03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vil ég aðeins láta þess getið, að ég man í fljótu bragði ekki eftir öðru máli sem fastar var sótt í tíð vinstri stjórnarinnar af hálfu Alþb. að samþykkt yrði og hrundið í framkvæmd en þessu máli sem nú er á dagskrá. Þess vegna undrar mig nokkuð ákafi þessa hv. ræðumanns nú, þegar búið er að fresta framkvæmdum um sinn og allt málið er í nánari athugun miðað við breyttar aðstæður. Ég man að það var fast sótt á um það, — ég held að það hafi verið veturinn eða vorið 1974, meðan vinstri stjórnin sat að völdum, — að Sjálfstfl. gengi með fullum þunga að þessu máli ásamt vinstri stjórninni. Þess vegna er nú að mínum dómi, þegar aðstæður eru nokkuð breyttar, sjálfsagt að skoða þetta mál á nýjan leik, og ég vona að við getum allir verið sammála um það. (Gripið fram í.) Nei, það var sótt af svo miklum ákafa hér á hæstv. Alþ., að ég man ekki í annan tíma eftir ráðh. Alþb. beinlínis inni á gafli í flokksherbergi Sjálfstfl. til að reyna að knýja það fram og afla því fylgis.