27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

17. mál, skólaskipan á framhaldsskólastigi

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 20 höfum við hv. 5. þm. Norðurl. v. og ég leyft okkur að flytja till. til þál. um skólaskipan á framhaldsskólastigi, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþ., frv. að löggjöf um skólaskipan á framhaldsskólastigi. Megintilgangur frv. verði að leggja grundvöll að samræmdum framhaldsskóla, þar sem kveðið sé skýrt á um verkaskiptingu og tengsl hinna ýmsu skóla og námsbrauta. Jafnframt þarf frv. að vera stefnumótandi um hlutdeild ríkis og hugsanlegra mótaðila í stofnkostnaði, rekstri og stjórnun framhaldsskólanna:

Ég flutti fyrir þessu máli á síðasta þingi, síðla þá, ítarlega framsögu. Það er óþarft að gera nú jafn nána grein hér fyrir þessu máli. Ég bendi aðeins á það, að ef þessi till. yrði nú samþ., þá gefst betri tími en þá hefði gefist til þess að íhuga þetta mál og n., sem fær þetta mál til meðferðar, gefst enn betri kostur á að leita umsagnar, þar sem málið kemur svo snemma fram nú á þessu þingi. Ég vil treysta því, að n. sjái sér fært að afgreiða þessa till. Ég hygg að um markmiðið sjálft, sem hér er að stefnt, séu ekki miklar deilur.

Ég vil drepa á nokkur þau helstu atriði sem liggja til grundvallar þessum tillöguflutningi. Hér er í raun og veru um beint og rökrétt framhald grunnskólalaganna að ræða, því að í lögum um skólakerfi, sem samþ. voru um leið, segir einmitt að frumfræðslunni skuli skipt í þrjú skólastig: skyldunámsstig, framhaldsskólastig og háskólastig. Það er um miðstig þessa skólakerfis, sem alla heildarlöggjöf hliðstæða grunnskólalögunum vantar, og það er verkefni sem knýr fastar á með ári hverju.

Um grunnskólalögin urðu miklar deilur. Það var oftlega deilt um aukaatriði, en þó var einnig um grundvallarágreining að ræða. Það eru litlar líkur á því að full eining takist þegar í upphafi um þetta stig námsins, einkanlega þegar að því er gætt að hér er um miklu yfirgripsmeira svið að ræða og óskipulagðara en var um barna- og unglingafræðslu fyrir setningu grunnskólalaganna. Það er því full ástæða til þess að hraða undirbúningi nýrrar löggjafar um þetta stig námsins, ekki hvað síst þegar þess er gætt að vandkvæðin aukast ár frá ári fyrir það unga fólk sem þarf að velja sér námsbraut utan þeirrar hefðbundnu menntaskóla- og háskólabrautar sem í dag er svo afgerandi sem raun ber vitni um.

Ekki má skilja orð mín svo að ekkert hafi á umliðnum árum verið gert varðandi annað nám en undirbúning fyrir háskólastigið. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar, sumar reynst hið besta, en aðrar tekist miður til. Um það skulu ekki rakin dæmi hér, þótt um hvort tveggja mætti hafa langt mál. En aðalatriði þessa máls er þó í fyrsta lagi að alla heildarskipulagningu hefur skort. Um samræmda stefnu hinna ýmsu námsbrauta hefur ekki verið að ræða. Í öðru lagi hefur allt, sem lotið hefur að verklegum þáttum menntunarinnar, verið vanrækt og því markaður bás sem óæðra nám. Að því hníga t. d. fjárveitingar allar glögglega, bæði til stofnkostnaðar og rekstrar. Samanburður í fjárl. þeim, sem nú liggja fyrir þinginu í frv.-formi, er hrikalegri en svo að ég treysti mér að þylja hann yfir hv. þm. Það er samanburður t. d. á fjárveitingum til menntaskóla annars vegar, iðnskóla hins vegar, en hinn ógurlegi mismunur endurspeglar ljóslega hið ólíka mat sem hér hefur verið og er enn á lagt. Í þriðja lagi þarf að fjölga námsbrautum í beinum tengslum við atvinnulíf okkar, auka starfsþjálfun almennt og hefja hana um leið á annað og æðra stig.

