03.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Jónas Árnason:

Herra forseti. Séra Björn á Dvergasteini var karlmenni mikið, stilltur vel jafnaðarlega, en fastur fyrir ef því var að skipta. Hann vildi að menn gerðu greinarmun á kristilegu umburðarlyndi og roluskap. Þessu mætti ekki rugla saman. Kristilegt umburðarlyndi væri dyggð, roluskapur hins vegar ekki.

Eitt sinn kom til hans maður og bar sig upp við hann út af því, að ribbaldi nokkur hafði ráðist á hann. Maðurinn lýsti því, hvernig fanturinn hafði slegið hann í andlitið og hér og þar um skrokkinn, samtals 15 högg. „Hvað mörg högg sagðirðu?“ spurði klerkur. „Fimmtán,“ sagði maðurinn. Og þá varð séra Birni á Dvergasteini að orði: „En sú stilling að standa og telja.“

Ég skal ekkert um það segja hvort séra Björn á Dvergasteini hefði orðið góður forsætisráðherra. En í því stríði, sem við íslendingar höfum átt í nú að undanförnu út af lífsbjörg okkar, þá hef ég — það verð ég að játa, — þá hef ég oft saknað þess að núv. hæstv. forsrh. þessarar þjóðar sýndi þess merki að hann ætti tengsl að rekja til kempunnar á Dvergasteini. Mig grunar að svo framarlega sem séra Björn á Dvergasteini hefur aðstöðu til þess að fylgjast með háttalagi hæstv. forsrh. í þessu stríði, þá mun hann telja að þar hafi heldur betur ruglast saman þeir eiginleikar sem ég var að nefna.

Svo mikið er víst, að sú einurð og festa, sem þjóðin sjálf sýnir í þessu stríði, sbr. margítrekaðar og skýlausar kröfur almennings, fólks úr öllum stjórnmálaflokkum, þess efnis, að hvergi verði hopað fyrir ribbaldahætti breskra stjórnvalda og þeirra sjóræningja sem þau hafa sent á Íslandsmið, — sú einurð og festa er ekki til komin fyrir fordæmi, fyrir eitthvert lýsandi fordæmi æðstu valdamanna, allra síst mesta valdamanns þjóðarinnar, forsætisráðherrans, heldur þvert á móti. Þvert á móti er þessi festa og einurð til komin þrátt fyrir það að forsrh. og hans nánustu samstarfsmenn hafa hagað þannig aðgerðum sínum og málflutningi að svo hefur virst sem þeim væri mest í mun að draga kjark úr þjóðinni, telja henni trú um að hún ætti einskis annars kost en að beygja sig fyrir ofbeldinu. Öllum þessum úrtölum hefur þjóðin hins vegar svarað líkt og Grettir karlinn forðum. „Eigi skal skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fyrirrúminu.“

Er ekki óþarfi að minna menn á það, hve oft hæstv. forsrh. og þeir aðrir í fyrirrúminu hafa beinlínis kveinkað sér undan því hversu fast er róið í skut, jafnvel stundum sent út af þessu kaldar kveðjur aftur í skutinn? Dæmi um slíkt eru mörg, mýmörg, því miður, t. a. m. athugasemdir innan háðsmerkja um „svonefnt almenningsálit“, þegar úr öllum áttum drífur að harðorð mótmæli frá samtökum alþýðunnar gegn undanslætti. Einna mest held ég lágkúran hafi orðið í víðbrögðum þeirra fyrirrúmsmanna þegar suðurnesjamenn og þ. á m. ýmsir þekktir flokksmenn núv. hæstv. forsrh., þegar þeir fylgdu eftir kröfum sínum í þessu efni og lýstu jafnframt óbeit sinni á þeirri hræsni og tvískinnungi, sem svonefndar vinaþjóðir okkar í NATO hafa sýnt í sambandi við þetta mál, með því að loka samgönguleiðum að herstöðinni á Miðnesheiði. Hæstv. forsrh. kom þá fram í sjónvarpi og leyfði sér að saka þá suðurnesjamenn um þjóðhættulegt athæfi! Þeir væru með þessu að magna upp einhver „einræðisöfl“ og stofna þannig í hættu sjálfu lýðræðinu! Mátti reyndar varla á milli sjá hvort þyngra vó í þessum viðbrögðum,takmarkalaus virðingin fyrir þeirri heilögu kú, sem heitir NATO, eða einfeldni í hugsun.

