03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

309. mál, atvinnumál aldraðra

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh.. Fsp, er á þskj. 82 og er svona, með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 14. maí 1975 um atvinnumál aldraðra?“

Þessi samþykkt er frá 14. maí 1975, eins og stendur í fsp. og er samþykktin gerð á grundvelli till. frá hv. þm. Alþb., auk mín þeim Eðvarð Sigurðssyni og Helga F. Seljan. Þál. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa í samráði við aðila vinnumarkaðarins frv. til laga um atvinnumál aldraðra og verði að því stefnt, að allir 67 ára og eldri, sem til þess hafa þrek og vilja, geti átt kost á atvinnu við sitt hæfi“.

Tilgangur okkar flm. með þessu var að reyna að koma á meiri sveigjanleika í atvinnumálum aldraðs fólks og veita því með því móti meira öryggi í atvinnumálum og þar með afkomu. Hér er að okkar dómi um mjög mikilvægt félagslegt viðfangsefni að ræða.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er mjög algengt orðið að fyrirtæki og atvinnurekendur segi mönnum upp starfi við sjötugsaldur, og í lögum um opinbera starfsmenn er skýrt kveðið á um aldurshámark. Ekki verður réttmæti þessara reglna dregið í efa. En á hinn bóginn verður ekki lengur horft fram hjá þeim persónulega og félagslega vanda sem það veldur mörgum að vera kippt úr starfi fyrir fullt og allt sakir aldurs, því að fjöldi þessa fólks býr yfir reynslu, talsverðri starfsorku og vilja til að halda áfram störfum í einhverjum mæli. Það er þó alkunna að þau lausastörf, sem öldruðu fólki standa til boða á almennum vinnumarkaði, krefjast yfirleitt af því fulls vinnudags og er því oft á tíðum ofraun fyrir það að sækja slíka vinnu. Þá er einnig hætt við að þróun atvinnumála skerði möguleika þessa fólks til að fá slíka vinnu. Hér þarf því skipulegar endurbætur á þessu sviði sem taki fullt tillit til allra þeirra breytinga á vinnumarkaði sem eiga sér stað, svo sem sívaxandi vélvæðingar og aukins hagræðingarskipulags. Ég hafði ímyndað mér að skipuð yrði n., sem í ættu sæti fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins og e. t. v. fleiri aðilum, til þess að gera till. um fyrirkomulag á grundvelli þessarar samþykktar. En þegar ég kannaði málið hjá Alþýðusambandi Íslands fyrir að ég hygg tveimur víkum, þá höfðu engin tilmæli borist þangað um að skipa fulltrúa í n. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh., hvað hafi verið gert í þessu máli, og vona að nú sé komin hreyfing á það.

Ég vil í lokin benda á að farið hefur fram á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar ein, ef ekki tvær athuganir á atvinnumálum aldraðs fólks, þar sem koma fram ýmsar leiðbeiningar og nýjar athuganir. Tel ég sjálfsagt að notast verði við þá reynslu sem þar er að finna.