04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér að víkja nokkuð að því sem fram hefur komið í þessum umr. Ég vil þá fyrst byrja á ræðu þeirri sem hæstv. dómsmrh. flutti hér nýlega. Mér þótti ræða hans um margt mjög athyglisverð, og ég vil strax segja: um marga hluti var þar um góða ræðu að gera. Ég var ánægður með ýmsar yfirlýsingar hans.

Hæstv. dómsmrh. vék í þessum efnum sérstaklega að samþykkt ríkisstj., þeirri sem hún hefur sent ríkisstj. Bretlands. Hann sagði að enginn ágreiningur gæti verið um fyrri hluta þessarar samþykktar, þar sem samningsgrundvelli þeim, sem bretar höfðu lagt til, var hafnað, og þetta er rétt. Síðari hluti orðsendingar íslensku ríkisstj. var hins vegar um að bjóða bretum til viðræðna um skammtímasamning. Varðandi þetta atriði sagði hæstv. dómsmrh., að að sjálfsögðu yrði haldið uppi fullkominni löggæslu á fiskimiðunum á meðan þessar viðræður færu fram. Um þetta hafði ég einmitt spurt áður og ekki fengið svar. Og hann undirstrikaði það, hvað hann ætti við með þessu, með því að segja að vopnahlé á miðunum, eins og það hefur verið nefnt í blöðum að undanförnu og fréttum fjölmiðla æ ofan í æ, það gæti ekki verið annað en það, að bresku togararnir færu út fyrir 200 mílna mörkin af miðunum eða settu ekki veiðarfæri sín í sjó. Þetta voru mjög skýr ummæli sem ber vitanlega að undirstrika. Æðsti maður landhelgisgæslunnar hefur lýst þessu yfir. Og hann undirstrikaði þessa afstöðu sína enn betur í sínu máli með því að víkja að þeim skilyrðum, sem bretar hafa sett fram varðandi þessar hugsanlegu viðræður eða væntanlegu víðræður. Það hefur komið fram af hálfu breskra ráðh., að þeir setji það sem skilyrði fyrir þessum víðræðum að togarar þeirra yrðu ekki áreittir á miðunum á meðan þessar viðræður færu fram. Hæstv. dómsmrh. taldi yfirlýsingar breskra ráðh. af þessu tagi fráleitar og víðs fjarri því að hægt væri að taka þær til greina og talaði beinlínis um þetta sem ögrunarorð í okkar garð. Hann notaði einmitt orðið ögrunarorð.

Ég hafði einmitt, um leið og ég heyrði um þessa fyrirætlun ríkisstj., að gera bretum tilboð um viðræður um skammtímasamning, þá hafði ég vikið að því að þetta vandamál hlyti að koma upp, hvað ætti að gerast á fiskimiðunum ef bretar samþ. að taka upp viðræður, því að vitanlega hlytu þessar viðræður að taka nokkurn tíma. Þeir þyrftu að komast að því, hvað íslenska ríkisstj. væri að fara í málinu, hvað hún ætlaði að bjóða, hvað hún gæti hugsað sér um efni skammtímasamnings, og allt hlyti þetta að taka talsverðan tíma. Og þá kom upp spurningin, hvað ætti að gerast á miðunum. Áttu bresku togararnir að halda áfram að veiða, átti að láta af því að halda uppi fullkominni löggæslu af okkar hálfu eða hvað höfðu menn yfirleitt hugsað sér? Nú sýnist mér að hæstv. dómsmrh. hafi tekið af öll tvímæli í þessum efnum. Ég gat ekki skilið hans mál á annan veg en þann, að hann vildi að þessi þáttur málsins lægi skýr fyrir strax í byrjun gagnvart bretum, að það ætti ekki að vera neinn misskilningur gagnvart þeim varðandi þetta atriði málsins. Og þetta ber vitanlega að segja. Þetta á að segja bretum hreinlega áður en þessar viðræður hefjast. Af okkar hálfu er till. sett fram af okkar ríkisstj. um þessar viðræður á þeim grundvelli að bresku togararnir verði að stöðva sínar veiðar á meðan þessar viðræður eiga sér stað. Það verður svo auðvitað að koma í ljós, hvort bretar geti fallist á viðræður um skammtímasamning á þessum grundvelli.

