03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

109. mál, málefni vangefinna

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef ásamt fimm hv. alþm. öðrum leyft mér að flytja till. til þál. um heildarlöggjöf varðandi málefni vangefinna. Till. er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fram frv. til l. um heildarskipulag varðandi öll málefni vangefinna.

Löggjöfin taki mið af þessum meginatriðum:

1. Stefnt skal að því að koma á heildarkerfi, framtíðarskipan í samræmi við þau viðhorf sem ríkja í þessum málum og þær þjóðir byggja á sem lengst eru á veg komnar.

2. Löggjöfin spanni þannig yfir heilsugæslu, kennslu og þjálfun og félagslega þjónustu hvers konar og samræmi alla þessa þætti undir einni heildarstjórn.“

Ég hef áður leyft mér að flytja till. um skyld málefni ásamt hæstv. menntmrh. Vilhjálmi Hjálmarssyni og hv. þm. Karvel Pálmasyni. Þar var að vísu hreyft við einum afmörkuðum þætti þessara málefna, aðstöðunni á landsbyggðinni og úrbótum þar sérstaklega. Í kjölfar þeirrar till. fór fram ítarleg könnun á málefnum vangefinna í heild, sú veigamesta sem hér hefur fram farið. Könnunin leiddi margt í ljós sem fólk almennt mun ekki hafa áttað sig á og þó það helst, hve mörgu er hér enn ábótavant þrátt fyrir mikið starf margra. Í framhaldi af þessu var mér það verkefni hugleikið, sem hér er nú reifað í tillöguformi, þ. e. að hér skortir heildarlöggjöf sem á mætti byggja til frambúðar þá skipan þessara mála sem okkur væri sæmandi.

Það er að vísu rétt að taka það fram strax að í raun verða þessi mál ekki tekin fyrir einangruð svo að vel sé. Tengsl við menntaþátt seinþroska barna, sem nú fyrst er farið að sinna skipulega, eru nauðsynleg, því að oft eru mörk hér á milli óglögg og nauðsyn að hyggja að hvoru tveggja samhliða. Almenn félagsleg þjónusta í landinu og heilsugæslumálin almennt koma inn í þessa mynd á þann hátt að sérþörfum þessa fólks sé ævinlega sinnt í þeirri heildarlöggjöf á hverju sviði og framkvæmdin sé eftir því. Inn á það atriði er komið í grg. þar sem undirstrikað er höfuðmarkmiðið með þessum tillöguflutningi, þ. e. jafnrétti vangefinna á öllum sviðum samfélagsins eftir því sem kostur er. Sú stefna hefur ríkt hér að fjarlægja þetta fólk frá þjóðfélaginu, safna því saman og reyna þar að gera fyrir það sem unnt er, og ekki skyldi það vanmetið. En þegar um það er einnig að ræða að starfið beinist eingöngu inn á við án tengsla við þjóðfélagið, það líf sem við almennt lífum, í stað þeirrar aðhæfingar sem nauðsyn er að sem allra flestir njóti, þá er tilganginum aldrei að fullu náð. Mætti jafnvel segja að mikið af starfi væri unnið í of miklu tilgangsleysi.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa á seinni árum snúið algjörlega frá þessari innhverfu stefnu, og nútímaviðhorf öll beinst að því að þroska og þjálfa alla þá hæfileika, sem finna má hjá hinum vangefna. Með því að hefja nógu snemma alhliða þjálfun telja þeir, sem best til þekkja, að möguleikarnir margfaldist fyrir stóran hóp af vangefnum til þess að eiga sér sjálfstæða tilveru, einkum þó þegar vakandi félagsleg aðstoð er fyrir hendi, eins og þar er nú orðið. Þar eru samstilltir kraftarnir á menntunar-, heilbrigðis- og félagslega sviðinu, svo sem best verður á kosið. Í Danmörku er sérstök yfirstjórn á vegum félmrn. danska, en það er mjög til fyrirmyndar því að skipulagið er gott. Landinu er skipt í 12 svæði, þar sem á hverju svæði er séð fyrir dagheimilum, skólum, barna- og unglingaheimilum, vinnustöðum, aðallega vernduðum, og stofnunum meira í ætt við sjúkrahús fyrir þá sem bágast eru staddir, þ. e. eru á örvitastigi eða eiga við sjúkleika að stríða ásamt andlegri fötlun sinni. Öll starfsemin beinist að því að gera þetta fólk sem allra flest fært um að lifa sem sjálfstæðustu lífi, starfa og búa í eðlilegu umhverfi þegar mögulegt er, þó að vel sé með því fylgst. Þess má t. d. geta að skólaskyldan sjálf er þar 14 ár fyrir þetta fólk. En þó vekur hitt meiri athygli, að skipulagið er hið sama og hjá heilbrigðum, þ. e. leikskóli, forskóli, skyldunám og atvinnuþjálfun eða beinn skipulagður undirbúningur undir ákveðið starf sem best þykir við hæfi. Svipaða sögu má segja frá Svíþjóð. Í Noregi er einnig unnið á sama hátt í anda nýrra viðhorfa sem óneitanlega hafa ekki náð hér eins mikilli fótfestu í starfi og æskilegt væri, þó að myndarlegur vísir sé hér á Reykjavíkursvæðinu sem gjörbreytt hefur aðstöðu og lífi fjölmargra vangefinna.

