04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds beindi til mín fsp. sem sjálfsagt er að svara.

Ég álít að fsp. sé byggð á röngum forsendum. Því var lýst yfir, áður en forsrh. fór í þessa för, að þar væri aðeins um könnunarviðræður að ræða. Þar af leiðir að ekki hafa getað verið sett fram nein tilboð í þessum viðræðum, og það álit ég skýrsluna bera fullkomlega með sér. Það gefur auga leið, að þegar um könnunarviðræður er að tefla, þá tala menn vítt og breitt og nefna sitt hvað án þess að þar sé um nokkrar skuldbindingar að ræða. Ég vil láta það koma fram, að ég álít að hæstv. forsrh. hafi algjörlega staðið við og fylgt því umboði, eða það er kannske réttara að segja umboðsleysi sem hann hafði í þessum viðræðum, þ. e. a. s. að hann hafi komið heim án þess að semja um eitt eða neitt eða gera tilboð í eina eða aðra átt. Þetta held ég að hv. þm. hljóti að sjá við athugun.

Fyrst ég er staðinn hér upp, eins og menn segja nú gjarnan, þá er e. t. v. rétt að ég bæti tveimur eða þremur athugasemdum við.

Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í máli tveggja hv. þm. hér í gær, að það hafi ekki verið haldið uppi löggæslu á fiskimiðunum, eða eins og þeir orðuðu það, að það væri ríkjandi hér eins konar vopnahlé. Sannleikurinn var sá, að haft var það form á að togararnir voru ekki áreittir einn dag eða réttara sagt ekki höfð afskipti af þeim. Það var á laugardaginn, fyrsta viðræðudaginn í London. Á þeirri ákvörðun ber ég ábyrgð. Ég taldi eðlilegt að forsrh. væri gefið tóm til þess að hefja þessar viðræður án þess að átök ættu sér stað á miðunum fyrsta daginn og honum gæfist m. a. tóm til að setja fram þá kröfu okkar íslendinga að togararnir hlýddu fyrirskipunum varðskipa. Síðan hefur verið haldið uppi löggæslu á miðunum með venjulegum og eðlilegum hætti. Það var tekið fram í svarbréfi hæstv. forsrh. til forsrh. breta, að íslendingar mundu að sjálfsögðu halda uppi lögsögu á miðunum. Ég tel að þessi lögsaga og aðgerðir landhelgisgæslunnar hafi borið árangur þennan tíma. Þegar viðræðurnar hófust munu hafa verið hér 45 eða 46 togarar. Þeir eru nú komnir niður í u. þ. b. 30. Þeir hafa yfirleitt hlýtt fyrirmælum varðskipanna um að taka veið'arfæri upp úr sjó. Þeir stunduðu alls engar veiðar eða réttara sagt settu ekki veiðarfæri í sjó tvo og hálfan eða þrjá sólarhringa. Og þegar þeir í undantekningartilfellum hafa ekki hlýtt, þá hefur klippunum verið beitt. Það hefur verið klippt a. m. k. tvisvar á þessu tímabili og gerðar einhverjar fleiri tilraunir. Ég tel þetta eðlilega löggæslu á þessu tímabili, að það hafi verið farið að með þeim hætti að fyrst hafi verið skorað á togarana að hlýða fyrirmælum um að taka inn vörpurnar. Það er sams konar aðferð og fylgt var um langt skeið gagnvart þjóðverjum.

Ég tel að á þessu tímabili hafi verið komið mjög í veg fyrir veiðar breskra skipa innan okkar landhelgi, enda sést að þeir eru ekki ánægðir með þann hlut sem þeir hafa fengið. Þannig verður auðvitað að halda á málum. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það hafi átt að felast í ummælum þessara hv. þm. nein ásökun til skipherra varðskipanna um að þeir drægju af sér við þessa gæslu. Þessar ásakanir, ef ásakanir skal kalla, — ég vil leyfa mér að kalla þær bara misskilning og vona að þeir átti sig á því að þarna er um misskilning að ræða hjá þeim, — þær ættu þá rætur að rekja til yfirstjórnar landhelgisgæslunnar. Ég vil algjörlega vísa því á bug. (Gripið fram í.) Ætli þeir heyri ekki sem þurfa að heyra. — Skipherrum og skipshöfnum varðskipanna hefur oft verið þakkað og það að verðskulduðu. En hitt ætti ekki heldur að gleymast, að þeir, sem í landi eru, forstjóri Landhelgisgæslunnar og þeir sem vinna á stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, þeir vinna æðimikil störf þó að það hafi ekki þótt ástæða til að þakka þeim. Ég hygg t. d. að það megi segja að forstjóri Landhelgisgæslunnar taki sér í raun og veru engan frídag. Hann er jafnt helga daga sem aðra þarna viðstaddur. Fyrirmæli mín, sem ég hef gefið landhelgisgæslunni, eru auðvitað almenns eðlis. Ég hef áður tekið fram hver þau eru og þau liggja á borðinu. Það hefur því ekki verið um svonefnt vopnahlé að ræða á fiskimiðunum þennan tíma.

