05.02.1976
Efri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

99. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Frá því í haust hefur í fjmrn. verið unnið að endurskoðun á frv. til 1. um skráningu og mat fasteigna. Frv. þetta er á þskj. 121. Eins og hv. þm. rekur ef til vill minni til, var lagt fram í hv. deild haustið 1973 af þáv. hæstv. fjmrh., Halldóri E. Sigurðssyni, hliðstætt frv., en málið fékkst ekki afgr. á því þingi. Forsaga þessa máls er þó mun lengri og víl ég leyfa mér að rekja hana hér í nokkrum orðum.

Aðalmat fasteigna 1970, sem þáv. fjmrh. staðfesti á árinu 1971, var gert samkv. l. nr. 28 1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu. Skipulagslega var allur undirbúningur og framkvæmd aðalmatsins 1970 annað en verið hafði við fasteignamat fyrr, einkum hvað snerti gagnasöfnun sem var mun umfangsmeiri og víðtækari en áður hafði þekkst, sérstaklega í Reykjavík. Auk þess var gerð alvarleg tilraun til þess að láta matsfjárhæðir spegla raunverulegt gangverð eigna á þeim tíma sem matið miðaðist við, og er matsverð fasteigna miðað við gangverð þeirra um áramótin 1969–1970.

Það, sem gerði kleift að ráðast í þá umfangsmiklu upplýsingasöfnun, sem áður hefur verið lýst, var að nýjasta tækni við vörslu og vinnslu slíkra gagna hafði gert meðhöndlun svo mikils magns upplýsinga viðráðanlega bæði tæknilega og fjárhagslega. Hefur í framhaldi af því verið leitast við að halda við þessu upplýsingasafni eftir því sem frekast hefur verið kostur.

Lengi hafði verið ljóst að lagagrundvöllur aðalmats 1970 gæti ekki dugað sem frambúðarstefna um þróun þessa viðfangsefnis sem hefur geysimikla þýðingu fyrir fjölmarga aðila, þeirra á meðal sveitarfélögin í landinu, en upplýsingasafn þetta hefur verið grundvöllur álagningar fasteignaskatta samkv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Hafa verið gerðar þrjár tilraunir til samningar lagafrv. um þetta efni og var það síðasta lagt fyrir Alþ., eins og fyrr segir, 1973, en fékkst þá ekki afgreitt enda þótt ekki virtist á þeim tíma teljandi efniságreiningur um þá stefnu sem mörkuð var í því frv. Ráðuneytisstjóri fjmrn., Jón Sigurðsson, hafði aðallega unnið að gerð þess frv. Öll þau verk, sem unnin hafa verið á þessu sviði, hafa átt þátt í að móta þá stefnu rn. sem fram kemur í þessu frv., en frv. er að meginstofni til byggt á fyrra frv. um sama efni sem fyrr var að vikið, en þó er í nokkrum atriðum um frávik að ræða, aðallega í framkvæmd matsins sjálfs.

Þess er fastlega vænst, ef frv. verður að lögum, að það leysi til nokkurrar frambúðar úr þeim hnút sem málefni fasteignamatsins hafa verið í síðustu missiri. Þar sem frv. er hins vegar nýsmíði á kerfi, sem ekki hefur verið reynt verður reynslan að skera úr um hvort einhverjar breytingar verði nauðsynlegar til þess að hin nýja tilhögun skili þeim árangri sem að er stefnt. Eins og frv. er lagt fram, felur það í sér einfalt kerfi til að viðhalda og leiðrétta fasteignaskrá eins og hún er á hverjum tíma. Framkvæmd skráningar byggist í megindráttum á gagnasöfnun aðila sem þegar eru starfandi á því sviði og þurfa að skrá hjá sér sambærilegar upplýsingar hvort sem er.

Í frv. felst m. a. sú breyting, ef borið er saman við gildandi lög, að aðaláhersla laganna hvílir á haldgóðri skráningu fasteigna og upplýsinga um þær, en mat á verðmætum þeirra kemur í annarri röð. Í gildandi lögum er þessu öfugt farið, því að þar er ákvörðun um matsverðmæti fasteigna meginmarkmið laganna. Þessi áherslumunur ber vott um að skráning upplýsinga um fasteignir hefur sívaxandi gildi fyrir æ fleiri aðila í nútímaþjóðfélagi, ekki einungis í sambandi við skattheimtu og fjármál, heldur og í vaxandi tengslum við önnur atriði í stjórn málefna opinberra aðila, áætlunargerðar og skipulagningu, svo og í viðskiptum einkaaðila og við rannsóknir. Notagildi véltækra gagna af þessu tagi í tengslum við aðrar skrár, svo sem þjóðskrá og fyrirtækjaskrá, er einnig geysimikið og vaxandi.