Áhugastarfið hér á landi hefur verið mikið og margir lagt þar á sig mikið erfiði, og mjög hefur fjölgað á síðari árum vel hæfu starfsliði bæði á sviði menntunar og verklegrar þjálfunar. En áhugastarfið hefur verið miklu ríkari þáttur hér en á hinum Norðurlöndunum — en nær væri að segja að forganga ríkisvalds hefði verið minni hér en á Norðurlöndunum. Á það jafnt við um löggjöf, skipulag og fjárhagslegan stuðning, þó að þar hafi ýmislegt verið vel gert. Gleggst dæmi hér um er vitanlega það, að heildarlöggjöf sú, sem þessi till. fjallar um, er ekki til, heldur aðeins úrelt og gömul löggjöf um fávitastofnanir án nokkurra skýrra markmiða eða framtíðaráforma, enda fyrst og fremst miðuð við eitt hæll, Kópavogshæli, og í samræmi við þau sjónarmið sem þá voru allsráðandi, að öllum vangefnum skyldi safnað á einn stað, og bera of mikinn keim af innilokun á hæli, útilokun frá þjóðfélaginu. Hér var þó á sínum tíma um ótvíræða bót að ræða eftir vanrækslu á málefnum þessa fólks — algjöra vanrækslu og í raun algjört skilningsleysi á möguleikum þessa fólks til aukins þroska, nýs og betra lífs.

Hugsunarháttur liðinna tíma er sem betur fer horfinn að miklu leyti. Afstaða til hins vangefna hefur gerbreyst, skilningurinn aukist, einkum á því hversu langt er í raun unnt að koma hinum vangefnu á þroskabraut ef nógu skjótt er við brugðið. Því verra er það að hér skuli engin heildarlöggjöf, aðlöguð nútíma viðhorfum, með sveigjanleika fyrir framtíðina, hún skuli ekki vera til að markvisst starf skuli í raun stranda að verulegu leyti á vöntun þessarar löggjafar. Slíkt er okkur ekki sæmandi.

Í grg. er vikið að því, að tveir möguleikar hafa verið fyrir hendi: endurskoðun löngu úreltrar löggjafar og þá umbylting á mörgu eða jafnvel flestu sem þar er á byggt eða ný heildarlöggjöf byggð á því sem best gerist annars staðar, byggð á okkar reynslu einnig og við hæfi okkar sérstöðu um margt, m. a. vegna fámennis og strjálbýlis. Við völdum hiklaust síðari kostinn, og eins og ég hef minnst á er löggjöf Norðurlandanna tiltækust. Löggjöf þessara þjóða þriggja er um margt mjög lík, sömu meginstefnu er fylgt og þá meginstefnu leggjum við til grundvallar einnig hér.

Ég hef áður rakið ástand þessara mála almennt hér á þingi og skal aðeins að því vikið á ný. Kópavogshælið, aðalstofnunin hér, er t d. ekki í dag fær um að veita þá lágmarksþjónustu sem telja verður sjálfsagða. Þar vantar ekki fjármagn fyrst og fremst heldur meira sérmenntað starfslið. Ég nefni sem dæmi, sakir þess hversu sá þáttur er mikilvægur, menntaþáttinn, að ég hygg að þar starfi nú 2 kennarar í stað 8 sem heimild er þó til. Þetta er því alvarlegra þegar þess er gætt, að af nær 200 manns eru um 50 böru yngri en 16 ára á þessu hæli og meginhlutinn á skyldunámsstiginu. Kópavogshælið er lýsandi dæmi um gömul og úrelt viðhorf um hæli fyrir vangefna. Þar eru allt of margir vistmenn, allt of fátt fólk til að sinna vistmönnum, mennta- og heilbrigðisþjónusta því í algjöru lágmarki. Hér er þó um að ræða hinn mótandi aðila um öll málefni vangefinna samkvæmt núgildandi löggjöf. Það skal fram tekið, að það fólk, sem þar starfar og annast forstöðu, leggur sig fram og vill án efa sem best gera. Um það vitna ég af kynnum við þetta fólk. Það er skipulagið sem er rangt. Það er fjöldinn sem veldur erfiðleikum. Það er vanræksla vissra þátta sem afleiðing af ónógu starfsliði og þá sér í lagi vel menntuðu starfsliði.

