05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að efnisatriðum þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., vil ég leyfa mér að koma að nokkrum atriðum öðrum sem varða sömu löggjöf.

Frv. til l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl. var lagt fram hér á Alþ. einhvern tíman á útmánuðum 1972. Það var í samræmi við stjórnarsáttmála vinstri stjórnarinnar. Hér var um gagngera endurskoðun að ræða á gildandi lögum um sama efni. Stéttarsamband bænda hafði lagt mikla vinnu í endurskoðun þessa frv. Þetta varð þó aldrei að lögum. Samstaða náðist ekki um ýmis efnisatriði frv.

Þá mun þegar hafa komið upp krafa um að rjúfa tengsl milli launa bænda annars vegar og svokallaðra viðmiðunarstétta hins vegar. Þessi viðmiðun hefur verið nokkurt haldreipi í kjarabaráttu bænda enda þótt hún hafi aldrei staðist í raun. Besta hlutfali, sem mér er kunnugt um, er að laun bænda hafa numið 86% af launum viðmiðunarstéttanna, og þetta hefur sveiflast allt niður í 65%. Á árinu 1974 var þetta hlutfall 77.8,% en það er síðasta ár sem tölulegar upplýsingar liggja fyrir um. Þar við bætist, svo sem kunnugt er og fram hefur komið í blöðum á liðnu hausti, að bændur einir allra stétta fá ekki greiddan verulegan hluta tekna sinna fyrr en árið eftir að þeirra er aflað.

Enn er þessi áðurnefnda krafa uppi, að því er ég best hef heyrt, og hún hefur heyrst í sambandi við yfirstandandi kjarabaráttu daglaunafólks. E. t. v. er verið að fjalla um hana nú á þessari stundu. Ég þykist gera mér grein fyrir þeim erfiðleikum sem verkamaðurinn á við að stríða til að láta laun sín nægja fyrir nauðþurftum. En úr því að á þetta er drepið get ég ekki látið hjá líða að lýsa vanþóknun minni á þeirri kröfu, að vandamál verkalýðshreyfingarinnar verði leyst á kostnað þeirrar stéttar erfiðismanna sem annast frumframleiðslu landbúnaðarvöru, sér landsmönnum fyrir brýnum neysluvörum og hráefni til þýðingarmikils iðnaðar iðnaðar sem m. a. skapar með ári hverju síauknar gjaldeyristekjur. En ég leiði hjá mér að ræða þau mál frekar nú, Þar munu réttir aðilar standa fyrir sínu á réttum stað og á réttum tíma.

En á þeim tíma, sem áðurnefnt frv. var lagt fram, sem og fyrir þann tíma og enn í dag, var uppi hörð gagnrýni á stefnuna í landbúnaðarmálum. Löggjafinn hefur þó ekki fallist á að veita stofnunum landbúnaðarins auknar heimildir til stjórnunaraðgerða innan landbúnaðarins, þannig að yfirstjórn landbúnaðarins geti haft áhrif á þróun landbúnaðarframleiðslunnar, bæði á einstaka þætti hennar sem og héraðsbundna þróum. Það hafa stundum risið greinir með bændum sjálfum vegna verðhlutfalls milli sauðfjárafurða og nautgripaafurða. Á harðindaárunum 1965 og síðar urðu sauðfjárbændur einna harðast úti í ýmsum héruðum á Vestfjörðum og Norðausturlandi, svo að dæmi sé tekið. Þá ríkti mikil óánægja hjá sauðfjárbændum með þetta verðhlutfall sem þá var leiðrétt, og ég hygg að síðar megi segja að sættir hafi nokkurn veginn staðið um það. Hins vegar vaknar sú spurning hjá þeim, sem um þessi mál hugsa, hvort þetta hlutfall sé það eina og rétta, sem gilda skuli alls staðar og alltaf, og kem ég að því síðar.

Í núgildandi lögum er það meginsjónarmið staðfest, að sama verð skuli gilda til bænda um land allt. Hér má líka spyrja hvort það eitt fullnægi réttlætinu að ekki sé heimilt að víkja frá þessu meginsjónarmiði. Þá hugsun vantar að útfæra í lögum, að jafnhliða því að bændur skuli allir fá sama verð fyrir framleiðslueiningu skuli þeir einnig standa nokkurn veginn jafnfætis varðandi framleiðslukostnað, þótt ekki sé tekið tillit til veðurfars eða ræktunarskilyrða í því mati. Ekkert tillit er tekið til geysilegs mismunar sem er á verði rekstrarvara í ýmsum héruðum. Engin lagaheimild er til jöfnunar, enginn möguleiki til niðurgreiðslu á frumstigi framleiðslunnar.