Frv. gerir ráð fyrir sífelldri matsstarfsemi, þ. e. að eignir séu teknar til mats jafnharðan og þær verða til eða breytast, í stað þeirrar tilhögunar sem ríkir skv. gildandi lögum sem gerir ráð fyrir aðalmati á vissu árabili, en millimatskerfi þess á milli. Slík samfelld matsstarfsemi, sem á að leiða til þess að skráning og verðmætismat fasteigna sé á hverjum tíma eins nálægt sanni og kostur er, gerbreytir upplýsingagildi matsins og verður nánast að teljast markmið í sjálfu sér. Er með því opnaður möguleiki fyrir því að fasteignamatið komi í stað annars mats á ýmsum sviðum og hægt verði að nota það í hvers konar verðmætisviðmiðun.

Sú breyting er gerð í framkvæmd matsins frá fyrra frv. að horfið er frá sjálfstæðu matsmannakerfi, sem þá var gert ráð fyrir að starfaði skipulega innan Fasteignaskrár, en í stað þess er gert ráð fyrir að Fasteignaskrá annist mat fasteigna. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir heimild til að komið verði á fót sérstöku trúnaðarmannakerfi eftir kjördæmum sem aðstoði Fasteignaskrá við mat og/eða skoðun fasteigna. Verður reynslan að skera úr um hvort nauðsynlegt teljist að ráðist verði í uppsetningu slíks kerfis.

Skipun yfirfasteignamatsnefndar skv. frv. úr hópi 10 manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, er að því leyti til frábrugðin fyrirkomulagi gildandi laga, að henni má jafna til dómkvaðningar, í stað þess að nú er n. skipuð af fjmrh. beint. Felur þessi breyt. í sér tilraun til að flytja matsstarfsemi með þessum hætti á einn stað í stað þeirra fjölmörgu aðila sem fást við mat fasteigna með mjög ósamræmdum hætti eftir sérstakri dómkvaðningu hverju sinni.

Frv. gerir ráð fyrir að Fasteignaskrá yfirtaki allar eignir og gögn Fasteignamats ríkisins í Reykjavík og utan. Hér er um formbreytingu að ræða, en ekki raunverulega verið að setja á fót nýja stofnun.

Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga aukist frá því sem verið hefur. Þó má búast við auknum kostnaði vegna sérskráningar sérgreindra eignarhluta fasteigna sem Alþ. hefur sýnt áhuga á að geti orðið og er forsenda álagningar fasteignagjalda eftir eigendum svo og vegna árlegs framreiknings yfirfasteignamatsnefndar. Á móti kemur hins vegar að kostnaður við millimatið fellur niður. Það hins vegar ætti að tryggja að kostnaður við rekstur stofnunarinnar fari ekki fram úr því sem fjárlög gera ráð fyrir, að sérstakt ákvæði kveður á um að verðlagning á þjónustu Fasteignaskrár skuli miðast við endurheimt kostnaðar Fasteignaskrár að því marki sem fjárlög á hverjum tíma gera ráð fyrir. Skv. fjárl. ársins 1976 er gert ráð fyrir að sá kostnaður nemi 31 millj. kr.

Ég hef orðið var við að nokkrum mönnum er nafn stofnunarinnar þyrnir í augum. Að nokkru leyti er hér um smekksatriði að ræða, en ég vil þó gefa skýringu á nafngiftinni. Eins og fram hefur komið í þessu frv. er lögð áhersla á skráningu upplýsinga um fasteignir, en matið kemur í annarri röð. Þótti því eftir atvikum rétt að frekari áhersla yrði lögð á þetta í nafngift stofnunarinnar. Þá hafa margir tilhneigingu til að hengja orðið „ríkisins“ aftan við heiti stofnunar á vegum ríkisins. Slíkt er smekksatriði, en þó ekki algild regla, sbr. t. d. Þjóðskrá. Ekkert er því til fyrirstöðu að þessu verði breytt að vel athuguðu máli.

Eins og ég drap á áður er hér um fjórðu tilraunina að ræða til samningar lagafrv. um þetta efni og annað skiptið sem málið er lagt fyrir Alþ. Sá dráttur, sem orðið hefur á mótun frambúðarstefnu um skráningu og mat fasteigna, hefur valdið ýmsum erfiðleikum og ljóst er að við svo búið má ekki öllu lengur standa.

Um leið og ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. vil ég mega mælast til þess við þá n. eða formann hennar að við yfirferð og upplýsingasöfnun vegna þessa frv. verði haft samstarf við hv. fjh.- og viðskn. Nd. Þannig væri hægt að auðvelda framgang málsins og tryggja að allar upplýsingar um þetta mál fáist, en það þurfi ekki að tefja málið, þegar það kemur til Nd., að þá þurfi að endurtaka það upplýsingastreymi inn til fjh.- og viðskn. Nd. sem þegar hafi farið fram hjá hv. fjh.- og viðskn. Ed.