Þá er það staðan í málinu — landhelgismálinu — eftir skýrslu hæstv. forsrh.

Enn vilja þeir í fyrirrúminu fara að gera ofríkismönnunum tilboð. Hæstv. utanrrh. orðaði þetta áðan eitthvað á þessa leið: Við viljum sýna að við viljum tala við alla þá sem vilja við okkur tala. — Tala um hvað? Erum við ekki allir sammála um það, að það sé enginn þorskur til skiptanna? Til hvers ætti þá að gera bretum þetta tilboð upp á þrjá mánuði? Hverjar gætu orðið afleiðingar þess? Minn grunur er sá að með þessu mundi hefjast nýtt þóf, frekari svonefndar „athuganir“ og á meðan fengju bretar næði til þess að stunda ránskap sinn á miðum okkar, kannske alveg til vors, þegar þeir væru sloppnir út úr íslensku vetrarveðrunum.

Að sjálfsögðu eigum við aðeins einn kost: láta þessu lokið, láta lokið þessu þófi, tilkynna að við ræðum ekki frekar við breta, og búum okkur til aðgerða, búum okkur til átaka. Sumir hafa reynt að gera lítið úr gildi þess að við eflum landhelgisgæslu okkar með því t. d. að bæta í hana einhverjum af stóru, nýju skuttogurunum sem hafa allt upp í 17 mílna gang, svona álíka og bresku dráttarbátarnir. „Þetta gagnar ekkert,“ segja úrtölumenn. „Móti hverju slíku skipi munu bretar bara senda nýja freigátu.“

Kannske er þetta það fáránlegasta af öllu því fáránlegu sem maður heyrir í röksemdum úrtölumanna. Eða dettur nokkrum manni í hug að breskum stjórnvöldum muni haldast það uppi gagnvart breskum skattgreiðendum, að maður ekki tali um almenningsálitið í heiminum, mannorð breta, — að þeim mundi haldast það uppi að senda hingað upp á Íslandsmið kannske 4 eða 5 freigátur til viðbótar þeim sem þeir hafa haft hér í vetur til verndar veiðiþjófum sínum og til viðbótar dráttarbátunum 4 eða 5, sem eru reyndar í eigu sömu manna og eitt af bresku togarafélögunum, þannig að breskir skattgreiðendur verða að reiða fram of fjár beint ofan í vasa þessara manna fyrir það að þeir halda úti sínum eigin skipum, til þess að vernda veiðiþjófnað sinna eigin skipa? Þegar svo væri komið, ætli geti þá ekki skeð að breskum skattgreiðendum þætti nóg um, að ég ekki tali um almenningsálitið í heiminum, mannorð breta? Ætli gæti ekki skeð að breskum almenningi færi þá að blöskra verðið á hverjum þorski sem veiddur væri við þessar aðstæður, — blöskra þetta svo mjög að breskum stjórnvöldum héldist þetta ekki uppi lengur? Raunar telja kunnugir að hið gamla flotaveldi Jóns Bola sé nú þannig á sig komið að það sé af og frá að Jón Boli sé þess megnugur að auka hið allra minnsta freigátuútgerð sína á Íslandsmiðum. Ég vil skjóta því inn í svona til gamans, að nú fyrir nokkru komu opinberlega fram áhyggjur út af því á Bretlandi að freigátuútgerðin, eins og hún hefur verið stunduð hér á Íslandsmiðum í vetur, kynni að valda því að ekki væru tiltækar freigátur til þess að fylgja Elísabetu drottningu þegar hún fer í opinbera heimsókn vestur til Kanada nú alveg á næstunni og þar með væri stefnt í hættu heiðri og sóma bresku krúnunnar.

Bretar tala að vísu digurbarkalega um það, hvað þeir muni drepa mikinn þorsk fyrir okkur ef við göngum ekki að kröfu þeirra, og því miður hafa þessar hótanir fengið stuðning í röðum okkar íslendinga sjálfra, sbr. ræður beggja ráðh. hér áðan.

