03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins staðfesta það sem hæstv. iðnrh. hefur hér sagt varðandi þetta mál, að endurskoðun á því stendur nú yfir og er væntanlega senn lokið um framkvæmdahraða.

Varðandi þau önnur atriði, sem hv. þm. Jónas Árnason hefur hér minnst á, þá finnst mér rétt að minna á það, ef það er ákveðið í hugum manna, eins og hann virtist vilja vera láta, að þarna skuli framkvæmdir stöðvaðar eða hætt að fullu og öllu, þá verða menn líka að taka tillít til þess, sem ég efast ekki um að hann veit, að íslenska ríkið og Alþ. hefur tekist á hendur ákveðnar skuldbindingar í sambandi við þetta mál. Þær skuldbindingar eru ekki þess háttar sem bægt er að henda út um gluggann og segja: Nú er ég hættur, ég er farinn í fýlu eða er orðinn vondur og ætla ekki að hafast frekar að. Þarna eru skuldbindingar sem við verðum að standa við, rétt eins og hinn aðilinn, sem þarna á hlut að máli, verður að standa við sínar skuldbindingar. Þetta eru atriði sem eiga að vera öllum hv. alþm. ljós.

Það er ekkert launungarmál, að þetta efni, sem umrædd verksmiðja á að framleiða, ferrosilíkon, fylgir stálverði. Stálverð hefur farið lækkandi á undanförnum mánuðum á heimsmarkaðnum og þar af leiðandi þetta efni líka. Ég efast ekki um að þetta kann að hafa einhver áhrif á hinn aðilann að fyrirtækinu og draga að einhverju leyti úr áhuga hans þótt ekki sé neitt staðfest um það. En alla vega er augljóst að sú endurskoðun, sem nú fer fram, eða þeir áfangar hennar, sem þegar eru ljósir, hafa leitt í ljós að hér er ekki um þá hættu að ræða að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Forsögu málsins þarf ég ekki að rekja hér. Hana þekkir hv. þm. Jónas Árnason eins vel og ég og fyrir hverra forgöngu þessir samningar voru gerðir. En landslög eru það eigi að síður og opinberir samningar, og við þá verður að standa.