09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði að það væri að áliti ríkisstj. ekki rétt að rjúfa nú stjórnmálasamband við breta og torvelda með því Atlantshafsbandalaginu störfin. Sannleikurinn í málinu er náttúrlega sá, að meginviðfangsefni okkar er að torvelda herskipum Atlantshafsbandalagsins störfin á miðunum hér í kringum land, — störfin við að vernda breska veiðiþjófa. Hvers konar hugklofi það er sem því veldur, að hæstv. ríkisstj. ímyndar sér að hún eigi vini í hópi Atlantshafsbandalagsins í þessari deild okkar, veit ég ekki. Hitt er mér minnistætt, að það var eftir að stofnað var til viðræðna við Atlantshafsbandalagið, eftir að Joseph Luns hafði komið hingað til lands, eftir að hann var byrjaður viðræður við breta á vegum Atlantshafsbandalagsins erlendis, sem íslenska ríkisstj. tók þá ákvörðun í samráði við þingflokkana, utanrmn. og landhelgisnefnd að rjúfa stjórnmálasambandið við breta ef herskipin færu ekki út fyrir. Það var eftir það að þessi ákvörðun var tekin. Nú á, að því er manni skilst vegna þess að umfjöllun þessi á vegum Atlantshafsbandalagsins um landhelgismál okkar stendur enn, — nú á á grundveili þess að hika við að slíta stjórnmálasambandinu, eftir að bresku herskipin höfðu skroppið út fyrir 200 mílurnar svolitla stund og komu síðan rakleitt inn aftur.

Hæstv. utanrrh. fór ekkert dult með það, er hann var inntur eftir því hvað hann teldi að nú ætti að gera þegar herskipin kæmu inn aftur, hann fór ekki dult með þá skoðun sína að vitaskuld hlytum við að slíta stjórnmálasambandinu samkv. fyrri ákvörðun. Það var náttúrlega ekki gert. Enn þá höfum við ekki fengið svör um það, hvaða öfl það voru sem komu til leiðar þeirri grómtæku hugarfarsbreytingu hæstv. utanrrh. sem kemur fram í því að þetta var ekki gert. Líður nú og bíður, og atburðir gerðust á miðunum hérna sem gerðu það að verkum að við ímynduðum okkur að nú yrði beinlínis óhjákvæmilegt að gera eitthvað í málinu, láta a. m. k. í ljós einlægan vilja til þess að gera eitthvað annað en að hneigja sig. Þegar hæstv. utanrrh. var spurður álits á laugardagskvöld í Ríkisútvarpinu á því tiltæki breta að stefna togaraflotanum inn á friðaða smáfiskasvæðið undan Langanesi, þá sagði hann að þetta þætti sér bera vott um lítinn samkomulagsvilja af hálfu breta. Var þetta sagt í alvöru. Var þetta sagt í einhvers konar óskaplegum hálfkæringi eða var þetta kannske tilvitnun í nýfundið áður óþekkt handrit af skopleik eftir Aristofanes, skopleiknum um viðræður aumingjanna?

Herskipin komu. Það var tekin um það opinber ákvörðun af hálfu bresku stjórnarinnar, að nú skyldi ekki látið við það sitja að láta þau skrapa botninn undir friðaða svæðinu við Hvalbak, undan Gerpi, nú skyldu þeir fara inn á smáfiskasvæðið til þess að sýna íslendingum það, að ef þeir mökkuðu ekki rétt í herskipavaldinu, þá skyldu þeir ekki aðeins taka þann fisk, sem við þurfum okkur til lífsframfæris og þeir gætu tekið, þeir skyldu fara og eyðileggja smáfiskaslóðina hjá okkur, uppeldisstöðvarnar, í valdi herskipa NATO, þessarar stofnunar sem fer fram á það við íslensku ríkisstj. núna að spilla ekki tilraunum hennar til þess að leiða landhelgisdeiluna til lykta á þann hátt sem þessari sömu stofnun, sem gerir út herskip á miðin okkar, þóknast.