Það er eitt af því, sem ég hef mjög fundið að í sambandi við framkvæmd okkar í landhelgismálinu, það er allt það óákveðna sem komið hefur frá ríkisstj., það tvíræða. Hún talar um að taka upp viðræður, og þegar hún er nánar spurð að því, já, undir trúnaðareið, hvað hún ætli að ræða um, hvað hún geti hugsað sér að bjóða, um hvað eigi að ræða, þá er ekki nokkur leið að fá upp neinar upplýsingar um það. En samt á að taka upp viðræður. Þetta eru vitanlega engin eðlileg vinnubrögð. Að þessu hefur verið fundið. Við eigum að marka okkar stefnu og við eigum að láta hana koma fram og við eigum ekki að láta þann, sem við tölum við, misskilja okkur á neinn hátt. Það á ekki að endurtaka sig, það sem gerðist með dr. Luns, að hann kom hingað, talaði við íslenska ráðh., þeir töluðu sitt mál við hann, hann fór svo til London og sagði allt annað en það sem þeir segjast hafa sagt honum.

Ég held að það sé best fyrir alla aðila í þessu máli að tala alveg skýrt út og segja hvað þeir meina. Nú tel ég að hæstv. dómsmrh. hafi talað hreint út varðandi þetta mikilvæga atriði málsins, og ég vil undirstrika það. Við skulum ætla að a. m. k. fréttamiðlar heimsins, sem á hlýða, komi þessu þá til réttra aðila, ef okkar stjórnvöld geta ekki komið því eftir sínum boðleiðum, þannig að það fari ekkert á milli mála að bretar fái að vita um það á hvaða grundvelli þessar viðræður eru teknar upp af okkar hálfu. Það er best fyrir alla aðila að málin liggi þannig fyrir. Ég er sem sagt þakklátur hæstv. dómsmrh. fyrir það sem hann sagði í þessum efnum. Það tel ég mjög mikilvægt.

Þetta, sem hæstv. dómsmrh. sagði, var í nokkrum tengslum við það, að honum fannst að hér hefði í umr. í gærdag verið nokkuð ofsagt, líklega bæði af minni hálfu og fleiri aðila, um svonefnt vopnahlé á fiskimiðunum sem verið hafi undanfarna daga. Ég notaði þetta orð, „vopnahlé“, og sagði að líklega hefði það verið þannig að suma dagana hafi bresku togararnir veitt á miðunum meira eða minna, aðra daga ekkí. Þetta, sem ég sagði, er í fullu samræmi við þær fréttir sem birst hafa í blöðum og hafðar hafa verið eftir fréttamönnum sem voru um borð í okkar varðskipum á þessu tímabili, lýsingar í fréttamiðlum á því hvað hefur verið að gerast í meginatriðum hefur verið sagt frá því, að okkar varðskip hafi fylgt bresku togurunum eftir, skipað þeim að hífa upp veiðarfæri sín þegar þau hafa komið að þeim. Ekki hafa þeir verið að hífa upp veiðarfæri sín nema af því að veiðarfærin hafa verið í sjó og þeir hafa verið að veiða. Það er enginn vafi á því, að við höfum ekki beitt okkar fyllsta þunga í sambandi við gæsluna á miðunum. En ég skal ekkert um það segja, enda tel ég það ekkert höfuðatriði í þessu máli, hvort við höfum komið að fullu og öllu í veg fyrir veiðar breskra togara á þessu tímabili eða ekki. Ég held að hafi dregið mjög verulega úr veiðimöguleikum þeirra með aðgerðum okkar varðskipa, þó að aðeins tvisvar sinnum hafi veiðarfæri verið klippt frá skipum. En þetta tel ég ekkert höfuðatriði. Ég nefndi þetta eingöngu vegna þess, að þannig hygg ég að allir landsmenn hafi skilið þær fréttir sem birst hafa um ástandið á miðunum að undanförnu. En eins og ég sagði, þá er það ekkert höfuðatriði í þessu máli. Hitt er miklu þýðingarmeira, að hafa jafnskýrt og greinilega fyrir sér þá yfirlýsingu sem hæstv. dómsmrh. hefur gefið hér um fyrirætlanir hans um það hvernig verði staðið að því að verja okkar fiskimið á næstunni, á meðan þessar fyrirhuguðu viðræður geta átt sér stað.

Ég ætla svo að víkja nokkrum orðum að því sem fram kom hjá hæstv. forsrh. í hans máli bæði í gær og eins í dag.