Okkur er fullljóst að ein höfuðforsendan fyrir árangri af nýrri löggjöf er markvisst skipulag á menntun starfsfólks. Við erum nú að eignast töluverðan hóp sérkennara, þroskaþjálfa og félagsráðgjafa sem ásamt heilsugæsluliði gætu gert miklu meira en nú er gert ef við tækjum öðruvísi á málum. Þar ber hæst þroskun og þjálfun vangefinna í þá átt að gera sem flesta þeirra starfhæfa á einn eða annan hátt, gagnstætt innilokunaraðferð þeirri sem í raun er of ríkur þáttur í núgildandi lögum. Og í þessu skiptir mestu að hver einstakur fái sem fyrst þá umönnun og aðstoð sem nýtist til að verða sem fullgildastur þegn í þjóðfélaginu. Ein yfirstjórn í ákveðnu rn. er frumskilyrði. Samstarfsnefnd væri svo sjálfsögð frá hverjum þessara aðila: menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og félagslegri ráðgjafarþjónustu, sem enn skortir að vísu tilfinnanlega í þessu sem annars staðar. En við flm. teljum rétt að ganga út frá yfirstjórn félmrn., eins og er á hinum Norðurlöndunum. Ábyrgur aðili í stjórnkerfinu er nauðsyn. Eitt meginatriðið, sem á þarf að komast sem fyrst, er ráðgjafar- og greiningarstöð fyrir vangefna, því að hvert glatað ár hins vangefna er dýrt, oft nær óbætanlegt.

Ég held, eftir að hafa kynnt mér nokkuð hina merku löggjöf, sem norðmenn búa við og mjög er miðuð við sérþarfir strjálbýlisins, að þar af mættum við mikið læra. Í hverju fylki er þar skipulögð þjónusta þar sem fólki eru kynntir allir möguleikar sem fyrir hendi eru, þar sem aðstandendur hins vangefna geta fengið allar þær upplýsingar sem þeim geta að gagni komið, og alla aðstoð, sem unnt er í té að láta. Í hverjum landsfjórðungi þyrfti hér að koma á fót slíkri þjónustu, en hún gæti spannað yfir víðara svið og náð til fleiri aðila sem hjálpar og leiðbeiningar eru þurfi.

Reykjavík er nú komin nokkuð á veg, og alveg sérstaklega eru sérkennslumálin þar í örri þróun fram á við. En þar segja menn mér að í ýmsu strandi á ófullnægjandi löggjöf til hliðar við þau ákvæði sem nýju grunnskólalögin fela í sér, þ. e. fyrir það fólk sem er á mörkunum að vera seinþroska og vangefið.

Ég skal ekki hafa þessa almennu grg. öllu lengri. Við flm. treystum á framgang þessa máls. Við vitum að í dag eigum við hóp ágæts fólks sem vill takast á við þetta verkefni, sérfróða aðila jafnt og áhugafólk. Allt of margt af þessu fólki hefur tjáð okkur að starfsgrundvöll vantaði um of. Þennan starfsgrundvöll erum við að reyna að leggja með þessari till. Jafnrétti er aðalatriðið. Sá vangefni nýtur ekki jafnréttis í dag. Of mörg vanræksludæmi mætti telja. Könnun Margrétar Margeirsdóttur félagsráðgjafa leiddi það berlega í ljós. Meira að segja í okkar þó um margt fullkomna tryggingakerfi hefur hinn vangefni ekki sama rúm og aðrir öryrkjar. Hann kann ekki heldur og getur ekki sótt rétt sinn sjálfur, og við höfum um of vanrækt skyldur okkar þar sem annars staðar þó að breytingin á hugarfari og skilningi sé geysileg.

Ég vitna í lokaorð grg. okkar, þar sem dregin eru saman veigamestu tildrögin og rökin að þessari till. Þar segir:

„Í heildarlöggjöf sem slíkri þarf margs að gæta. Heilsugæsla vangefinna er t. d. mun þýðingarmeiri og viðameiri en annarra, svo sem auðskilið er. Jafnrétti til fyllsta þroska til starfsmöguleika úti í þjóðfélaginu eða á vernduðum vinnustöðum hlýtur að vera sjálfsagt markmið. Menntunarþáttinn þarf að stórbæta, og eru þegar uppi till. í þeim efnum sem eru ærið verkefni ef framkvæmdar yrðu. Sá þáttur er auðvitað í nánum tengslum við atvinnuþáttinn, þ. e. á hvern hátt megi nýta sem best starfskrafta vangefinna í þágu þeirra sjálfra og þjóðarheildar. Menntunarþátturinn, sem að leiðbeinendum og ráðgjöfum snýr, er skammt á veg kominn enn, en hlýtur þó að teljast frumforsenda þess, að þjálfun og þroska vangefinna verði sem best sinnt. Ráðgjöf til aðstandenda þarf að stóraukast, tryggt þarf að vera að hinir vangefnu njóti fyllsta réttar í tryggingakerfi okkar og þar verði enginn út undan.

Sú heildarlöggjöf, sem till. þessi beinist að, á að vera rúm og af viðsýni gerð. Hún þarf að tryggja rétt hins vangefna, jafnrétti á við aðra þegna, og hún á að beinast að því að koma hverjum og einum sem lengst á þroskabraut — með námi og þjálfun — svo að hinn vangefni megi verða sem hlutgengastur í samfélaginu, eigi þar sína fyllstu möguleika. Án samræmds, skipulegs átaks verður þessu marki seint eða ekki náð. Því er till. þessi flutt.“

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn.