05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

120. mál, umferðarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til 1. umr. frv. til l. um breyt. á umferðarlögum. Þessu frv. verður væntanlega vísað til allshn., svo að það er óþarfi fyrir mig að hafa mörg orð um það á þessu stigi málsins. Ég tel mjög eðlilegt að alþm. velti þessum miklu vandamálum fyrir sér og leiti úrbóta með því að breyta umferðarlöggjöfinni. Það er mjög eðlilegt og sjálfsagt, því að vissulega er mikið undir því komið að löggjöfin sé vel úr garði gerð.

Þetta frv. hefur að geyma nokkra meginþætti, og nefna menn þá gjarnan fyrst bílbeltin. Ég álít að þau ákvæði, sem flm. ætla sér að lögleiða varðandi bílbeltin, þurfi mjög að athuga. Það er alveg tvímælalaust, að á því máli eru fleiri en ein hlið, og ég tel, að sá áróður, sem alltaf er nauðsynlegt að hafður sé uppi í sambandi við umferðina, hafi gengið allt of einhliða út á bílbeltin. Það er hin almenna gætni og umferðarmenning sem skiptir höfuðmáli. Ég vil þess vegna ekki á þessu stigi lýsa mig fylgjanda þess að bílbeltin verði lögfest, ekki á þessu stigi málsins að minnsta kosti.

En hér er hreyft öðrum atriðum sem eru athyglisverð. M. a. er minnst á mistakakerfið eða punktakerfið svokallaða. Það var fyrst tekið upp í Connecticut í Bandaríkjunum 1947 og hefur síðan farið sigurför um ýmis lönd, því að vissulega er það svo að það þarf að sigta úr umferðinni þá ökumenn sem aldrei ná fullu valdi á því verkefni að aka bil af öryggi í umferð. Þetta álít ég rétt að athuga. Það eru vafalaust ýmis fleiri atriði í frv. sem þarf að skoða mjög vandlega. En á það vil ég benda að síðustu, að það er sama hvernig við breytum umferðarlöggjöfinni. Það er fyrst og fremst hin vakandi og lifandi löggæsla í umferðinni sem skiptir höfuðmáli. En hún kostar peninga, og fram hjá því komumst við aldrei að það kostar mikla peninga að koma þessum málum í gott horf.