Vanmat ungs fólks á frumframleiðslu okkar og þýðingu hennar er algengara í dag en nokkurn grunar og er bein afleiðing skólastefnu okkar að verulegu leyti. Sem betur fer ætti sá hugsunarháttur að vera horfinn, að engin þörf væri á aukinni undirstöðumenntun við t. d. þau störf sem lúta að sjávarútvegi og landbúnaði, eins og ég man frá bernsku minni að var algengt. Ágætur vinur minn sem lengi sat hér á hinu háa Alþ., en var þá að berja í mig sögu þjóðar okkar, sagði meira að segja: „Það getur hver sem er búið, til þess þarf enga menntun.“ En svo bætti hann við: „En tímarnir eru að breytast og hver veit nema allir þurfi eitthvað að læra áður en þeir fara að hokra við búskap.“ Vanmat á landbúnaði sem slíkum var þó þessum ágæta fyrrv. þm. víðs fjarri, enda hvort tveggja greindur og raunsær og hafði sjálfur stundað þennan atvinnurekstur. Tímarnir hafa breyst, þróunin orðið örari en hann eða nokkurn grunaði, og við stöndum ótvírætt andspænis því viðamikla verkefni að þjálfa og mennta fólk til starfa við hinar ýmsu greinar í frumframleiðslu okkar og um leið að hefja hana til nýs vegs, opna nýjar leiðir til að auka hana og bæta.

Ég varð þess greinilega var í fyrra að ýmsir litu svo á að þessi till. okkar væri fyrst og fremst andstæð menntaskólanáminu, væri jafnvel yfirlýst stefna okkar að klekkja á þeim námsbrautum sem að háskólastigi stefndu. Hið rétta í þessu er að nýjar brautir á sviði verknáms og atvinnulífs og sem fyllst jafnræði með þeim og menntaskólabrautinni sígildu eiga ekki að verða á kostnað menntaskólanna, nema þá að því leyti sem ásókn í þá einhæfu braut minnkaði, svo sem full þörf er á.

Ég vitnaði í fyrra í orð einhvers hæfasta menntaskólafrömuðar okkar nú, Guðmundar Arnlaugssonar rektors við Hamrahlíð, er hann lýsti áhyggjum sínum af sífellt vaxandi ásókn nemenda á menntaskólastigið. Því yrði að breyta og finna nýjar leiðir sem hefðu svipað menntunargildi og réttinda, en mundu um leið verða þjóðarheildinni farsælli og þjóðarbúinu notadrýgri.

Á því hefur verið vakin athygli hve meðaleinkunnir í menntaskólunum fari lækkandi. Engan þarf á því að undra þegar fjöldinn eykst án tilsvarandi áhuga, þegar ýmsir telja sig verða að fara þessa braut til þess eins að gera eitthvað í námi, sem að gagni mætti koma á lífsleiðinni, og öll þjóðfélagsgerð okkar beinist að þessu námsstigi umfram önnur sem æðri og virðulegri brautar. Ekki er svo að skilja að meðan þetta nám taldist til hreinna forréttinda hinna efnameiri, þá væri þar um eintómt hæfileikafólk að ræða, síður en svo. Það fór margur óverðugur upp allan stigann af þeirri ástæðu einni að auður réð ferðinni. En það breytir ekki þeirri staðreynd sem í dag blasir við og er afleiðing þeirrar ofdýrkunar og ofmats, sem ríkt hefur í framhaldsnámi okkar um menntaskólabrautina sem forréttindabraut í flestu eða öllu.