Fyrst vil ég segja það um orð hæstv. forsrh. varðandi þá trúnaðarskýrslu, sem lögð var fram á sameiginlegum fundi landhelgisnefndar og utanrmn., að ég tel með öllu fráleitt að tala um að sú fundargerð, sem þar er til frásagnar af því, hvað gerðist á fundunum í London, sé eitthvert trúnaðarmál lengur. Hér hafa farið fram opinberar umr. um það, hvað gerðist í London, og auðvitað á sú skriflega frásögn um það, hvað þar gerðist, að vera í samræmi við það sem sagt hefur verið hér opinberlega. Þar getur því ekki verið lengur um neinn trúnað að ræða. Slíkt er auðvitað algjör útúrsnúningur. Ég vil einnig benda á það, að fundargerðir af þessu tagi, merktar trúnaðarmál, hafa hvað eftir annað verið lesnar hér upp án sérstaks leyfis þegar nokkur tími hefur liðið frá. Það er aðeins um það sama að ræða hér að þessu sinni.

Ég tel ekki út af fyrir sig þörf á því að ræða hér í ítarlegu máli vissar frásagnir sem koma fram í þessari skriflegu skýrslu og fara ekki að öllu leyti nákvæmlega saman við það sem fram kom í skýrslu hæstv. forsrh. á þingfundi í gær. Það er allt minni háttar. í skýrslunni stóð t. d. orðrétt það sem ég sagði í minni ræðu, að bretar hefðu farið fram á 30% af þorskaflanum, og tilgreint er orðrétt í skýrslunni um þessi 30%, sem þeir krefjast, bæði er talan 30% nefnd og til frekari undirstrikunar sagt: eða 69 þús. tonn sé um að ræða heildarafla sem nemi 230 þús. tonna. Svo kemur hæstv. forsrh. hér og segir frá þessu á örlítið annan veg en segir í þessari skrifuðu skýrslu og nefnir 28% og 65 þús. tonn af þorski. Eflaust er þetta rétt hjá hæstv. forsrh. líka. Þetta hefur komið fram í frásögn hans, en í skýrslunni stendur hitt skrifað og er jafnrétt, nema það hafi verið sagt eitthvað rangt frá í hinni skrifuðu skýrslu. Ég vil aðeins undirstrika þetta, af því að ég hef bæði sagt þetta hér á Alþ. og víðar. Þessi tala er tekin upp úr skýrslunni og væri auðvelt að láta mynda hana fyrir hvern sem er ef nokkur efast um að rétt sé frá skýrt. Þetta er heldur ekkert aðalatriði. Ég tel hvort tveggja í rauninni rétt. Vissulega hafa bretar sett fram þessa kröfu um 30% af þorskaflanum og tilgreint hana eins og sagt er í hinni skrifuðu skýrslu, þó að þeir geti vitanlega hugsað sér að segja svo aftur í viðræðum: Ja, þessi 69 þús. tonn, ef við segjum það að þau verði 65. — Þetta er ekki til þess að gera neitt úr, en ég vildi þó segja þetta til þess að taka af öll tvímæli í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. sagði í svarræðu sinni í gær, að hann teldi að 7–11 dagar, sem nefndir voru af mér varðandi þann tíma sem óvissa hefði ríkt hér á miðunum og málinu hefði verið haldið sem trúnaðarmáli gagnvart þjóðinni þannig að þjóðin fengi ekki að vita um það hvað fram hefði komið á fundunum í London, þetta væri ekki langur tími og væri því ástæðulaust að eyða mörgum orðum að því. Ég tel fyrir mitt leyti enn eins og áður að það hafi verið óviðeigandi og engin þörf hafi verið á því að bíða í fulla 7 sólarhringa með að skýra opinberlega frá megininntaki viðræðnanna í London. Og ég trúi því ekki, að það hafi ekki verið auðsótt mál af okkar hálfu að fá samþykki breta fyrir því, að hægt væri að skýra frá meginatriðum málsins. En þessi dráttur að þessu sinni er svipaður því sem hefur gerst áður í málinu og hvað eftir annað, það er þessi mikla tilhneiging til þess að halda öllu leyndu og ganga frá öllum hnútum, ganga frá öllum samþykktum áður en almenningur í landinu fær að átta sig á því um hvað er að ræða.