Ég vil hér gera athugasemd út af því, sem hæstv. utanrrh. sagði um þann háska sem fylgir átökunum á miðunum okkar. Vissulega væri hörmulegt ef til slysa leiddi, en ábyrgðina á þeim slysum mundu auðvitað engir aðrir bera en þeir sem hafa stofnað til þessara átaka, bresk stjórnvöld, breska útgerðarauðvaldið.

Nei, ef við tökum ærlega til hendinni varðandi landhelgisgæsluna og bætum í hana skipum, eins og ég var að tala um, ætli það gæti þá ekki skeð að bretar fengju sig fullsadda af brambolti sínu hér á þessum veðrasömu miðum okkar? Ég er ekki í neinum vafa um þetta. Ég er ekki í neinum vafa um það, að við getum takmarkað svo afla þeirra og gert þeim yfirleitt svo erfitt fyrir eða, m. ö. o. við getum háð svo magnað taugastríð gegn þeim með aðstoð vetrarveðráttunar hér, að jafnvel þó að þeir gæfust ekki upp núna í vetur, þá mundi veitast mjög erfitt ef ekki ómögulegt að fá breska togaramenn til þess að leggja út í veiðiskap á Íslandsmiðum enn einn vetur til viðbótar. Ég tel að við getum séð til þess að þetta verði síðasti veturinn sem ráðsmenn breska togaraauðvaldsins angra okkur íslendinga með nærveru sinni.

Þetta skilur þjóðin, hygg ég. Þetta skilja þeir sem í skutnum róa. Það sýna allar ályktanirnar og aðrar aðgerðir, sem samtök alþýðu hafa beitt sér fyrir. Spurningin er bara, hvernig róið verður í fyrirrúminu. Eitt er alveg víst, að ef þar verður róið jafnslælega og nú að undanförnu, þá mun enn magnast sú krafa þjóðarinnar, sem þegar er orðin ærið áberandi, að þar setjist nýir menn undir árar.

Ég vitnaði í upphafi ræðu minnar í klerkinn á Dvergasteini. Forsrh. okkar hefur sí og æ í þessu stríði og nú síðast í ræðu sinni áðan verið að flytja þjóðinni þann boðskap, að í þessu stríði sé óráðlegt að beita þeim vopnum sem líklegust væru til þess að knýja andstæðinga okkar til undanhalds. Ekki sýna taugaveiklun, sagði ráðh. Það, sem hann meinar, er þetta. Ekki raska ró þess herveldis sem hér hefur fengið ítök undir því yfirskini að það sé að vernda okkur íslendinga gegn ofríki. Ekki ónáða NATO-liðið á Miðnesheiði þó að NATO-herskip riðlist fram og aftur um fiskimið okkar til verndar þeim sem eru að ræna frá okkur lífsbjörginni. Ekki svo mikið sem láta í það skína að við kunnum að segja skilið við þetta hernaðarbandalag sem lætur þá ósvinnu viðgangast að tveir af voldugustu aðilum þess höggva hvað eftir annað að rótum sjálfrar tilveru þeirrar þjóðar sem byggir þetta hrjóstruga land. Ekki einu sinni slíta stjórnmálasambandi við þau stjórnvöld sem belgja sig upp af freigátuhroka þegar við snúumst til varnar lífshagsmunum okkar, sjálfri undirstöðu þjóðartilveru okkar, — halda við þau „eðlilegu sambandi“, eins og það er kallað, — umfram allt halda við þau „eðlilegu sambandi“, jafnvel eftir að þessi stjórnvöld hafa í raun og veru lýst því yfir að þau séu staðráðin í því að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að ránsmönnum breska togaraauðvaldsins megi takast að gera út af við þorskstofninn okkar, svo framarlega sem við glúpnum ekki fyrir hótunum.

Sýna stillingu, segir hæstv. forsrh. Við verðum umfram allt að sýna stillingu. — Mér er sem ég heyri hann séra Björn á Dvergasteini segja: „En sú stilling að standa og telja.“