27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

8. mál, námsgagnastofnun

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er með mig eins og hv. síðasta ræðumann, að ég kveð mér hljóðs til þess fyrst og fremst að ræða það frv. sem hér er til 1. umr. Ég vil þó eins og hann lýsa yfir fullum stuðningi mínum við frv. og láta þá skoðun koma fram að ég er þess fullviss að ef það nær að verða að lögum, eins og ég vona, þá muni að því verða mikil endurbót í skólakerfinu.

En ég kveð mér hljóðs til þess að taka mjög sterklega undir meginefni ræðu hv. síðasta ræðumanns sem var það að skólabókakostnaður, sérstaklega í menntaskólum, hefur farið gífurlega vaxandi á undanförnum árum og er orðinn að mjög alvarlegri byrði fyrir þau heimili sem eiga börn í menntaskóla. Það er tvímælalaust rétt, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að þessi kostnaður er óþarflega hár. Það má áreiðanlega með vissum aðgerðum draga mjög verulega úr honum.

Þetta er ekki nýtt vandamál. Ég minnist þess, þegar ég veitti menntmrn. forstöðu, að þá átti ég einu sinni — það er líklega um það bil áratugur síðan — umr. um þetta vandamál við þáv. rektor Menntaskólans í Reykjavík, Einar Magnússon, sem gerði sér algjörlega ljóst að jafnvel þá þegar var hér orðið um mikið vandamál að ræða. Hann mun hafa rætt við samkennara sína í þessum elsta skóla landsins, hvort sem það hefur borið nægilegan árangur eða ekki.

En síðan, á undanförnum áratug, hefur þetta vandamál enn farið vaxandi. Sumpart eru á því eðlilegar skýringar. Menntaskólum hefur fjölgað, sumir hafa fengið sérstök viðfangsefni og hinni gömlu, hefðbundnu deildaskiptingu í menntaskólunum hefur verið gerbreytt á undanförnum árum. Auðvitað hefur þetta kallað á nýjar kennslubækur í greinum þar sem námsefni hefur breyst mjög verulega. Þetta eru eðlilegar skýringar. Viðbótarskýring er sú, að ekki aðeins hefur námsefni menntaskólanna breyst mjög, t. d. á undanförnum áratug, heldur einnig námsefni lægri skólanna, námsefni þeirra skóla sem búa menn undir menntaskólanám, þannig, að nemendur koma nú með annan undirbúning á ýmsum sviðum inn í menntaskólana en þeir gerðu fyrir einum til tveimur áratugum. Það hefur auðvitað valdið því að námsefni í menntaskólunum hefur hlotið að taka breytingum sem þá hafa kallað á nýjar kennslubækur. En það er án efa rétt, sem síðasti ræðumaður lagði megináherslu á, að hér hefur verið um skipulagsleysi að ræða, og þess vegna hefur námsbókabreytingin orðið miklu örari og miklu róttækari en ástæða hefur verið til.

Ég geri mér ljóst að það er ekki við því að búast að menntmrn. geti gefið út neinar fyrirskipanir eða reglur, neinar almennar reglur sem tryggi að slíkt eigi sér ekki stað. Það er mjög eðlilegt að kennarar vilji varðveita heilbrigt sjálfstæði sitt varðandi mat á því hvað sé eðlilegt og hæfilegt námsefni. En engu að síður vil ég taka undir þá ósk hv. síðasta ræðumanns til hæstv. menntmrh. að hann taki þetta mál upp innan rn. og efni til viðræðna við rektora eða skólameistara menntaskólanna um þetta vandamát sem er brýnt og vex frá ári til árs og verður að meira vandamáli með hverju árinu sem líður. En mér er kunnugt um það að milli menntaskólanna er bókstaflega ekkert samstarf um þetta, hvernig vali kennslubóka skuli hagað og hvaða kennslubækur notaðar í hverri grein. Í sömu greinum, þar sem ætlast er til nákvæmlega sama, þar sem gerðar eru nákvæmlega sömu námskröfur, eru notaðar ólíkar kennslubækur, þannig að eigi heimili börn í sitt hvorum menntaskólanum sem læra nákvæmlega sama námsefni í einni grein, þá getum við búist við því að þau þurfi að nota gerólíkar kennslubækur. Þetta er auðvitað ekki gott, ekki heldur vegna heilbrigðs skólastarfs. Sem sagt, ég tek undir þá ósk til hæstv. menntmrh. að hann láti þetta mál til sín taka, þó að ég ætlist ekki til þess af honum að hann geti leyst vandann, en hann gæti stuðlað að því að þeir, sem raunverulega geta leyst hann, skólastjórar þeirra skóla sem hér er um að ræða, séu a. m. k. leiddir saman og bent á það að hér sé um að ræða vandamál sem taka þurfi á.