Í svarræðu sinni í gær lét hæstv. forsrh. ýmis orð falla um það, sem er ekki nýtt af hans hálfu, að það gæti verið betra að ná samningum en að búa við samningsleysi. Hann kom hér með ýmsa útreikninga um það, hvernig gæti farið í sambandi við fiskveiðarnar hér á Íslandsmiðum ef ekki yrði samið. Hann nefndi það, að álit fiskifræðinga væri að þó að ekki yrði dregið neitt úr sókninni frá því sem verið hefur, ef hún yrði í hámarki, þá mætti búast við því að heildarþorskaflinn gæti ekki orðið á þessu ári meira en 330 þús. tonn. Síðan reiknaði hæstv. forsrh. með því, að af þessum heildarafla létum við til ýmissa annarra þjóða en breta um 20 þús. tonn, þá væru eftir 310 þús. tonn, svo gætu bretar sennilega tekið um 100 þús. tonn af þorski í óleyfi og þá væru aðeins eftir 210 þús. tonn, og sagði að þetta væri forkastanleg leið vegna þess að slík sókn í stofninn leiddi til hruns. Við þennan útreikning bætti síðan hæstv. forsrh. því, að það mætti hugsa sér þetta á annan veg, að við settum mörkin við það að ekki yrði tekinn meiri þorskafli á þessu ári en sem næmi 280 þús. tonnum, samkomulag yrði við ýmsa erlenda aðila um að þeir fengju 20 þús. tonn, þá væru eftir 260 þús. tonn, bretarnir tækju í óleyfi 100 þús. tonn og þá væru eftir 160 þús. tonn, og væri óaðgengilegt fyrir okkur að búa við slíkan niðurskurð. Hæstv. forsrh. tók að vísu fram að hann vildi ekki gera tölur breta eða útreikninga þeirra að sínum. En eigi að síður hefur hann alltaf í frammi þessa útreikninga, sem eru útreikningar breta og eru í rauninni hótunartölur frá þeirra hálfu.

Það er rétt, að enginn okkar getur sagt um það með fullri vissu hvað bretar geta veitt mikið hér á miðunum í óleyfi undir herskipavernd. Enginn okkar getur sagt um það. Við vitum aðeins þetta, að þeir veiddu í kringum 100 þús. tonn af þorski á s. l. ári, rétt í kringum 100 þús. tonn af þorski, með því að hafa fullkomið frelsi á miðunum og samning allan tímann og þurftu ekki að verja sig fyrir einni eða neinni áreitni af okkar hálfu. Það er auðvitað fráleitt að setja upp útreikningsdæmi um það, að þegar um minnkandi fiskmagn á miðunum er að ræða, þá geti þeir undir slíkum kringumstæðum fiskað eins mikið og þeir gerðu á meðan þeir gátu staðið alveg frjálst að veiðunum. Slíkt er auðvitað alger fjarstæða.

Við vitum það, að þó að bretar beiti herskipum sínum togurum sínum til verndar, þá verða þeir að lúta því að láta sér nægja mjög þröngt veiðisvæði, binda togara sína við tiltölulega takmarkað svæði. Þannig hefur reynslan verið og það heftir auðvitað þeirra veiðimöguleika stórkostlega. Við höfum líka séð það, að varðskip okkar geta áreitt flotann svo mikið, þó að um freigátur sé að ræða á miðunum, að veiðarnar eru stórkostlega truflaðar. Um það er ekkert að villast. Og svo kæmi það auðvitað til viðbótar hvað við gætum gert meira en við höfum gert til þess að trufla veiðar þeirra. Ég er því ekki í neinum vafa um það fyrir mitt leyti. að útreikningar af þessu tagi, sem eru í rauninni aðeins gerðir til þess að halda uppi þessari bresku hótun um að þeir geti með valdi tekið svona mikið, ef við föllumst ekki á samninga, — þessir útreikningar eru fráleitir. Þeir mundu aldrei, þó að þeir beittu herskipum sínum, geta veitt hér nema lítinn hluta af þessu, kannske helming eða svo. En það er rétt, ég hef vitanlega engar fullnaðarsannanir um það frekar en aðrir. É;g verð þar að draga ályktanir af vissum líkindastærðum.

