09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er augljóst að deilan við breta er nú komin á nýtt stig og mun hættulegra en áður var, eftir að bretar sendu herskip sín aftur inn fyrir 200 mílna línuna. Það, sem gerist, er að Callaghan utanrrh. breta, sem er harðlínumaður í breska liðinu og mun harðari en Wilson, eftir því sem best fregnir herma, hótar því að skipin fari inn fyrir ef við klippum einu sinni enn, og strax og klippt er stendur hann við þá hótun. Annað kemur ekki til mála þeim megin.

Nú hafa orðið nýir árekstrar á miðunum og eru það raunar atvik sem eru ákaflega áþekk þeim sem leiddu til þess, að það var samkomulag allra fyrir nokkru, að við yrðum að slíta út af því stjórnmálasambandi. Að vísu var þá gefinn frestur — um það má alltaf ræða, hvort það er hyggilegt hverju sinni eða ekki — og meðan á þeim fresti stóð gerðust þeir viðburðir sem urðu til þess að stjórnmálaslitin komu þá ekki til framkvæmda. En ég hygg að langflestir hafi búist við því nú, þegar nálega sams konar atburðir gerast á nýjan leik, að ríkisstj. mundi taka upp þráðinn og grípa nú til þess að slíta stjórnmálasambandinu. Í þess stað er hikað. Og það er enginn vafi á því, að þetta sífellda hik við það sem er almennt talið alvarlegasta skrefið sem við stigið getum á þessu stigi málsins — þetta hik verður til þess að hætt er við að menn fái þá trú erlendis, að íslensku ríkisstj. sé ekki alvara og hún sé að reyna að forðast í allra lengstu lög að slíta stjórnmálasambandinu. Ef svo er, þá er verra en ekki að hafa verið að hóta því og hafa verið að tala um stjórnmálaslit. Þá hefði verið betra að stjórnin segði hreinlega að það væri skoðun hennar að það væri ekki rétt að gera þetta. En eins og búið er að fjalla um þetta mál áður finnst mér að stöðugt hik í þessum efnum muni frekar skaða okkur heldur en hitt.

Nú vill svo til að ákvarðanir, sem utanríkisþjónustan hafði tekið fyrir allmörgum mánuðum um mikla tilflutninga á sendiherrum, eru látnar koma til framkvæmda eins og ekkert hafi í skorist hvað London snertir og Níels P. Sigurðsson er farinn þaðan til Bonn, jafnframt því sem aðrir sendiherrar flytja sig til. Þá hefur Sigurður Bjarnason, sem á að taka við í London, verið látinn koma hingað heim til Reykjavíkur, en ekki fara beint til London. Nú finnst mér að ríkisstj. ætti að segja það á einn eða annan hátt, í fréttatilkynningu, ef ekki formlegri tilkynningu, að Sigurður Bjarnason verði ekki látinn fara til Lundúna fyrst um sinn. Ég held að það væri bókstaflega hlægilegt ef við færum nú að senda nýjan sendiherra sem yrði þá mjög fljótlega að dubba sig upp í kjól og hvítt með allar sínar orður og pípuhatt og yrði sóttur frá Buckingham Palace í gömlum, gylltum vagni og dreginn fyrir drottningu til að færa henni skjöl ráðherra vors og flytja viðeigandi vináttu- og virðingarræður. Ég er hræddur um að ljósmyndararnir í London mundu hafa gaman af því sjónarspili. Það er raunar nógu hlægilegt undir venjulegum kringumstæðum þegar íslendingar ganga í gegnum þessa gömlu hirðsiði. En þetta finnst mér með öllu útilokað eins og ástandið er nú, þá sé best að segja að Sigurður Bjarnason fari ekki til Lundúna fyrst um sinn a. m. k., ekki fyrr en sambúðin við breta hefur batnað. Sú ráðstöfun mundi jafngilda fyrsta skrefinu í áttina að stjórnmálaslitum sem við höfum stigið í fyrri þorskastriðum, þegar dr. Kristinn var kallaður heim og sat hér í Reykjavík mánuðum saman, og er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt að stiga það skref fyrst.

Ég var þeirrar skoðunar þegar dráttarbátarnir réðust inn fyrir 4 mílur, að þá hefðum við átt að kalla sendiherrann heim sem fyrra skrefið af tveim í sambandi við stjórnmálaslitin.

Ég vil að lokum taka undir það, að nauðsynlegt er að halda áfram eflingu landhelgisgæslunnar. Hæstv. dómsmrh. hefur skýrt opinberlega frá nokkrum fyrirætlunum í þeim efnum sem ég vona að verði framkvæmdar sem fyrst. Þetta verðum við að gera til að sýna alvöru okkar og búa okkur undir hvað sem fyrir getur komið. Ef deilan heldur áfram og ekkert lát verður á henni fram yfir 1. maí, þá renna þýsku samningarnir út líka og þá er við þýska togaraflotann að eiga fyrir utan þann breska, og er raunar hætt við því, hvort eð er, að togararnir muni með vorinu og batnandi veðri dreifast meira, þannig að skipakostur okkar mundi reynast ófullnægjandi þegar togurunum verður dreift yfir meira svæði kringum landið. Að sjálfsögðu geta þessi fáu skip okkar miklu frekar beitt sér og unnið saman þegar togararnir eru allir í einum hnapp.