En til viðbótar því, sem ég hef nú þegar sagt, langar mig til að vekja athygli á öðru vandamáli á þessu sviði, þó að það sé ekki fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis eins og þetta, en engu að síður mikilvægt.

Við þær breytingar, sem orðið hafa á menntaskólakerfinu á undanförnum 1–2 áratugum, að valfrelsi hefur stóraukist, þ. e. a. s. kenndar eru ýmsar greinar sem eru frjálsar kjörgreinar, menn ráða hvort menn stunda nám í þessum greinum eða ekki og eiga kost á að velja á milli margra greina, — við þetta hefur að sjálfsögðu fjölbreytni námsins aukist mjög verulega, en jafnframt er afleiðingin sú að um er að ræða fjölmargar smágreinar sem ráða þarf stundakennara til að annast kennslu í. Það er oft og einatt erfitt að fá sérfróða menn til að annast kennslu í slíkum greinum, enda hefur reynslan orðið sú að mjög verulegur hluti kennslunnar í þessum nýju frjálsu greinum er í höndum manna sem eru ekki stórfróðir á því sviði sem um er að ræða. Mér er kunnugt um það að kennararnir eru látnir algjörlega sjálfráðir um það hvað þeir kenna í þeirri grein, sem þeim hefur verið falið að kenna og námskrá hlutaeigandi menntaskóla hefur gert ráð fyrir. Af eðlilegum ástæðum, vegna kennslustarfa minna við háskólann, hef ég kynnst námsefni í greinum sem þar eru kenndar, svo sem hagfræði og félagsfræði. Ég vil ekki nefna nein ákveðin dæmi um þetta efni, en vil þó segja og hygg að það sé tími til kominn að það sé sagt opinberlega, að ég þekki dæmi þess að námsefnið í menntaskólum, sem kennt er við hagfræði og kennt er við félagsfræði, er langt fyrir neðan það mark sem boðlegt er sem námsefni sem kennt er við hagfræði og félagsfræði. Skýringin er án efa sú að hlutaðeigandi skólastjórar eru ekki, sem er ekki hægt að búast við, sérfróðir á öllum þeim sviðum kjörgreina sem um er að ræða og eiga því ekki annars kost en að leggja það algjörlega á vald kennarans hvað hann kennir undir nafni kjörgreinarinnar. En við svo búið má ekki lengur standa. Það þarf að koma á einhverju kerfi um það hvað kennt er í hverri ákveðinni grein. Þess eru jafnvel dæmi að námsefni í kjörgrein, sem heitir það sama í tveimur skólum, er gerólikt og á satt að segja í sumum tilfellum tiltölulega mjög lítið sammerkt. Þetta getur auðvitað ekki gengið. Þegar síðan stúdentar koma í háskóla og í ljós kemur í prófvottorðum þeirra, að þeir hafa stundað nám í þessari og þessari kjörgreininni, þá kemur í ljós að námsefnið er gerólíkt og í sumum tilfellum svo lítið og svo lélegt að greinin kafnar algjörlega undir nafni. Í þessum efnum þarf að gera breytingu, það þarf að tryggja aukið samræmi og tryggja visst lágmarksgildi námsefnis í greininni.

Það mun hafa verið svo, að í fyrstu reglugerð um Lærða skólann hér í Reykjavík — ég segi frá því til gamans þó að því fylgi í raun og veru líka nokkur alvara — voru ákvæði um það að ekki mátti breyta um námsbækur í Lærða skólanum nema með leyfi stiftsyfirvalda. Þetta mun hafa verið numið úr gildi þegar lærða skólanum var breytt í hinn almenna menntaskóla skömmu eftir aldamótin. Skýringin hefur eflaust ekki verið sú, að með þessu móti væri verið að hugsa um fjárhag nemendanna, þ. e. a. s. að ekki yrði skipt um kennslubók að óþörfu til þess að baka ekki nemandanum óþarfa kostnað. Ég hygg, og það er líka skoðun Einars Magnússonar rektors sem á sínum tíma vakti athygli mína á þessu, að tilgangur stiftsyfirvaldanna með þessari tilskipun hafi verið að tryggja gæði kennslubókanna, kennara væri ekki frjálst að taka upp hvaða bók sem væri, m. ö. o. ekki frjálst að minnka gæði þess námsefnis sem honum væri falið að kenna. Það er þessi hugsunarháttur sem ég held að nú sé orðið fullkomlega tímabært að endurvekja.