En svo ber líka að hafa annað í huga, og það er að ekki er hægt að slá því föstu á neinn hátt að það sé auðvelt verk fyrir breta að senda freigátur sínar hingað aftur á miðin. Þeir eiga þar mjög óhæga aðstöðu eins og sakir standa —mjög óhæga. Við vitum að það er þegar af pólitískum ástæðum mjög erfitt fyrir breta að senda freigátur sínar á nýjan leik til Íslands. Þar þrýsta ýmsir á þá, svo að þetta er mjög erfitt fyrir þá. Heima í Bretlandi er sívaxandi andstaða gegn freigátunum á Íslandsmiðum og áframhaldandi þorskastríði við íslendinga, á því er enginn vafi og sífellt vaxandi kröfur þar um að bretar færi sjálfir út fiskveiðilögsögu sína a. m. k. á vissum s±öðum við Bretlandseyjar. Auk þess er svo hitt, eins og margsinnis hefur verið hent á, að þeir munu hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara að senda freigátur sínar á nýjan leik á fislandsmið, rétt áður en fundir Hafréttarráðstefnunnar hefjast að nýju. Þeir vilja ógjarnan hafa þær hér í deilum við íslendinga á meðan þeir þurfa að fylgja eftir kröfu sinni á Hafréttarráðstefnunni um að það eigi að leiða í alþjóðalög eða samþ. sem alþjóðalög 200 mílna lögsöguregluna. Það fer ekkert á milli mála, að þetta er mjög óþægilegt fyrir breta, og satt að segja mjög ólíklegt að þeir kysu að senda hingað herskip sín við þessar aðstæður. Og hér er um ýmis atriði að ræða sem gera það að verkum að það er vitanlega alveg fráleitt af okkar hálfu að slá því föstu að þeir muni senda hingað herskip sín og þeir muni ná að fullu þeim árangri sem er verið að stilla hér upp í útreikningsdæmum um það hvað þeir geti tekið með valdi.

Ég tel því að það, sem hæstv. forsrh. sagði í þessum efnum í svarræðu sinni í gær, og það, sem hann hefur sagt um þessi mál hvað eftir annað, þegar þau hafa verið rædd, og látið hafa eftir sér í blöðum, sé í rauninni alveg fráleitar fullyrðingar af aðalforsvarsmanni íslendinga í þessari deilu — alveg fráleitt — og þessar fullyrðingar hljóti að hafa það í för með sér hjá öllum þeim, sem taka þessar fullyrðingar alvarlega, að þær dragi í rauninni kjarkinn úr okkur íslendingum að takast á við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Það er svo enn annað mál, hvað við íslendingar eigum að gera komi til nýrra meiri háttar átaka okkar við breta á fiskimiðunum. Ég hef bent á það, að ég tel sjálfsagt að við svörum aukinni ásókn breta með því að styrkja okkar landhelgisgæslu, fjölga þar gæsluskipum. Á þetta hefur verið bent af skipstjórum landhelgisgæslunnar og landssamtökum skipstjórnarmanna í landinu. Þeir hafa lagt á þetta áherslu. Þetta er tiltölulega auðvelt fyrir okkur að gera. Ég hef líka bent á það, að við ættum að snúast þegar í því að reyna að taka á leigu eða kaupa verulega hraðskreitt gæsluskip. Við vitum í mörgum löndum af slíkum skipum sem ganga kaupum og sölum, og við hljótum að geta komist yfir eitt slíkt skip eða jafnvel tvö eins og aðrir, skip sem ganga 40–45 mílur og stinga tiltölulega auðveldlega af sér freigáturnar bresku. Ef við hefðum slík skip með okkar gæsluskipum, þá mundum við klippa aftan úr bresku togurunum léttilega. Þetta hafa okkar skipstjórnarmenn á gæsluskipunum bent á, og við eigum að fá okkur slík skip En þessu hefur ekki heldur verið sinnt, og það er eins og menn meti þetta tiltölulega lítils, sérstaklega þegar þeir eru að gera mikið úr því hvað við íslendingar getum lítið gagnvart bretum. En hér er um mikið að tefla, og því er fyllilega ástæða til þess að við snúum okkur að þessu verkefni.

