03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Fæðingarorlof kvenna er vafalaust fullkomið réttlætismál. En þá fyrst verður það raunverulegt réttlætismál ef allar konur eru jafnar fyrir þeim lögum sem sett eru um fæðingarorlof kvenna. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að sett sé heildarlöggjöf um fæðingarorlof kvenna. Það er engin sönnun fyrir því eða staðfesting á því, að þær konur, sem nú njóta fæðingarorlofs samkv. lögum, séu þær sem helst þurfa þess. Þær þurfa þess vafalaust en það eru margir aðrir hópar kvenna í þjóðfélaginu sem þurfa þess engu síður. Margar þessara kvenna vinna í atvinnulífinu þó að þær séu ekki launþegar í venjulegum skilningi, og margar þær konur, sem vinna á heimilum sínum, þurfa engu síður á slíku fæðingarorlofi að halda heldur en þær konur sem vinna úti. Ég vil vekja athygli á þessu og gleyma t. d. ekki sveitakonum í þessu sambandi.