05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. það á þskj. 208, sem hér er til 1. umr., er samið af n. sem skipuð var hinn 31. mars 1973. Þessi n. var skipuð af landbrh. og í henni áttu sæti þessir menn: Þorsteinn Sveinsson kaupfélagsstjóri á Egilsstöðum Hreinn Sumarliðason kaupmaður í Reykjavík, Ólafur Andrésson bóndi í Sogni, Bjarni Helgason, sem var tilnefndur af Neytendasamtökunum, Stefán Björnsson forstjóri Mjólkursamsölunnar og Sveinn Tryggvason framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem var formaður nefndarinnar.

Þetta frv. var upphaflega hugsað sem einn þáttur í framleiðsluráðslögunum, sem reyndar verður, en þá var gert ráð fyrir að leggja þau fyrir hv. Alþ. sem heildarlöggjöf. Á því hefur orðið nokkur dráttur að svo hafi verið gert, m. a. vegna þess að frá því að frv. að heildarlöggjöf var samið hafa orðið stjórnarskipti og atriði voru í hinu fyrra frv. sem þeir flokkar, sem mynda núv. ríkisstj., voru ósammála um, en þeir hafa nú málið til meðferðar. Það var hugsun mín að leggja ekki þetta frv. fram fyrr en ég gæti lagt það mál fram í heild, en vegna fundarsamþykktar, sem gerð var af stjórn Mjólkursamsölunnar 6. nóv. s. l., hef ég breytt þessari ákvörðun minni. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar Mjólkursamsölunnar í gær,“ þ. e. 6. nóv., „var rætt um breytingu þá sem fyrirhugað var að gera á framleiðsluráðslögunum og þó sérstaklega um mjólkursölumálin. Stjórnarmenn eru sammála um að leiða þurfi mjólkursölumálin til lykta sem allra fyrst, enda þótt aðrar breytingar á framleiðsluráðslögunum verði ekki gerðar samtímis.“

Þegar þessi samþykkt lá fyrir þótti mér rétt að flytja frv., sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., og fékk ráðuneytisstjórann í landbrn. ásamt því að ég fékk formann Stéttarsambands bænda til að lesa þetta yfir, og var það í raun og veru kaflinn eins og hann var saminn af n. þeirri, sem ég vitnaði til, með lítils háttar breytingum, sem nauðsyn bar til að gera á framleiðsluráðslögunum fyrst einhver breyting var á þeim gerð.

Eins og kunnugt er voru árið 1934 sett lög um mjólkursölu hér í Reykjavík. Áður hafði mjólkursalan ekki verið framkvæmd eftir sérstökum lögum og var á margan hátt ábótavant og nauðsyn bar til að gera þar breytingar á. Með þessum lögum var stefnt að því að Mjólkursamsalan í Reykjavík og mjólkursamlögin utan Reykjavíkur fengju einkarétt til sölu á mjólk og rjóma og nýju skyri. Áður hafði þetta, eins og ég gat um, verið í höndum nokkurra aðila. Það var mikill fjöldi verslana sem dreifði þá mjólkinni, og dreifingarkostnaðurinn var þá óeðlilega hár og gekk á hlut bænda, framleiðendanna í því tilfelli, þegar kostnaðurinn við dreifinguna var mikill.

Fyrir breytinguna, sem gerð var 1934, var mjólk seld í 100 verslunum í Reykjavík, en eftir breytinguna var hún seld á 30 stöðum. Meðalfjöldi kaupenda á búð var fyrir þessa lagabreytingu 340 íbúar, en eftir hana 1130. Meðalfjöldi á útsölustað í Reykjavík nú eða þegar n. vann að þessu máli var um 1000 manns. Frá því að mjólkursölulögin voru sett og síðar framleiðsluráðslögin hefur orðið hægfara þróun í verslunarháttum fólksins. Þegar n. vann að könnun sinni árið 1973 var talið að Mjólkursamsalan hefði innan síns dreifingarsvæðis 70 útsölustaði af 139 eða réttan helming, kaupmenn hefðu 52 og samvinnufélög 17. Rétt hefur þótt að færa verslunina á mjólk meira í almennar verslanir en áður var. Að sjálfsögðu hafa mjólkursamlögin sama rétt og áður til þess að selja mjólk í smásölu.

