09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég veit að hv. 2. þm. Austurl. hefur nýtt þann ræðutíma, sem honum er ætlaður, og mun þess vegna ekki segja nema aðeins örfá orð. Hann taldi, að ég hefði farið rangt með þegar ég sagði áðan í ræðu að fyrrv. ríkisstj. hefði ekki beitt því vopni, sem hér er verið að tala um, að hóta úrsögn úr NATO eða brottflutningi svokallaðs varnarliðs. Ef þetta hefur verið notað í tíð vinstri stjórnar, þá hefur það verið gert að mér fjarstöddum, því að ég minnist þess alls ekki að það hafi verið gert. Hitt má vera og það dreg ég alls ekki í efa, að ýmsir hópar, félagssamtök, hafi haft þessa leið á sinni stefnuskrá. Það var ekki meining mín að fara hér rangt með og þess vegna vildi ég nú koma þessu á framfæri, að ég minnist þess ekki — og endurtek það, að ég minnist þess ekki að fyrrv. stjórn, sem við áttum báðir sæti í, hafi tekið þá ákvörðun að nota þetta vopn í baráttunni við breta um 50 mílna útfærsluna. Ég tel mig muna það, að í sjónvarpsþætti, sem við tókum báðir þátt í, hv. 2. þm. Austurl. og ég, einhvern tíma í vetur, hafi þetta enn borið á góma og þá hafi hann enn staðfest það sem sitt álit að landhelgismálið og svokölluð varnarmál væru aðskilin mál sem ekki ættu að blanda saman. En ég vil ekki hafa þessi orð fleiri, vegna þess að ég veit að hv. 2. þm. Austurl. er, eins og ég áðan sagði, búinn með sinn ræðutíma.