Ég leyfi mér að nefna eitt dæmi um þennan aðstöðumun. Verulegur verðmunur er á fóðurmjöli eftir því hvort það er sekkjað eða ósekkjað. Fleiri atriði koma auk þess til.

Í athugun, sem gerð var í nóv. s. l. á verði á nokkrum tilteknum verslunarstöðum, kom í ljós að verðmismunur á sambærilegum fóðurtegundum var allt að því 9 400 kr. á tonn. Gerum ráð fyrir að bóndi, sem býr við hin lakari skilyrði, reki bú af meðalstærð, en þar sé jafnframt um hreint kúabú að ræða, 20 kýr. Ég hygg að þó að hóflega sé farið í sakirnar með fóðurbætisgjöf sleppi hann varla með minna en 16 tonn á ári af fóðurmjöli, en það mundi kosta hann hvorki meira né minna en 150 400 kr. umfram þann sem keypti á hagstæðasta verði. Þetta eina atriði rýrir afkomu hans um eigi lægri upphæð en ég áðan nefndi. Er hér þó aðeins nefnt eitt atriði af mörgum, en e. t. v. það veigamesta.

Ég dreg þetta fram hér vegna þess að hér er komið að einum þætti af fleirum sem skýra raunverulega orsök að búseturöskun í sveitum landsins. Hún er staðreynd, hvort heldur menn vilja gera sér grein fyrir orsökunum eða ekki og taka á þeim,

Í frv. því, sem áður er nefnt og lagt var fram 1972, voru fjölmörg umbótaatriði, m. a. atriði er heimila skyldu stofnunum landbúnaðarins og fleiri aðilum stjórnunaraðgerðir í jafnvægisátt.

Í 2. gr. 5. tölul. þessa frv. segir svo um aðalverkefni Framleiðsluráðs, með leyfi forseta: „Framleiðsluráði ber að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum sem landbúnaðinum eru hagfelldastar og samrýmast best þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma. Framleiðsluráð skal því í samráði við Búnaðarfélag Íslands, búnaðarsamböndin og þær stofnanir sem vinna að áætlunargerð í þjóðfélaginu“ — ég bið menn að taka eftir því — „gera áætlanir um æskilega þróun landbúnaðarins til lengri tíma, t. d. allt að 14 ára. Áætlanir þessar skulu endurskoðaðar árlega með hliðsjón af áhrifum af árferði á þróunina svo og breytingum á markaðsskilyrðum:

16. gr. frv. hljóðar svo, einnig með leyfi forseta:

„Stofna skal sjóð til styrktar í þeim landshlutum sem við sérstaka erfiðleika eiga að stríða, þar sem hætta er á eyðingu byggðar og skortur verður á búvöru. Ríkisstj. skal árlega tryggja framlag til sjóðsins úr Byggðasjóði eða á annan hátt er svari til 1% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, sbr. 3. málsgr. 15. gr. Fé þessu ráðstafar sexmannanefnd, sbr. 7. gr., í samráði við og með samþykki þeirra aðila er tilnefna menn í n. Áður en ákvörðun er tekin um úthlutun fjárins skal fara fram nákvæm athugun á aðstöðu þeirra byggðarlaga sem til greina koma í þessu efni. Slík athugun skal fara fram í samráði við stofnun þá sem fjallar um byggðaþróunarmál. Fé sjóðsins má m. a. verja til flutningastyrkja, verðuppbóta eða framleiðslustyrkja, til niðurgreiðslu á áburði, til niðurgreiðslu á aðkeyptu fóðri og fleira þess háttar eftir mati n., einnig til að bæta úr tímabundnum skorti búvöru í þéttbýli viðkomandi byggðarlaga, sbr. ákvæði 28. gr. Leita skal álits og tillagna eða umsagnar Búnaðarfélags Íslands, rn. og stjórnar viðkomandi búnaðarsambanda og sveitarstjórnar áður en styrkir eru veittir úr sjóðnum.“

Ég sé ekki ástæðu til að rekja frv. efnislega í heild. Í því voru fleiri ákvæði en það, sem ég áður nefndi í ræðu minni, sem urðu að ágreiningsefni. En hv. þm. geta kynnt sér frv. á þskj. 517, 241. mál frá þessum tíma.

Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., gerir ráð fyrir nokkrum minni háttar breyt. til bóta í anda magnefnds frv.. Meginbreytingarnar eiga þó rætur að rekja til annars frv. sem hér var flutt af allt öðrum aðila og fjallaði um breytt fyrirkomulag á sölu mjólkur og mjólkurafurða. Hafi einhver misskilið það áðan sem fram kom hjá hv. fyrri ræðumönnum, þá voru þessar breytingar ekki í því frv. sem ég er að vitna til og var lagt fram árið 1972.

