ekki að sama skapi hækkuð þá einmitt vegna framlags til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég ætla að undirstrika enn, að hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs er að greiða atvinnuleysisbætur, en ekki það eitt, heldur einnig að reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Og það er kannske það sem mest er um vert og það hefur hann reynt að gera með lánum til margs konar framkvæmda einkaatvinnurekstrar, sveitarfélaga og ríkis. Þetta hlutverk hans hefur nú verið skert svo verulega að á s. l. ári var lánastarfsemi hans mjög lítil. Og núna, þegar að þrengir og sjáanlegt er að atvinnuleysi fer vaxandi, þá er sjóðurinn magnlaus á þessu sviði.

Það er verið að tala um að við höfum verið andvígir fæðingarorlofinu, það lá í orðum síðasta ræðumanns. Þetta er mjög rangt og skal aðeins mótmælt hér. Ég hef ekki tíma til neinnar röksemdafærslu þar að lútandi hér. En ég vil skora á ríkisstj. að sjá þessum málum borgið á annan hátt en gert var hér á mjög flausturslegan hátt í fyrra og enn er verið að gera með miklu flaustri og vanhugsuðum vinnubrögðum. Um það ætla ég ekki að fjalla núna, en skora á ríkisstj. og stjórnarflokka að sjá fyrir þessum málum á annan hátt en gert var í fyrra.