03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart þessi yfirlýsing frá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að hann mundi fagna því að Union Carbide vildi eiga verksmiðjuna án aðildar okkar Íslendinga. Ég ætla ekki að pexa við hann um þessi sjónarmið, en segja það aðeins, að nógu vond held ég hún muni reynast okkur þessi verksmiðja þó að við hefðum þá aðstöðu að fá þar einhver áhrif á með meirihlutaaðild.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðh., að það standi ekki til að breyta samningnum í þessa átt, að auðhringurinn eignist meiri hlutann. Hann getur hins vegar ekkert sagt ákveðið um það, hvað verði um áframhald við Grundartanga. Það er alltaf verið að endurskoða. Mikið held ég að það sé þreytandi að bera ábyrgð á svona framkvæmdum og þurfa að standa í þessari endalausu endurskoðun. Ég held að það væri réttast að létta af þessum endurskoðunaráhyggjum öllum saman með því að ákveða að hætta við að byggja þessa verksmiðju við Grundartanga, beini þessum vinsamlegu tilmælum til stjórnvalda.

Líka vil ég vekja athygli á því að þegar sumarið kemur, tíð gróandans, og ef ekkert verður aðhafst frekar þar efra og kannske verður þá ljóst að enn muni lengi dragast framkvæmdir, þá vil ég benda á það, að í landslögum segir að þegar gert hefur verið jarðrask af þessu tagi, þá sé viðkomandi aðilum skylt að græða upp sárin. Ég beini þessu til stjórnvalda, að láta ekki liða mjög langt fram á vorið án þess að safna liði upp að Grundartanga til uppgræðslu, til að sá í sárið.