Auk þess hef ég bent á það og við alþb.-menn, að það er vitanlega ofureðlilegt að við tökum tillit til þeirra staðreynda sem við búum víð. Við erum aðilar að NATO. Þó að við í Alþb. höfum verið á móti þeirri aðild allan tímann og viljað losa Ísland út úr þessum samtökum, þá er það eigi að síður staðreynd. Við erum í þessum samtökum, og hvað er eðlilegra en að sú þjóð, sem sem er aðili að þessum samtökum, bregðist þannig við, þegar eitt af aðildarríkjunum að þessu bandalagi sendir herskip á hendur okkur til þess að reyna að brjóta niður okkar lög, að þá segjum við: Við munum loka hér á Íslandi, á meðan þessi leikur fer fram, þeirri NATO-herstöð sem hér er í gangi og þjónar ykkur. Við munum loka henni á meðan? — Ég efast satt að segja ekki um að allar þjóðir, sem hefðu staðið frammi fyrir slíkum vanda eins og við stöndum í þessum efnum, hefðu beitt þessu á þessa lund.

Ég hef einnig bent á það, að það er líka staðreynd, að við erum með varnarsamning við Bandaríkin. Þau eru með her í okkar landi skv. ákveðnum samningi og skv. honum ber þeim beinlínis samningsleg skylda til þess að koma í veg fyrir árás á okkar land, en hún hefur átt sér stað. Það er því ofureðlilegt að þeir a. m. k., sem gert hafa þennan samning og vilja halda í þennan samning, láti reyna á það, hver alvara er í þessum samningi þegar á reynir. En þegar á þetta er minnst, þá gerist það að hæstv. forsrh. og ýmsir fleiri, sem hafa verið aðaltalsmenn þessara samninga og aðildarinnar að NATO, þá segja þeir: Nei, á þetta má ekki minnast. Það er hlálegt að vera að tala um þetta. Það má ekki blanda þessum málum saman. — Þetta er í rauninni alveg furðuleg afstaða.

Afstaða okkar alþb.-manna í þessum efnum hefur verið skýr. Við höfum sagt allan tímann og segjum enn: Landhelgisdeilu okkar við breta ætlum við að gera upp við þá einir og sjálfir. Við biðjum ekki NATO að skerast í þann leik, og við óskum ekki eftir því að ameríska varnarliðið skerist í þann leik. En þegar NATO-ríkið Bretland sendir herskip á hendur okkur, þá er það brot á eðli NATO-sáttmálans. Og þegar það er gert og meira að segja ráðist á okkur innan við hina óumdeilanlegu 4 mílna landhelgi, þá er líka komið að varnarsamningnum við Bandaríkin. Þegar þeir hafa svo drifið sín herskip út, þá skulum við gera upp afganginn af deilunni við breta sjálfir. — Þetta er auðvitað það eina sem er rökrétt í málinu, eðlilegt. En þá gerist bara þetta, að þeir, sem hafa verið helstir talsmenn varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildarinnar að NATO, gerast taugaóstyrkir. Þá segja þeir: Nei, nei, það má ekki minnast á þetta. — Eða menn segja: Þessi ríkisstj. grípur aldrei til þessa ráðs, jafnvel þó að allur fiskur yrði tekinn úr höndunum á okkur. — Nei, auðvitað ætti að láta reyna á þetta, og verði bretum liðið það að ganga hér yfir okkur með herskip sín á hliðstæðan hátt og áður var, þá gerir það ekkert annað en að sanna í reynd algjört haldleysi þess að við séum aðilar að NATO og algjört haldleysi herverndarsamningsins við Bandaríkin.

Hæstv. utanrrh. mælti hér í gær nokkur orð af hálfu Framsfl. Ég verð að segja það, að ég var ekki jafnánægður með ræðu hans varðandi þetta og ræðu hæstv. dómsmrh. Ólafs Jóhannessonar áðan. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. utanrrh. væri enn að klifa á því að samningar væru betri en ekki samningar. Hann orðaði þetta auðvitað, eins og honum var lagið, á mjög mjúklegan og penan hátt: „að samningar væru betri en ófriður“. Það mundu margir geta tekið undir það út af fyrir sig. En spurningin er ekki um það, heldur þetta: Eigum við undir þeim kringumstæðum, sem við búum við, að ganga til samninga? Getum við samið um eitthvað? Þurfum við endilega að semja? Við vitum svo mikið um möguleika okkar og öll skilyrði að við eigum að geta svarað þessu. Og eftir allt, sem á undan er gengið, segjum við alþb.-menn: Það er enginn grundvöllur til samninga. Það eru engir möguleikar til samninga við breta. Við verðum að takast á við þann vanda sem því fylgir að búa þá við skilningsleysi við þá. Við álítum að við getum komið fram okkar rétti, þó að vitanlega taki nokkuð á okkur að ganga í gegnum þau átök.

