09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Menn gerast nú stórorðir sumir hverjir hér í hita bardagans, og ekki skal ég blanda mér í þau mál sem hafa kannske fyrst og fremst orðið þess valdandi að menn höggva svo stórt sem raun ber vitni. En ég vil nú fyrst þakka bæði hæstv. utanrrh. og forsrh. fyrir að hafa gert að umræðuefni og svarað fsp. sem m. a. ég lét falla áðan.

Mér skilst á hæstv. utanrrh. að hann sé enn sömu skoðunar og hann lét í ljós í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum. Hann segir að vísu: Ekki er hægt að komast hjá stjórnmálaslitum nema staðan gjörbreytist í málinu. — Og þá er auðvitað spurningin í áframhaldi af þessu: Hvað þarf að gerast til þess að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. há í heild telji að gjörbreyting hafi átt sér stað í málinu? Nú á ég ekki von á því að hæstv. utanrrh. geri ráð fyrir að samningar detti af himnum ofan, sem hæstv. ríkisstj. geti undirskrifað, í sambandi við breta. Líklega meinar hann að það verði þrýst þannig á breta að herskipin verði dregin til baka, það sé það sem menn fyrst og fremst einblíni á og meini. En þetta er svolítið óljóst tal, hvað menn eiga við þegar þeir segja að staðan þurfi að gjörbreytast til þess að stjórnmálasambandinu verði ekki slitið.

Það er misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að ég hafi látið að því liggja að varðskipsmenn hefðu hneigt sig. Ég hef aldrei verið í neinum vafa um það að ef ekki er haldið aftur af varðskipsmönnum, þá eiga þeir í fullu tré við óvininn. Það hefur sýnt sig. Ef ekkert hik er á stjórnvöldum, þá er engin hætta á því að landhelgisgæslan og varðskipsmennirnir þeir standi ekki fyrir sínu í þessum átökum. Bili hlekkur, þá verður það annars staðar en í herbúðum varðskipsmanna sem það á sér stað.

Hæstv. forsrh. sagði, að hugmyndir dómsmrh. um eflingu landhelgisgæslu hefðu fengið jákvæðar undirtektir í ríkisstj., og benti þar m. a. á að nú hefði verið leigð flugvél til gæslustarfa. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef heyrt, er hér um að ræða fyrst og fremst leiguflugvél á meðan flugvélin, sem gæslan á, er í skoðun, þannig að ég vil þá í áframhaldi af þessu spyrja: Er þetta til frambúðar, að tvær flugvélar verði í þjónustu gæslunnar? Er þetta ekki millíbilsástand sem hefur skapast vegna þess að flugvél gæslunnar er í skoðun og er ekki starfhæf? Ef það er svo, þá er þetta engin efling á gæslunni út af fyrir sig eða flugflota gæslunnar. Þarna kemur bara flugvél í stað annarrar sem ekki er í notkun.

Ég skal ekki eyða frekari tíma í að ræða þetta. Ég fagna því að sjálfsögðu sem forsrh. upplýsti hér, að ríkisstj. hafi ekki skuldbundið sig til eins eða neins í sambandi við bið eftir úrslitum þeirra viðræðna sem nú eiga sér stað á bak við tjöldin meðal Atlantshafsbandalagsríkjanna og að hún geti því tekið sínar ákvarðanir hvenær sem er. Ég vænti þess að hún láti ekki langt líða þar til hún tekur afgerandi ákvarðanir í þessu máli.

Bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. komu inn á það stóra spursmál, þeir segja: Við eigum ekki að blanda saman aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og landhelgisdeilunni. Við eigum ekki að krefjast þess að Atlantshafsbandalagið vinni fyrir okkur landhelgismálið. — Ég vil fyrir mitt leyti svara þessu á þann veg: Ég er ekki að segja að Atlantshafsbandalagið eigi að vinna sigur fyrir íslendinga í landhelgismálinu. Það, sem ég á við, er þetta: Við eigum að krefjast þess af því bandalagi, í þessu tilviki Atlantshafsbandalaginu sem við erum aðilar að, — við eigum að krefjast þess, að það komi í veg fyrir að við séum beittir flotaíhlutun herskipa þessa sama bandalags sem við erum aðilar að. Það er eðlileg krafa að mínu viti. Við getum ekki setið undir því að vera beittir flotaíhlutun, herskipavaldi af herskipum þess sama bandalags þar sem við höfum haslað okkur völl innan vébanda. Og þetta er spurningin. Komi Atlantshafsbandalagið í veg fyrir að bretar séu með herskip og flotaíhlutun hér á miðunum, þá vinnum við einir landhelgisstríðið. Við þurfum ekki frekari hjálp til þess. Það er þetta sem a. m. k. ég á við. Aðrir svara fyrir sig.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan að hann minntist þess ekki að í tíð vinstri stjórnarinnar hefði verið á það minnst að það ætti að nota herstöðina eða NATO til þess að vinna sigra í landhelgismálinu. Vel má vera að þessi rök hafi ekki komið upp innan hæstv. þáv. ríkisstj. En það heyrðist þó í stuðningsliði þeirrar ríkisstj., þó að það hafi ekki komið upp hjá hæstv. ráðh. Ef ég man rétt, þá man ég ekki betur en ég læsi það einhvern tíma í viðtali við þáv. hæstv. utanrrh., hinn sama og nú, þar sem hann var um það spurður hvort leitað hefði verið eftir aðstoð varnarliðsins vegna herskipaíhlutunar breta á miðunum, og hann svaraði því, ef ég man rétt, — ég bið hæstv. utanrrh. að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál, — ef ég man rétt, þá man ég ekki betur en hann kvæði nei við þeirri spurningu og hann teldi að slíkt ætti ekki að gera. Ég ítreka það, að ég bið hæstv. ráðh. að leiðrétta ef þetta er rangt munað hjá mér. En það er einmitt þetta sem ég tel að eigi að gera, og nú tala ég auðvitað sem hálfgerður NATO-sinni, og menn líta upp stórum augum, sýnist mér. Ég tala hér ekki sem afgerandi málsvari þess að við séum ekki aðilar að Atlantshafsbandalaginu, þannig að þau orð, sem hæstv. forsrh. beindi til þeirra alþb.- manna eigi ekki alfarið við mig. Ég meina þetta af heilindum, að ég tel að við eigum á því kröfu, meðan við erum aðilar eð þessu bandalagi, að það sjái til þess að við séum ekki beittir flotaíhlutun, herskipavaldi í þessari deilu af þeim ríkjum sem við erum meðlimir með innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta er ósköp einfalt. Og ég ítreka það að síðustu: Það ætti að vera skýlaus krafa íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar að Bandaríkin sjái svo um, að aðildarríki innan Atlantshafsbandalagsins með okkur innanborðs líðist ekki að halda uppi herskipaárásum, vopnaðri íhlutun eða hvað menn vilja kalla það, á sama tíma og við teljumst fullgildir aðilar að þessu bandalagi. Við getum ekki þolað öllu lengur að bretum í þessu tilviki sem meðlimaþjóð Atlantshafsbandalagsins líðist að halda slíkum leik uppi.