Mér er enn ofarlega í huga það slys sem gerðist varðandi kennaramenntunina í landinu þegar hún var hafin á háskólastig, einvörðungu með þeim afleiðingum t. d. að góð námsbraut, tiltölulega alhliða þroskandi og stutt, lokaðist mörgu því fólki sem nú fetar einstigi menntaskólabrautarinnar til að ná sama marki. Þar með er ekki sagt að ég hefði ekki gjarnan viljað viðbót við kennaramenntunina í landinu, og vel þekki ég það af eigin raun hve gremjulegt það var eftir þriggja ára nám í Kennaraskólanum gamla að eiga þá einskis framhalds völ nema fara til þess erfiðar krókaleiðir. Nú þarf 7–8 ára nám til þessa sama starfs sem ég þurfti 3. En maður þarf ekki endilega að vera til þess rúmlega helmingi færari þó að gráðan sé virðulegri. Enginn má misskilja það, eins og gert var í fyrra, að ég vanmeti kennaramenntunina í dag. Það var aðeins of langt gengið, ofgert, fyrir utan þann óhjákvæmilega kennaraskort, sem af þessu leiðir í ríkari mæli á næstu árum en nokkru sinni, einkum úti á landsbyggðinni, og er þegar farinn að koma í ljós á nýjan leik.

Kennaramenntunin áður var dæmi um blindgötu í skólakerfinu. Þær blindgötur viljum við flm. að verði sem fæstar með nýrri allsherjarskipun framhaldsnáms. Í dag er hún hins vegar hreinræktuð menntaskólabraut með háskólastigi sem hinu eina raunhæfa lokamarki. Hún er því dæmigerð bæði fyrr og nú fyrir það sem varast ber. Ég benti á þetta í fyrra og geri það enn, um leið og ég undirstrika hve rangt það er að vera að tina eina og eina námsbraut út úr og auka gildi hennar án tengsla við neina heildarstefnu, — þá heildarstefnu sem við erum hér einmitt að leggja til að upp verði tekin í beinu framhaldi af endurbættri löggjöf framhaldsskólastigsins. Ég vakti þá enn athygli á því, sem ég taldi sveigjanleika grunnskólalaganna, og hinum rúmu endurskoðunarmöguleikum á lögum sem, ef rétt verður með farið, gefa þeim aukið gildi, þannig að laga megi þau á hverjum tíma að breyttum aðstæðum, þótt ávallt beri að gæta varfærni að því að hlaupa ekki í blindni eftir hverri nýjung, eins og dæmin sanna að gert hefur verið.

Valfrelsi um nám í efsta hluta grunnskólans þarf að vera sem mest og virkast. Þar óttast ég ætíð vandkvæðin úti á landsbyggðinni. En ef ráðuneyti menntamála og hinar nýju fræðsluskrifstofur koma nógu jákvætt til eða koma þar til liðs við heimaaðilana á að vera kleift að auka til muna valfrelsið frá því sem nú er. En ég bendi einnig á að þetta valfrelsi nýtist ekki til fulls ef framhaldið vantar, ef það liggur ekki þá þegar ljóst fyrir nemendum hverra kosta þeir eiga völ að loknum grunnskóla og þá verði möguleikarnir sem flestir og um leið jafnastir, að ein og sama leiðin verði ekki hlutskipti of margra, eins og er í dag. Góð og skjót framkvæmd grunnskólalaganna hvað valfrelsi snertir kemur ekki að tilætluðum notum ef framhaldsnámið hefur ekki á sama hátt verið skipulagt, þannig að hvort tveggja verði tryggt: námsleiðir verði sem greiðastar og jafnastar og að blindgötueinkennin í dag verði afmáð sem mest með nýju heildarskipulagi allrar framhaldsmenntunar.

Um þetta skal ég ekki fjölyrða frekar nú. Vangaveltur sem slíkar eru endalaus möguleiki, þótt um þessi mál þurfi að verða vakandi umr., jafnt meðal skólamanna, námsmanna og auðvitað þm. sem og úti í þjóðfélaginu sjálfu almennt. Breytt þjóðfélagsgerð, ör þróun á öllum sviðum krefst þess að skólamálin almennt séu stöðugt í brennidepli, að ekki liggi eftir hlutur skólakerfisins í þá átt að auka möguleika á fjölhreyttari þróun atvinnuhátta og betri og virkari þátttöku vel menntaðs ungs fólks í meginatvinnugreinum okkar.