Það er bara að það verði ekki haldið þannig áfram í þessu máli, eins og því miður hefur verið gert áður, að hæstv. forsrh. tali mikið um samninga, þrautreyni allar leiðir til samningagerðar við breta, þrátt fyrir allar þær staðreyndir sem liggja fyrir, hæstv. utanrrh. tali jafnvel um að hann vilji samninga frekar en ekki samninga og það beri að athuga það og svo komi hæstv. dómsmrh. og láti klippa á og segi: Hingað og ekki lengra. Slík vinnubrögð hafa vitanlega ekkert upp á sig. Það er best að menn geri upp sín á milli hvað þeir ætli að gera í þessum efnum, og það er einmitt það sem þjóðin öll vill fá að vita.

Ég tel að eins og málum er nú komið sé aðalatriðið í þessari deilu okkar að það liggi alveg ljóst fyrir hvað ríkisstj. ætlast fyrir með þessu nýja tilboði sínu til breta um viðræður, um hvað hún ætlar að ræða, hvað hún ætlar að bjóða. Gefur það ekki auga leið, þegar íslenska ríkisstj. býður bretum upp á viðræður um skammtímasamning, að þá hljóta bretar, um leið og þeir samþ. að taka upp þessar viðræður, að segja: Hvað meinið þið með þessum skammtímasamningi? Hvað eruð þið að bjóða? Hvað mörg skip, hvað mikið aflamagn á þessum tíma? — Á að segja það, sem hæstv. dómsmrh. hefur sagt m. a. á hinni frægu „beinu línu“, að það sé hans skoðun að það sé engin aðstaða til samninga og hann sé á móti samningum af því að það sé enginn grundvöllur fyrir samningum? Til hvers þá viðræður? Og á að segja mönnum alveg umbúðalaust, um leið og efnt verður til þessara viðræðna, að af íslendinga hálfu verði gengið að viðræðunum með það í huga að við höldum uppi fullkominni gæslu á okkar miðum, við klippum miskunnarlaust aftan úr þeim togurum, sem reyni veiðar, ef þeir ekki hætti, og hér verði ekki um neitt vopnahlé að ræða, nema togarar breta fari út fyrir 200 mílna mörkin eða setji ekki veiðarfæri í sjó? Verði af íslendinga hálfu talað svona skýru máli, eins og hæstv. dómsmrh. hefur gert hér, þá tel ég enga hættu á ferðum. Þá sýnist mér þetta vera ósköp eðlilegt. Þetta á að segja. Vonandi brygðust bretar þannig við, að þeir gæfust hreinlega upp af ýmsum ástæðum, tækju togara sína út fyrir, hættu þessu. Þá er sjálfsagt að tala við mennina á meðan. Eða þá að þeir segðu nei og segðust ekki tala við okkur á þessum grundvelli. Þá er þeim þætti lokið og þá hlýtur að koma að næsta þætti: Hvernig ætlum við að fara að í þeim átökum sem þá eru fram undan?

Ég sagði í ræðu minni í gær, að eitt af því þýðingarmesta, sem fyrir okkur lægi í deilunni eins og nú væri komið, það væri að reyna að ná sem mestri samstöðu allra landsmanna um aðgerðir í landhelgismálinu og að við alþb.- menn værum reiðubúnir til samstarfs við aðra stjórnmálaflokka um sameiginlegar aðgerðir og samstöðu í málinu, en bara á þeim grundvelli, að við hefðum mótað skýra stefnu um það að samningar kæmu ekki til greina og við ætluðum að verja okkar landhelgi og ná þannig fullnaðarsigri. Það verður auðvitað engin samstaða með þjóðinni og stjórnmálaflokkarnir ná engri samstöðu um einhverjar viðræður um eitthvað sem enginn veit hvað á að vera. Um það verður engin samstaða. En þetta fer vonandi að skýrast, og þá skulum við vona að við náum þeirri samstöðu sem við þurfum. Þá hef ég mikla trú á því að við verjum okkar landhelgi og við náum fullnaðarsigri á tiltölulega skömmum tíma.