09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla, af því að ég var inntur eftir skýringum af hálfu hæstv. utanrrh. á ummælum mínum um þýsku samningana frá því í vetur, að útskýra fyrir honum og öðrum sem á þyrftu að halda, hvað það var sem ég átti við með því að þeir hefðu verið með fláræði gerðir.

Við vitum það býsna margir í þessum sal og fleiri en þm. stjórnarandstöðunnar með hvaða hætti þm. stjórnarflokkanna, sumir hverjir a. m. k., voru handjárnaðir í þessu máli, enda dreifðu þeir því meðal kjósenda sinna úti um land, að því hefðu þeir fallist á þýsku samningana, sem þeir voru þó búnir á fundum um allt land að sverja að ekki yrðu gerðir. að staðhæfa og leggja við drengskap sinn að ekki yrði samið um fiskveiðar fyrir innan 50 sjómílurnar, því féllust þeir á þetta og létu það uppi hér í þingsölunum, að það væri vegna þess að ekki yrði samið við breta. Afsökunin var þessi: Með því að gera samninga við vestur-þjóðverja getum við einbeitt okkur að bretunum, vegna þess að við getum ekki leyft þeim að taka úr þorskstofnunum hjá okkur.

Í sömu andránni og svarið var fyrir það, að samið yrði við breta um 65 þús. tonna afla hér innan lögsögunnar hjá okkur, í sömu andrá og því var lýst yfir að 65 þús. tonna tilboðið stæði ekki lengur, þá voru sendiherra Bretlands úti í Lundúnum og utanrrn. hér að þreifa fyrir sér um samninga við breta. Þetta hefur allt verið með slíkum ólíkindum og óheilindum að enginn heilvita maður með ærlega tilfinningu trúir lengur einu einasta orði sem hæstv. ríkisstj. lætur frá sér fara um þessi mál.

Ég óttast sams konar vinnubrögð í viðræðum við breta nú með milligöngu Atlantshafsbandalagsins eins og notuð voru í þýsku samningunum. Ég óttast að bresku samningarnir muni koma fyrir hv. Alþ. í sömu mynd og þeir þýsku, það verði búið að ganga frá þeim áður og koma sams konar járnum á þinglið ríkisstj. og þá og þau verði borin hér um þingsalina af sömu reisn og með sama árangri.

Ég minnist þess, að það er rétt, það er alveg dagsannað, sem hæstv. utanrrh. sagði, að það var endurtekið æ ofan í æ í sambandi við útfærsluna í 50 sjómílur að herstöðin á Keflavíkurflugvelli, herstöðin á Suðurnesjum og landhelgismálið væru sitt hvort málið. Þetta er alveg rétt. Hér er um tvö mál að ræða, en þó svo náskyld í sínum óskyldleika að í landhelgismálinu hefur það komið fram, sem ýmsir okkar hafa haldið fram í áratugi, að okkur sé ekki vörn, heldur hið gagnstæða af amerísku hersetunni hérna, að við eflum óvini okkar með því að vera í Atlantshafsbandalaginu, að við eflum það herveldi sem til þess er stofnað að beita því gegn fátækum og smáum í þágu hinna auðugu og ríku, til þess að hafa af þeim lífsbjörgina. Og ég spyr aftur eins og ég tæpti á í fyrri ræðu minni: Hvað á ameríski herinn, sem er kallaður varnarlið, með nokkurn veginn sömu heilindum í brjóstinu og hæstv. forsrh. leyfði sér að kalla bresku herskipin og dráttarbátana hérna á miðunum verndarskip, — varnarliðið sem er sams konar varnarlið fyrir íslensku þjóðina og bresku herskipin á miðunum okkar eru verndarskip fyrir íslensku þjóðina, — hvað á þetta varnarlið að verja ef það er raunverulega sannfæring æðstu valdsmanna þessarar þjóðar að aldrei skuli koma til þess að þorskastríð leiði til þess að íslendingar endurskoði afstöðu sína til varna landsins, eins og þessi ameríska herseta er kölluð hérna? Hvað á þetta herlið að verja? Ef við sjáum ekki amerísku hersetuna hér á landi og sókn NATO-herskipanna á miðin okkar núna 1 sömu andránni, í sama tilliti á þessari stundu, ef við treystum okkur til þess að ræða þessa ofbeldisárás, sem við nú sætum, án þess að ræða dvöl ameríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli, þá hygg ég að það mál verði seint rætt.