27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

8. mál, námsgagnastofnun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það fer fyrir mér eins og þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa stigið í pontuna út af þessu máli, að mér verður tíðræddara um annað efni þess frv. sem hér liggur fyrir, þó að það sé í beinum tengslum við það. Ég vil aðeins taka það fram af eigin raun, að það er ekki aðeins í hinum æðri skólum, sem virðist ríkja — manni liggur við að segja hálfgert stjórnleysi í vali á kennslubókum, heldur ekki síður í sjálfum grunnskólunum, þ. e. a. s. í barnaskólum. Mér er t. d. nær að halda að í ákveðnum greinum — og þá á ég fyrst og fremst við erlend tungumál séu fleiri skólar í Reykjavík sem kenna ekki þær bækur, sem Ríkisútgáfan gefur út, heldur en hinir sem kenna bækur Ríkisútgáfunnar. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hér í Reykjavík eiga sér stað miklir flutningar á milli hverfa, sérstaklega hjá ungu fólki. Og ég hef reynt það sjálfur og fjölmargir mínir jafnaldrar, sem hafa flust á milli skólahverfa, að þurfa að vera með börn sem hafa numið þýðingarmiklar námsgreinar, eins og t. d. stærðfræði, eftir tveimur eða þremur kerfum á jafnmörgum skólaárum, eftir því í hvaða skóla þessi böru hafa numið. Og að sjálfsögðu hafa þau numið ekki aðeins eftir tveimur eða þremur kerfum, heldur eftir tveimur eða þremur kennslubókum.

Mér er einnig kunnugt um að það er orðið allalgengt að skólar — og þá á ég við grunnskóla — fari þess á leit við foreldra barna að foreldrarnir kaupi og borgi úr eigin vasa þær kennslubækur sem grunnskólarnir ætla að láta börn þeirra nema í ákveðnum námsgreinum. Það virðist vera orðið þannig að kennararnir sjálfir ráði því algjörlega, hvaða bækur eru notaðar, og þurfi ekki að leita til eins eða neins með umsögn um valið. Mér er t. d. kunnugt um það af eigin raun að skóli einn hér í borginni eða kennarar við þann skóla töldu að þær tvær bækur í erlendu tungumáli sem Ríkisútgáfa námsbóka kostar útgáfu við — önnur þeirra er íslensk, hin erlend — væru óhæfar til notkunar. Þá var óskað eftir því við Ríkisútgáfuna að þessi skóli fengi að festa kaup á þriðju bókinni og fengi kostnað að hluta greiddan af Ríkisútgáfunni. Svör voru þau að þessi bók væri nú við tilrannakennslu í ákveðnum skólum, það þyrfti sérstakt leyfi hjá Ríkisútgáfunni til að fá þessa bók keypta með sömu kjörum eins og aðrar bækur hennar, þetta leyfi væri aðeins veitt tilteknum skólum þar sem þessi bók væri í tilraunakennslu. Niðurstaðan varð sú að foreldrum skólabarna var sent bréf, þar sem þess var farið á leit við þau, að þar eð bækur þær, er Ríkisútgáfan kostaði, væru óhæfar til brúks, væri vinsamlegast óskað eftir því við foreldrana að þeir heimiluðu börnunum að kaupa fjórðu bókina og greiddu fyrir hana úr eigin vasa. Þetta virðist stangast talsvert á við þann hátt sem maður heldur að hafi verið hafður uppi í skólakerfinu, þ. e. a. s. þar sem skipaðar hafa verið fjölmargar nefndir til þess að semja nýjar og ítarlegar námsskrár í einstökum greinum fyrir grunnskólastigið. .Maður skyldi halda að þessar n. sem leggja ótvírætt mikla vinnu í þessi námsskrárstörf sín, létu frá sér fara einhverjar ábendingar um hvaða kennslubækur ætti að nota til þess að fylla út í þennan námsskrárramma og eftir þeim leiðbeiningum færi svo að sjálfsögðu Ríkisútgáfa námsbóka við bókaval og skólastjórar og kennarar sömuleiðis.

Svo virðist því miður ekki vera, þar sem ég vil enn endurtaka þá fullyrðingu mína að í ákveðnum greinum a. m. k. kenni grunnskólarnir í Reykjavík aðrar bækur en þær sem Ríkisútgáfa námsbóka sér um útgáfu á eða greiðir kostnaðarhlut af. Og ég vil eindregið vara við því að þetta mál sé gefið svona algerlega frjálst, að kennarar geti leikið sér að því án þess að þurfa undir einn eða neinn að sækja að velja sér sjálfir eftir eigin geðþótta, eftir sinni eigin kunnáttu og eftir sínu eigin mati, þessi kennarinn velji þessa bók, hinn kennarinn velji hina bókina og síðan verði nemendurnir að gjalda fyrir það eða njóta þess, eftir því hvernig á er litið, hvernig valið tekst, og foreldrarnir að greiða fyrir, jafnvel þótt mönnum sé sagt að námsbækur á grunnskólastigi eigi að vera nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu.

Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þm. og hæstv. menntmrh. á þessu, að eins og farið er að framkvæma þessa hluti núna, þá gelur það hreinlega ekki gengið.