Ástæðurnar til þeirra breytinga, sem hér er lagt til að gerðar verði, skal ég nú rekja nokkru nánar, en að sjálfsögðu er eðlilegt að slík löggjöf sem þessi sé endurskoðuð, þar sem eru yfir 40 ár síðan upphaflegu lögin voru sett.

Þegar þetta sölufyrirkomulag var tekið upp 1934 bar það þann árangur að lækka dreifingarkostnaðinn. Þá var líka þannig ástatt, að það var óhugsandi að selja mætti mjólk í búðum sem dreifðu almennri matvöru, ef gæta ætti þess að mjólkin spilltist ekki í sölumeðferð. Umbúðir eru nú orðnar miklu fullkomnari til þess að halda gæðum mjólkurinnar. Allmikil sala fór fram án gerilsneyðingar á mjólk áður fyrr, en eftir að Mjólkursamsalan tók upp að selja ein mjólkina, þá seldi hún í þeim búðum einnig brauðvörur, sælgæti og gosdrykki og hafði af þessu tekjur sem urðu til þess að hækka útborgunarverð til framleiðenda eða koma til lækkunar á verði til neytenda. Það, sem hér er hins vegar um að ræða, er að taka upp verðskráningu á mjólk, rjóma, skyri og öðrum skyldum vörum í heildsölu. Álagning í smásölu verður einnig ákveðin á þessum vörum af Sexmannanefnd eins og nú á sér stað. Einkaréttur Mjólkursamsölunnar og mjólkurbúa til sölu á mjólk, rjóma, skyri og öðrum skyldum afurðum nái nú til heildsöludreifingar, en náði áður einnig til smásöludreifingar. En eins og ég gat um áðan, hefur orðið á þessu veruleg breyting þar sem fjöldi aðila dreifir mjólkinni, eins og kunnugt er. Það á að taka sérstakt losunargjald við hverja afhendingu á mjólk, rjóma og skyri og öðrum skyldum vörum er Sexmannanefnd, sem kveður á um verð á landbúnaðarvörum, ákveður. Þetta er gert til þess að spara óþarfa dreifingarkostnað og á sér hliðstæðu við dreifingu á mjólk t. d. í Svíþjóð. Heimilt er að selja mjólk í almennum matvöruverslunum er uppfylla kröfur um hreinlæti og annan aðbúnað þar að lútandi. Að sjálfsögðu hafa mjólkursamlögin sama rétt til þess að stofna eða reka mjólkurútsölustaði. Hagsmunir neytenda eru tryggðir svo sem verða má með ákvæði um að óheimilt sé að stöðva mjólkurútsölu til þess að krefjast hærri útsölulauna en Sexmannanefnd ákveður, og þær verslanir, er fá leyfi til mjólkursölu, skulu einatt hafa nægt magn mjólkurvöru á boðstólum. Ákvæði um flutninga á mjólk til dreifbýlis, þar sem framleiðsluskortur er, eru mun ákveðnari en áður til þess að tryggja neytendur gagnvart vöntun á þeim vörum á þessum svæðum. Gerðar eru almennar breytingar á verðmiðlun á búvöru til þess að tryggja umfram það sem er að bændur fái sama verð fyrir sömu vöru. Nær það einkum til fjármagnskostnaðar í sláturhúsum og mjólkurbúum, en einnig til flutningskostnaðar. Jafnframt þessu er stefnt að því að koma á hentugri verkaskiptingu á milli vinnslustöðva vegna verðmiðlunarinnar. Ákvæði eru í frv. um að framleiðsluráði sé heimilt að taka verðjöfnunargjald af bændum til þess að mæta halla er verður við útflutning á búvörum og útflutningsbætur samkv. núgildandi lögum nægja ekki. Í öðrum tilvikum er reiknað með verðjöfnunargjaldi til dreifingarkostnaðar sem leggst við verð á vörunum. Þessi atriði, sem ég hef nú greint frá, eru aðalatriðin í frv. sem hér liggur fyrir.

