05.02.1976
Efri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

145. mál, afréttamálefni

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. á þskj. 306, sem hér er nú til 1. umr., er til breyt. á l. nr. 42 frá 1969, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Þetta frv. var eitt af þeim frv. sem landgræðslunefnd samdi á sínum tíma og ég lagði það fyrir hv. Alþ. á síðasta þingi, en það varð ekki útrætt þá. Ástæðan til þess, að það varð ekki, var einmitt sú, að það þótti rétt, að Búnaðarþing fengi þetta mál til meðferðar, og þess vegna var frestað að afgreiða það. Nú er það hins vegar lagt hér fyrir til þess að það geti farið til Búnaðarþings til umsagnar, en þetta mál getur verið að einhverju leyti hagsmunamál sem menn vilja fjalla nánar um en þau tvö frv. sem ég ræddi um áðan.

Hér er um að ræða að beita ítölu í sambandi við landsnotkun, og er hugsað með því að tryggja sem hagkvæmasta notkun landsins með því að beit og landvernd fari saman. Það, sem á að gera í þessu sambandi, er að fylgjast betur með nýtingu landsins, og eiga fjallskilafélög eða sveitarstjórnir að vera þar vel á verði, og eru þessir tveir aðilar gerðir ábyrgari en áður hefur verið. Einnig er gert ráð fyrir því, að sérstökum aðilum hjá Búnaðarfélagi Íslands verði falið beitareftirlit og beitarrannsóknir sem þetta frv. er miðað við, þar sem hér er um að ræða í sambandi við ítölu að telja í land í samræmi við hvað beitarþol er mikið, að byggja þessa ákvörðun á rannsóknum um beitarþol og mat á beitinni. Ítala þarf ekki endilega að þýða að takmarka þurfi búfjárfjölda frá því sem er, en hún getur hins vegar þýtt það. En það, sem mestu máli skiptir, er að nýta beitarhagana eins og frekast er hægt og á hagkvæmastan hátt. Það er nú þegar fyrir hendi að ítölum hafi verið beitt. Það mun hafa verið gert í Mýrdal, eins á Landmannaafrétti, og verið er að vinna að ítölu í Mývatnssveit eða á löndum Skútustaðahrepps og, ef til vill víðar, svo að þetta hefur átt sér stað. Bændur hafa því áhuga á að koma þessum málum hagkvæmilega fyrir, enda hafa þeir mikilla hagsmuna að gæta. Það skiptir náttúrlega öllu máli fyrir þá að fénaður þeirra hafi sem hagkvæmasta beit meðan hann er á fjöllum uppi, og það er orðið meira áberandi en áður, að síðla sumars fara bændur að girðingum til þess að fylgjast með því hvort féð er komið að þeim, og hefur það þá verið tekið niður og fært inn á láglendið, eins og átt hefur sér stað í Borgarfirði og víðar.

Með þessari rannsókn á beitarþoli á að vera hægt að fylgjast betur með þessum efnum en gert hefur verið, og frv. ráðgerir að láglendi verði betur nýtt í sambandi við beit en áður hefur átt sér stað. Einnig væri með þessum skipulega hætti hægt að ákveða um það, hvenær fé yrði rakið á fjall og hvenær það yrði þaðan tekið. Sömuleiðis er þegar farið að útiloka stóðhross úr beitilöndum sauðfjár, og mundi það verða gert í ríkari mæli ef um hættu væri að ræða á að land væri ofbeitt.

Þetta frv. beinist því fyrst og fremst að því að gera ákvörðun um ítölu skýrari, einfaldari í framkvæmd og tengja öðrum gróðurverndaraðgerðum. Það yrðu í flestum tilfellum bændurnir sjálfir sem mundu beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að halda landgræðslunni og landverndinni. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. að Landgræðslan geti gripið þar inn í ef þessum málum er ekki fullsinnt að hennar dómi af þeim aðilum sem eiga að sinna þeim, sveitarstjórnum og stjórnum afréttarlanda.

Ég sé ekki ástæðu til þess við þessa umr. að fara frekar út í þetta mál. Þetta er eins og ég gat um í upphafi máls míns, einn þátturinn í því að vernda land okkar, bæta það og nýta á hagkvæman hátt. En það er sú stefnumörkun, sem gerð var með ályktuninni á Þingvöllum hinn 28. júlí 1974.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn. og vænti eins og í hinum málunum góðrar fyrirgreiðslu af hálfu nefndarinnar.