Hvað ætlar svo ríkisstj. að gera þegar Atlantshafsbandalagið sendir frá sér málamiðlunartill. sem efalaust verður nokkurn veginn mitt á milli breska tilboðsins um 110 þús. tonn og íslenska tilboðsins margáminnsta, endurtekna og afneitaða í senn, um 65 þús. tonn af þorski? Hverju ætlar ríkisstj. þá að svara, þegar stungið verður upp á því að íslendingar hætti þessum ólátum og leyfi bretum að veiða hér 75 þús. tonn á ári? Hvers konar umboð hefur ríkisstj. í fyrsta lagi til þess að leyfa NATO að fjalla um þetta mál og í öðru lagi til þess að svara þess háttar tilboði þegar þar að kemur? Við vitum það flestir, sem sitjum í þessum virðulega sal, að það er yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar sem krefst ekki aðeins þess að ekki verði samið við breta, heldur einnig að sú staða, sem við höfum nú gagnvart bretum í þessu máli, verði notuð til þess að losa okkur úr viðjum óheillasamnings sem gerður var með fláræði í vetur um heimild til handa þjóðverjum til að taka hér 60 þús. tonn af fiskstofnum sem við höfum ekki efni á því að láta af einn einasta ugga. Þennan möguleika eigum við, guði sé lof, þrátt fyrir allt.

Hér hefur verið vikið enn einu sinni að þeim möguleika sem við eigum á því þrátt fyrir allt að þvinga NATO til þess að láta af þessum ránskap á miðunum okkar með því að segja eins og er: Það hefur komið í ljós í þessari deilu að við eigum ekki heima í þessu kompaníi. Það hefur runnið upp fyrir alþýðu þessa lands eftir öll þessi ár að við eflum ekki okkar eigin hag með því að styðja árásaraðilann, styðja þá aðila, sem sækja á miðin okkar og ræna frá okkur lífsbjörginni, heldur segja hreint og klárt: Við segjum okkur úr þessum félagsskap, úr NATO. Við látum ekki þetta hernaðarkompaní hafa herstöð á Íslandi. Hypjið ykkur burt. Við munum af veikum kröftum gera þær ráðstafanir sem okkur sjálfum sýnast til þess að tryggja öryggi okkar á annan hátt en þennan.

Hæstv. forsrh. hefur æ ofan í æ lýst yfir því, að hann muni aldrei fallast á að það verði hótað úrsögn úr NATO, að það verði aldrei með hans vilja hótað af hálfu íslensku ríkisstj. að ameríski herinn verði rekinn úr landi vegna þessa máls. Þessi skoðun hæstv. forsrh. hefur verið áréttuð í postulabréfi sjálfs Morgunblaðsins, Reykjavíkurbréfinu, með yfirlýsingu um að íslendingar láti aldrei þorskastríð hafa áhrif á afstöðu sína í varnarmálunum, „þorskastríð“ — í háðstón — hafa áhrif á sig í varnarmálunum. Hvað er að verja á þessu landi ef ekki lífsbjörg þjóðarinnar, sem hér er. Heitir það herlið með samningi á Íslandi varnarlið með réttu sem lætur sig slíkt engu skipta? Að vísu hefur fólkið leikið sinn leik í þessu máli. Sjálfstæðismenn úr hópi útgerðarmanna og sjómanna á Suðurnesjum og framsóknarmenn höfðu forgöngu um að sýna hvað hægt væri að gera. Þeir fóru inn á Keflavíkurflugvöll, stöðvuðu þar samgöngur við smáútvirki til þess að sýna að við gætum — fólkið í þessu landi — þrátt fyrir deiga ríkisstj. lokað þessari herstöð, gætum sýnt NATO í tvo heimana þegar að okkur væri þrengt.

Auðvitað fordæmdi hæstv. forsrh. þessar aðgerðir, kallaði þær ólýðræðislegar, líklega til þess að kalla yfir þessa þjóð bellibrögð af hálfu kommúnista, svo sem hann gaf í skyn. Framkoma hæstv. forsrh. í sambandi við þessar aðgerðir sjómanna og útgerðarmanna á Suðurnesjum minnti mann óneitanlega á frásögnina í Gerplu af því, hversu fór Alráði konungi þegar erlendur her sótti að landi hans, Englandi. Þá fékk hann jafnan uppsölur stórar og lagðist í rekkju til þess að sleppa við að taka ákvörðun, til þess að geta undir feldi sínum litið þessi árásarmál „alvarlegum augum“, — uppsölur stórar. En þegar fólkið reis upp án tilverknaðar hans eða ríkisstj. til þess að verja Lundúnaborg, þá stóð í honum spýjan.

Ég sagði við umr. um landhelgismálið fyrir jólin í vetur að erfiðust kynni okkur að reynast sú hörmulega staðreynd, að við hefðum á ráðherrastólum eiðsvarna vini óvina okkar í þessu máli. Ef talað er um hina nauðsynlegu samstöðu þjóðarinnar á hættustund, þá er það ljóst mál að hún fæst ekki á meðan við höfum í forsrh.- stóli mann sem dregur hein um egg á hverju okkar sverði, kaðar egg á hverri okkar öxi og brýtur af sköftum öll okkar spjót í þessu máli. Við þurfum að fá nýjan mann í þann stól.