Í sambandi við frv. vil ég segja það, að það þarf engan að undra þó að löggjöf, sem sett var fyrir meira en fjórum tugum ára, þurfi breytinga við. Það er skilningur þeirra, sem um hafa fjallað, bæði í n. þeirri, sem samdi frv. og m. a. var skipuð forstjóra Mjólkursamsölunnar, einnig framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs og fleiri aðilum og fulltrúa mjólkurbúanna úti á landi, fyrir utan neytendafulltrúana, að þessi breyting sé eðlileg eins og nú sé högum komið. Enda er það svo að með kjörbúðafyrirkomulaginu hefur mjólkurdreifingin að meira eða minna leyti færst inn í kjörbúðir og þær búðir, sem Mjólkursamsalan hefur haft, því ekki verið jafnmikils virði og áður var. Ég vil í sambandi við þetta einnig geta þess, að þegar ég á sínum tíma kynnti þetta mál í þingflokki mínum, þá var formaður stjórnar Mjólkursamsölunnar hér á hv. Alþ. og lýsti skoðun sinni á því að þessi breyting væri eðlileg og nauðsynleg.

Mér er ljóst, enda eru ákvæði til bráðabirgða um það, að nokkurn tíma taki að koma þessu í framkvæmd. Hins vegar mun vera óformlegt samkomulag milli Mjólkursamsölunnar og Kaupmannasamtakanna um kaup á verulegum hluta af þeim búðum sem hún á hér. Hins vegar getur það verið til athugunar hjá hv. n. og reyndar fleiri atriði sem um þetta fjalla, hvort tímalengdin á að vera meiri en gert er þar ráð fyrir.

Þá vil ég og geta þess, að það þarf nokkurn tíma til og er líka í óformlegu samkomulagi að sjá starfsfólki, sem að þessum málum vinnur, fyrir áframhaldandi störfum eða koma högum þess fyrir á sem hagkvæmastan hátt, að því leyti sem Mjólkursamsalan þarf að breyta til frá því að hafa smásöluna yfir í heildsöluna.

Ég vil svo geta þess, að ég geri ráð fyrir því að skipa nú á næstu dögum n. til þess að endurskoða aðra þætti framleiðsluráðslaganna sem mundu þá verða veigameiri og líka tengdir því sem væri kjarni þeirra laga, en því máli hef ég ekki endanlega gengið frá.

Það er mat mitt eins og þeirra, sem undirbúið hafa þetta mál, og mat okkar í landbrn. að þessi breyting sé eðlileg, hún sé í takt við þróun þá, sem nú eigi sér stað í verslunarmálum, þrátt fyrir hana eigi að vera hægt að koma í veg fyrir að dreifingarkostnaðurinn verði nema eðlilegur, því að Sexmannanefnd hefur vald á honum eftir sem áður. Breytingin á því ekki að hækka verð til seljenda, og það á jafnframt með ákvörðun Sexmannanefndar að vera hægt að tryggja verð framleiðenda.

Ég legg svo til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn. Ég vil við þetta tækifæri geta þess sama og ég gerði í hv. Ed. út af málum sem ég var þar að leggja fyrir, að ég vildi vona að hv. n. ynni að þessum málum núna, því að starfstíma þingsins er oft þannig varið að það koma stórar skorpur. Nú er hins vegar meira hlé á, og þess vegna vildi ég biðja hv. nm. að nota nú vel tímann til þess að koma þeim málum áfram til afgreiðslu sem ekki þurfa af öðrum ástæðum að verða í lokahrotunni, eins og oft vill verða. Þess vegna legg ég á það áherslu að ýta þessu máli áfram með þeim eðlilega hraða sem nm. telja og treysti þeim til að vinna vel að því.