10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það var aðeins örstutt athugasemd. Ég tel að hæstv. sjútvrh. geti ekki skotið sér undan því að gefa upplýsingar um það, sem hér er um beðið, vegna þess að bankarnir hafi haft með endanlegan frágang á þessum lánum að gera. Í lögunum segir skýrum stöfum: „Sjútvrn. er heimilt að ráðstafa allt að 400 millj. kr. af þessum fjárhæðum“ o. s. frv. Þetta er í hvorum tveggja lögunum, þetta var heimild veitt af rn., og rn. á að standa skil á því með hvaða hætti þessum fjármunum hefur verið ráðstafað. Ef menn gætu vikið sér undan þessu á þennan hátt, þá er í rauninni ekkert annað en að ríkið feli afgreiðsluna einhverjum aðila sem segist svo ekki gefa neinar upplýsingar. Auk þess er svo í lögunum að rn. geti veitt eigendum fiskiskipa bætur vegna tjóns upp á 50 millj. Þetta eru auðvitað fjárgreiðslur sem á að upplýsa um. Ég sem sagt vona að sjútvrh, sjái að honum ber skylda til þess að veita upplýsingar um þessi atriði.