Við samningu till. þessarar í fyrra höfðum við flm. fengið til liðs við okkur Hjörleif Guttormsson líffræðing í Neskaupstað sem hyggst einmitt gera tilraun til þess að marka nýja stefnu í skólamálum Austurlands með tilkomu nýs menntaskóla þar, gera þar djarfhuga og róttæka tilraun til nýrrar umsköpunar þess náms, þar sem samtengist bæði hið verklega og bóklega nám, auk þess sem fáir eru Hjörleifi fróðari um fjölbrautaform þau sem mjög eru nú í sviðsljósinu. Einnig kom þar við sögu Gunnar Guttormsson fulltrúi í iðnrn., sem hefur sérstaklega í starfi sínu þar haft með iðnfræðslu og verklega mennt og þjálfun að gera. Báðir miðluðu þeir okkur ótæpilega af þekkingu sinni og m. a. benti Gunnar Guttormsson okkur þá á nýlega un. sögn til Alþ. frá iðnfræðslunefnd svokallaðri, þar sem þessar setningar er að finna, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftur á móti er það álit n. að hraða beri undirbúningi nýrra laga um allt framhaldsskólakerfið, og við þá lagasmið er nauðsynlegt að þess sé gætt að samræma starfsemi framhaldsskólanna, gera verkefnaskiptinguna ljósari og fyrirbyggja eftir megni að láta ýmsar námsbrautir lenda í blindgötum eins og nú er tilfellið. Á það skal bent að mikið er ógert fyrir utan beina lagasmið til þess að unnt sé að samræma alla framhaldsskóla landsins. Má þar nefna m. a. stjórnun og undirbúning námsefnis, því að samræming skólanna útheimtir að námsframboð, kennslustaða og prófkröfur þurfa að vera hinar sömu, að svo miklu leyti sem hinir ýmsu skólar hafa sömu námsbrautir eða hluta af braut.“

Þetta segir í áliti iðnfræðslulaganefndar þar sem tekið er í raun sterklega undir þessa till. okkar til þál. um skólaskipan á framhaldsskólastigi.

Í grg. með þessari till. ræðum við frekar um þessar blindgötur og þær hindranir sem geta verið í vegi fyrir því að fólk geti síðar lagt inn á nýjar námsbrautir, annaðhvort í reglulegu skólanámi eða með stuðningi af fullorðinsfræðslu í öðru formi. Við bendum á það að víða í grannlöndum okkar er unnið að slíkum sveigjanleika skólakerfisins og það megi margt læra af reynslu þeirra. Við bendum á það í grg., að þær áætlanir, sem þegar hafa verið gerðar um samræmt fjölbrautanám á nokkrum svæðum á landinu, séu vísir að mótun þess heildarskipulags náms á framhaldsskólastigi sem hér um ræðir. Það er m. a. gert ráð fyrir að námsskrá skólastigsins verði samræmd af fræðsluyfirvöldum og námið byggt upp í formi eininga þar sem ein taki við af annarri og unnt er að raða námseiningum saman á skilgreindum námsbrautum sem nemandi getur valið sér í samræmi við áhugasvið og getu. Veigamikill kostur slíks námsskipulags er sveigjanleiki, sem m. a. gerir nemendum kleift að ljúka námi með nokkrum réttindum eftir stutta skólagöngu, t. d. 1–2 ár, og auka síðan við án þess að byrja frá grunni. Slík skipan á í senn að geta lyft verkmenntun í landinu til meiri vegs en nú er, til hagsbóta fyrir atvinnuþróun, og einstaklingarnir fá um leið tækifæri til að reyna sig í starfi áður en þeir lokast inni í mjög sérhæfðu eða löngu námi. Þeirri endurskipan, sem hér um ræðir, er þó ekki stefnt gegn þeim sérskólum sem fyrir eru í landinu því að allir munu þeir geta gegnt mikilvægu hlutverki í tengslum við samræmt fjölbrautanám hver á sínu sviði og betur en nú er, þar sem þeir þurfa auk sérkennslunnar að sinna margháttaðri almennri undirstöðufræðslu.

