10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það hefur komið fram í svari hæstv, sjútvrh., að Byggðasjóður tók á s. l. sumri lán hjá gengismunarsjóði og endurlánaði til aðila í sjávarútvegi. Ég vildi aðeins veita þær upplýsingar að Byggðasjóðurinn annaðist þessa fyrirgreiðslu þannig, að hann er ábyrgur. Þetta var gert á þann hátt, að lán til einstakra aðila voru ákveðin af viðskiptabönkunum, ekki af stjórn Byggðasjóðs, og afgr. til bankanna og síðan þaðan til þeirra aðila sem hlut eiga að máli.

Þessi lán eru í eðli sínu allt annars eðlis heldur en Byggðasjóðslán, sem eru fjárfestingarlán, lán til viðbótar við lán úr öðrum fjárfestingarlánasjóðum. En þau lán, sem hér er um að ræða, eru raunverulega rekstrarlán sem lánuð eru til þess að breyta skuldum í lengri lán og auðvelda þannig rekstur viðkomandi fyrirtækja.

Ég vildi aðeins upplýsa þetta í tilefni af þeim umr. sem hér hafa farið fram.