Ég vil þá gera aðra athugasemd, og hún varðar svar það sem bretum hefur verið sent. Um fyrri hlutann þarf ekki að ræða. Í honum felst synjun á samkomulagi á grundvelli þeirra hugmynda sem forsrh. breta setti fram. Um það er allur þingheimur sammála. Um niðurlagið aftur á móti vil ég segja það, að eðlilegt er að lesa það og skilja eftir orðanna hljóðan og leggja ekki meira inn í það en þar stendur. En þar stendur, með leyfi forseta: „en er reiðubúin til að taka upp viðræður um samkomulag til skamms tíma.“ Það kann að vera álitamál hvort hér eigi að tala um tilboð eða ekki tilboð, og það fer eftir málvenju manna. Ég mundi síður orða þetta sem tilboð, heldur er þetta yfirlýsing um að íslenska ríkisstj. sé reiðubúin til viðræðna þegar bretar óski þeirra. Það er auðvitað algjört aukaatriði, hver á eða talið er að eigi frumkvæðið að slíkum viðræðum, en þannig er þetta. Þarna er aðeins um að ræða viðræður. Getur nokkur í alvöru verið á móti því að viðræður eigi sér stað? Það kemur svo fram í þeim viðræðum, hvort nokkur grundvöllur er finnanlegur fyrir slíku skammtímafyrirkomulagi eins og þarna er nefnt. Það er að sjálfsögðu algjörlega óeðlilegt á þessu stigi að fara að nefna eða binda sig við einstök atriði í því sambandi. Hvort slíkur grundvöllur sé fyrir hendi eða ekki sést fyrst þegar viðræðurnar hafa farið fram, og verður að líta á heildarmyndina, sem fram kemur úr þeim viðræðum, þegar slíkt er metið.

Það er þó rétt að tala af fullri hreinskilni við breta að einu leyti áður en stofnað er til viðræðna, að gefnu tilefni frá utanrrh. breta, þar sem hann virðist setja fram þá barnalegu hugmynd að viðræðurnar séu því skilyrði háðar af þeirra hálfu að togarar megi veiða hér, á meðan á þeim standi, án nokkurra afskipta íslenskra varðskipa. Ef þetta er rétt, sem ég á bágt með að trúa að utanrrh. breta hafi látið svona frá sér fara, þá er það í meira lagi barnaleg hugmynd. Ef viðræður þessar stæðu dálítinn tíma og þeir hefðu alveg frjálsar hendur um það hve marga togara þeir sendu hingað þá gætu þeir náð upp æðimiklum afla á fáeinum dögum ef ekkert mætti eiga við þá. Það dettur auðvitað engum í hug að gengið sé að nokkru viðræðuborði með svona skilyrði.

Ég vona að þetta sé ekki réttur skilningur á ummælum utanrrh. breta og hann átti sig á þessu. Ef hann hefur látið slík ummæli falla þá verð ég að leyfa mér að segja, að það er ekki skynsamlegur undirbúningur undir viðræður.

Að sjálfsögðu verður að halda uppi löggæslu. það er ekki með réttu hægt að tala um neitt vopnahlé, meðan á viðræðum stendur, nema með því einu móti að togararnir sigli út fyrir 200 mílna mörkin eða setji ekki veiðarfæri í sjó á meðan. Þá leiðir það af sjálfu sér að varðskipin hafa engin afskipti af þeim. Það er vopnahlé, en annað ekkí. En við höfum ekki gert að skilyrði, að togararnir færu út fyrir eða hegðuðu sér á þann veg sem ég sagði, og þar af leiðir að bretar geta auðvitað ekki með neinni sanngirni sett fram þá kröfu að varðskipin láti ekkert til sín taka, á meðan slíkar viðræður standa yfir. Þetta verða bretar að gera sér ljóst. Og þeir verða að gera sér ljóst að það er ekki heppilegur málatilbúnaður eða líklegt til árangurs í viðræðum að viðhafa slík ögrunarorð.

Ég skal ekki á þessu stigi gera því skóna að bresk herskip komi inn fyrir mörkin. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það frekar en aðrir og allra síst ef þær yfirlýsingar eru marktækar, að herskipin séu komin undir, að manni skilst, einhvers konar sjálfvirka stjórn. Það er sagt að þau bara af sjálfu sér sigli inn ef eitthvað gerist. Það er kannske nokkuð djarft að viðhafa þau orð, að mér finnst þetta ekki skynsamlega mælt heldur af utanrrh. breta sem sjálfsagt er þó mjög hæfur maður. Ég held að það sé heppilegast að bæði við og bretar berjumst sem minnst í orði ef og meðan slíkar viðræður fara fram.

Eitt vil ég leggja áherslu á í þessum viðæðum og hugsanlegu skammtímasamkomulagi, ef til kemur. Það er þetta, að það má aldrei vera byggt á því sjónarmiði að bretar eigi hér einhvern rétt, að við séum að semja við þá af þeim ástæðum að þeir eigi hér einhvern rétt. Auðvitað getum við ekki komið í veg fyrir að þeir telji sig eiga rétt — og þeir um það. En við eigum aldrei að láta það koma fram í okkar samkomulagi, að við föllumst á það sjónarmið. Það er t. d. í síðasta samkomulagi skýrt tekið fram að hvor aðili um sig haldi fast við sín lagasjónarmið. Við töldum að við ættum réttinn, en bretar afsöluðu sér ekki heldur neinum rétti sem þeir töldu sig eiga. Það má að mínu viti aldrei viðurkenna það sjónarmið, að það sé samið við þá eða þeim veittar einhverjar tímabundnar veiðiheimildir á þeim grundvelli að þeir eigi til þess einhvern rétt, heldur göngum við til slíks samkomulags, ef til kæmi, af þeim ástæðum að við teljum það þjóna best okkar hagsmunum og okkar markmiðum.