Í fyrra staldraði ég við og nefndi ýmsar þær námsbrautir sem samræma þyrfti í nýskipan framhaldsmenntunar. Ég benti þar á t. d. hjúkrunarfræðsluna, verslunar- og viðskiptanám ýmiss konar og húsmæðrafræðsluna, auk iðnfræðslunnar sjálfrar sem nú er í megnasta ólestri. Námið í þessum einstöku greinum er mjög mislangt. En einangruð fræðsla í tilteknum greinum einum á ekki að vera ríkjandi fyrr en á lokastigi. Við flm. leggjum einmitt á það sérstaka áherslu að skólaskipanin nýja á að vera í þágu nemandans, en ekki kerfisins, reyna að gera hann ánægðari, fjölfróðari og víðsýnni í námi sínu svo sem nokkur kostur er. Um framkvæmdina hlýtur allaf að mega deila og hún getur vitanlega orðið misjöfn, en sveigjanleiki og víðfeðmi í skólaformi eiga að tryggja möguleika á betri framkvæmd og bættri alhliða menntun á framhaldsskólastiginu. Því er síst að leyna að hér er hægara um að tala en úr að bæta. Það gerum við okkur fyllilega ljóst. Hér er mjög mikið starf óunnið og mörg ljón vissulega á veginum. Ég bendi á það að sérskólasjónarmiðin eru býsna sterk og samræming að því er virðist ólíkra námsbrauta ekki leikur einn, enda reiknum við ekki með neinni alhæfingu eða neinni stökkbreytingu í þessum efnum, en heildarskipulag verður þó alla vega að hafa. Fálmkenndar tilraunir, sem er verið að gera á einstökum sviðum, geta gert illt verra og því þarf heilsteypta rammalöggjöf, svo sem hér er að stefnt. Sú er aðalástæðan fyrir flutningi þessarar till. okkar, að við óttumst að allur dráttur á þessu kunni að reynast alvarlegur, fyrst og fremst í þeim greinum sem nú þurfa og eiga að fá uppreisn í okkar skólakerfi, — öllum þeim greinum sem lúta að atvinnulífi okkar og verkmenntun í landinu.

Í grg. okkar segir einnig að brýnt sé vegna byggðarsjónarmiða að framhaldsnám eflist í landshlutunum svo að jafnað verði það bil sem óðum fer breikkandi milli þeirra og höfuðborgarsvæðisins varðandi námskosti og fjölbreytni í námsvali. Það er sjónarmið flm. að endurskoðun sú, sem till. gerir ráð fyrir, sé ekki síst mikilvæg fyrir þróun framhaldsskólanáms úti um land og um leið atvinnuþróun landsbyggðarinnar. Einnig þar á samræmt fjölbrautanám undir forustu kjarnaskóla að geta orðið vegvísir, sem tryggir landsbyggðinni betri stöðu til að halda til jafns við höfuðborgarsvæðið um menntunarkosti, enda njóti slík uppbygging jafnræðis og helst forgangs um fjármögnun.

Við bendum á að allt nám á framhaldsskólastigi eigi að sitja við sama borð hvað fjárveitingar snertir. Hér var sérstaklega vikið að því sem við höfum fengið lánað frá Hjörleifi Guttormssyni og nefnt er kjarnaskóli, þ. e. a. s. að hér yrði um að ræða kjarnaskóla sem yrðu forustuaðilar í mótun framhaldsnáms á tilteknum svæðum, svipað og fyrirhugað er með skólann á Egilsstöðum. Það er að vísu flókið mál að fara náið út í það, en ég bendi á helstu þættina í því sem í dag eru fyrirsjáanlegir og eru fyrirhugaðir varðandi menntaskólann á Egilsstöðum eða fjölbrautaskólann þar.

