05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

120. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það er nú orðið nokkuð langt um liðið síðan þetta mál var hér til umr. og líklega farið að fyrnast eitthvað yfir það sem þá var sagt í þeim efnum. En ég vil þó segja aðeins nokkur orð nú við 1. umr. þessa máls.

Nú er ég ekki í neinum vafa um að hv. flm. þessa frv. eru fullir áhuga í sambandi við umferðarmenningu og allt sem því við kemur að koma í veg fyrir umferðarslys. Ég er ekki heldur í neinum vafa um að þetta frv. er fyrst og fremst flutt til þess. Einnig tel ég mjög líklegt að báðir hv. þm. séu fremri mér í því að fjalla um slík efni og sjálfsagt margt í þessu frv. sem horfir til bóta. En það er þó a. m. k. eitt atriði sem ég vil sérstaklega gera að umræðuefni varðandi þetta frv. Það atriði er í 1. gr. frv. þar sem fjallað er um öryggisbelti í bifreiðum. Nú er það líklega nokkuð umdeilt eða a. m. k. skiptar skoðanir um það, hvort talið sé rétt að lögleiða notkun öryggisbelta í bifreiðum. Menn skiptast þar bæði með og móti. Ég vil ekki á þessu stigi tjá mig um það endanlega. Það er ýmislegt sem mælir sterklega með því að lögleiðing öryggisbelti í bifreiðum gæti hugsanlega komið í veg fyrir slys í umferðinni. En það, sem ég rak augun í í sambandi við þetta frv., er að í þessari gr. er gert ráð fyrir því, eins og segir orðrétt, að „þeim, sem eru undir 15 ára aldri eða eru að líkamsstærð undir 150 cm“ sé ekki skylt að nota öryggisbelti.

Nú veit ég eigi hvað hv. flm. þessa frv. hafa í raun og veru fyrir sér í því eða hvað þeir meina, hver er orsökin fyrir því að þeir telja ekki jafnnauðsynlegt fyrir mann, sem er ekki nema 150 cm á hæð, að vera í öryggisbelti eins og hinn, sem væri kannske 151 eða 155 cm. Vel má vera að það liggi að baki svona ákvörðun einhverjar rannsóknir eða upplýsingar sem leiði til þess, að það sé hægt að sýna fram á, að ekki sé jafnnauðsynlegt fyrir einstaklinga af þessari stærð að nota slíkan öryggisbúnað. Ég fyrir mitt leyti hef ekki heyrt neitt, sem fram hefur komið, sem renni stoðum undir það að hér eigi endilega að skipta um öryggisútbúnað eftir því hver stærð viðkomandi einstaklings er sem nota á þetta tæki, þennan öryggisútbúnað. Ég vil því spyrja hv. 1. flm. frv. hvað liggi að baki því að þeir telji ekki nauðsynlegt fyrir menn, sem ekki eru hærri en 150 cm, að nota öryggisbelti, ef það er á annað borð, sem ég skal ekki draga í efa, orðið sýnt að öryggisbelti hafi í reynd komið í veg fyrir líklega fjöldann allan af slysum í umferð. Ég vil gjarnan fá skýringu á þessu ákvæði. Eins og ég sagði áðan, þá má vel vera að hér liggi til grundvallar kannanir og niðurstöður þeirra í þessu sambandi, en ég vildi gjarnan fá um það að vita.

Það var fyrst og fremst þetta sem ég rak augun í við yfirlestur þessa frv., eins og ég sagði strax. Ég geri ráð fyrir því að margt í þessu frv. geti verið til bóta í umferðinni, og sannarlega veitir ekki af að huga að öllu því sem sýnist vera til bóta og í þá átt að koma í veg fyrir umferðarslys. Við höfum á undanförnum mánuðum kannske heyrt meira en fyrr um slíkt, og er því full ástæða til að gefa þessu fullan gaum.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð hér um, en ég vil sem sagt mjög óska eftir að skýring yrði gefin á því, hver sé ástæðan fyrir þessu, sem hér er sett fram, að það sé ekki talin ástæða til að þeir einstaklingar, sem ekki séu hærri en 150 em, noti öryggisbelti.