Þetta frv. var flutt að kröfum neytenda, að því er sagt var. Ég vil taka það fram, að ég tel sjálfsagt að sölufélög bænda komi til móts við neytendur svo sem kostur er, taki mið af breyttum aðstæðum og breyttum búnaði verslana. En það er að mínu mati rétt að neytendur geri sér grein fyrir því strax í upphafi, að það er mjög hæpið, — og ég er ekki alls kostar sammála hv. 1. þm. Suðurl. í því efni, — það er mjög hæpið, að ekki sé meira sagt, að það tákni lægra verð ef horft er til lengri framtíðar. Krafan var ekki síður frá verslunarmönnum, sem telja að með því að hafa mjólkurvörur á boðstólum fáist aukin sala á öðrum vörum, en til þeirra sjónarmiða tek ég minna tillit.

En úr því að framleiðsluráðslögin eru opnuð á annað borð, þá treysti ég mér fyrir mitt leyti ekki til þess að standa að þessum breytingum einum án þess að þar verði gerðar frekari breytingar á. Ég fagna því að vísu, að hæstv. landbrh. lýsti því yfir áðan að ný n. yrði skipuð til þess að taka til meðferðar þessa löggjöf í heild. Þetta tókst ekki hjá þeirri n. sem skipuð var 1971 og nú höfum við árið 1976. Ég tel að í því frv. hafi verið svo brýn hagsmunaleg efnisatriði, að þau þoli ekki bið, enda þótt ég sé bjartsýnn um árangur af störfum hinnar væntanlegu nefndar, þar sem ég tel að þessi atriði, sem ég hef í huga, skipti sköpum fyrir ákveðna framleiðsluþætti í þessum héruðum.

Ég skal fúslega viðurkenna að þær breyt., sem ég hef í huga að inn þurfi að koma, skipta e. t. v. mestu máli í mínu nágrenni eða mínu kjördæmi og þá einkum á sölusvæði Mjólkursamlags ísfirðinga. Þær kunna einnig að skipta máli annars staðar og síðar. Hv. þm. er það vafalaust kunnugt af fréttum, að á áðurnefndu svæði er skortur á nýmjólk og mjólkurvörum. Mjólkurframleiðslan hefur á undanförnum árum stöðugt dregist saman og á s. l. ári nam sá samdráttur 6.2%. Að sama skapi hafa aukist dýrir flutningar frá öðrum landshlutum og þá einkum frá Akureyri. Stopulir flutningar á sjó og ótrygg flugskilyrði orsaka það fyrst og fremst að eftirspurninni er ekki fullnægt. Hér fer sem oft að hagfræðilegar kenningar, þótt studdar séu rökum, standast ekki í raun. Sú skoðun hefur sem sagt heyrst, að ekki skipti máli þótt mjólkurframleiðsla falli niður á þessu svæði meðan nóg sé framleitt annars staðar í landinu. En málið á sér miklu fleiri hliðar. Það er ekki síður alvarlegt fyrir kauptún og kaupstaði á þessu svæði en þá tiltölulega fáu bændur sem þar búa. Þar getur hvorugur án hins verið, hvort heldur er í atvinnu, félagslegu eða menningarlegu tilliti.

Svar við spurningunni, hvað veldur samdrættinum, tel ég að megi finna m. a. í atriði sem ég kom að fyrr í ræðu minni: aðstöðumuninum, verði rekstrarvara langt umfram reiknað vegið landsmeðaltal.

Sem næst einróma álit allra, sem um þá spurningu hafa fjallað hvað verða megi til úrbóta, er að ekkert geti breytt þessari þróun annað en hærra verð á mjólk til þeirra er mjólk framleiða á þessu svæði, m. ö. o. annað verðhlutfall á milli búgreina en almennt gildir. Ég vil taka það fram til að forðast misskilning, að ég tel að sama skráð verð skv. verðlagsgrundvelli verði að gilda um land allt, en að um tímabundnar og staðbundnar aukagreiðslur verði að ræða til þess að hafa áhrif á þróunina, í þessu tilviki þessarar búgreinar á þessu svæði. En til þess skortir allar heimildir í lögum og ég tel brýnt og jafnvel brýnast af því, sem um var deilt, að þetta ákvæði komi inn nú þegar.

Ég vil að lokum láta þess getið, að þeir eru til sem hafa haldið að sér höndum með nýbyggingar og aukningu kúastofnsins þar til séð verður hverjar undirtektir þær hugmyndir fá á Alþ. sem voru boðaðar í frv.frá 1972 og ég drap á áðan. Þar kemur að vísu fleira til, svo sem samgöngur og flutningar, en það er önnur saga.

Ég vona svo, herra forseti, að þetta frv. dafni vel í höndum hæstv. landbn. og það komi þaðan í þeim búningi að ég fyrir mitt leyti treysti mér til að standa að samþykkt þess.