Það er í fyrsta lagi fyrirhuguð tenging við verkmenntun í Neskaupstað og víðar í fjórðungnum. Síðar kæmi Höfn í Hornafirði sem eins konar útibú frá þessum skóla inn í dæmið. Þar kæmi Hallormsstaður inn með sína húsmæðrafræðslu eða hvað hún nú mun heita, búnaðarfræðsla væntanleg og sjálfsögð í tengslum við tilraunastöðina á Skriðuklaustri, útibú frá Fiskvinnsluskóla, eins og rætt hefur verið um, og þannig mætti áfram telja og nefna til viðbótar t. d. hjúkrunarbraut í tengslum við sjúkrahúsið Neskaupstað. En þó að möguleikarnir séu miklir og margvíslegir, þá þykir okkur rétt að taka undir hugmynd Hjörleifs um að ákveðinn kjarnaskóli hafi forustu. Framhaldsbrautir hinna einstöku greina yrðu þar og um leið stefnumótun almennt um samtengingu námsbrautanna þegar lengra verður komið og þá yrði auðvitað fræðsluráð hvers skóla með þetta að miklu leyti í höndum sér. Við vitum að forgangur í fjármögnun hefur verið nokkuð mikill miðað við aðalþéttbýlissvæðið, og ég held að það mæli fátt gegn því af sanngirni að um tíma hafi landsbyggðin forgang varðandi framhaldsmenntunina. Um fjármögnun til hinna einstöku greina menntunarinnar, að hún sé sem jöfnust, þá ætti það ekki að þurfa rökstuðnings við. Atvinnuvegir okkar kalla allir á aukna menntun, a. m. k. lágmarksmenntun, og verkmenntunin þarf og á að vera jafnrétthá hinni bóklegu án þess að þar myndist nein menntastigsgjá á milli eins og nú er.

Að lokum segjum við í grg. að óhjákvæmilegt sé að frv. kveði skýrt á um hver eigi að vera hlutur ríkisins og aðila í fræðsluumdæminu í stofnkostnaði, rekstri og stjórn framhaldsskólanna. Flm. telja að sú kostnaðarskipting, sem bundin er í heimildarlöggjöfinni um fjölbrautaskóla, sé óraunhæf og þarfnist endurskoðunar. Við vitum hvernig þetta hlutfall er til komið í löggjöf í dag, þ. e. a. s. 60% af hálfu ríkisins, 40% af hálfu heimaaðila. Það er óraunhæft og ósanngjarnt. Þar er aðeins um tilraun að ræða við alveg sérstakar aðstæður, og endurskoðun þess er sjálfsögð og ég held meira að segja að hún sé í fullum gangi í aukna réttlætisátt fyrir þá aðila er á móti ríkinu eiga að leggja sitt framlag.

Það má segja að grg. ein hafi ekki sagt hér alla sögu. Hún er aðeins vegvísir til þeirrar nýskipunar sem hér þarf að komast á sem fyrst. En nokkur almenn orð hljóta alltaf að fljóta með og í sumu kann eins og venjulega að vera ofsagt, því að vissulega er ég ekki að vanmeta þá námsbraut sem menntaskólanámið er í dag út af fyrir sig, aðeins alhæfingu hennar og hve afgerandi hún er og ríkjandi í okkar skólakerfi. En fyrir okkur landsbyggðarmenn er þetta verkefni í hvívetna mjög brýnt. Við þurfum að tryggja hvort tveggja, að vinna upp sem best grunnskólanámið, sem þegar er tiltölulega fullkomin löggjöf um þó að henni megi vissulega alltaf breyta, og ekki síður jafnhliða framhaldsnám í nýjum búningi, laust við fjötra sérhæfingar og forgangs menntaskólanámsins, svo sem er í dag. Til að ýta á eftir þessari brýnu lagasetningu er till. þessi flutt. Hún er engan veginn tæmandi. Til þess er ekki ætlast og við leggjum einmitt sérstaka áherslu á að löggjöf, sem sett yrði um framhaldsnám í landinu, yrði sveigjanleg, hún hefði næga endurskoðunarmöguleika og hún eigi á hverjum tíma að geta breyst í samræmi við breytta þróun og við skulum vona betri og fullkomnari atvinnuhætti. Ég held að það sé mál allra í dag að það sé fátt meiri þjóðhagsleg nauðsyn, eins og svo oft er haft á orði, en að beina ungu fólki inn á nýjar menntabrautir sem nýtast þjóðarheildinni og einstökum landshlutum svo vel sem kostur má vera.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska eftir því að þessari till. verði vísað til hv. menntmn.