10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að hefja deilur hér um útjöfnun á gengismunarsjóði. En það kom auðvitað fram, þegar gengið var fellt, og hefur komið fram oft áður, að þegar er verið að færa svona gífurlega fjármuni til í þjóðfélaginu, þá ætti það að vera a. m. k. siðferðileg skylda gagnvart alþm. að dreifa upp1ýsingum um hvernig þeim hefur verið ráðstafað alveg út í æsar. Það er atriði sem ég legg áherslu á, þegar það er almannamál að sumir hafa fengið marga tugi milljóna í gegnum þessa „konverteringu“, svo að nemur allt að 100 milljónum, að því er manni er sagt, og það getur ekki verið neitt einkamál fárra manna, hvort sem þeir eru bankastjórar, forstjórar eða forstöðumenn Byggðasjóðs, hvernig svona miklu fjármagni er ráðstafað. Það er siðferðileg skylda gagnvart Alþingi a. m. k. að gera grein fyrir ráðstöfun á gengismunarsjóðnum alveg út í æsar. Það ætti ekki að þurfa pex um það lengi hér á Alþ. Almennar byrðar eru lagðar á almenning sem þessu nemur og við alþm. hljótum að eiga aðgang að því. Byggðasjóður hefur sýnt gott fordæmi jafnan, að hann birtir með sinni ársskýrslu grg. um öll veitt lán. Ég reikna með að ef hann hefur tekið þetta á sig núna, þá komi það einnig fram í tímans rás, en það er til fyrirmyndar. Ég legg áherslu á þessa siðferðilegu skyldu, sem alþm. eiga rétt á, að full grg. eigi að liggja fyrir um ráðstöfun á gengismunarsjóði, svo miklir fjármunir eru hér á hreyfingu.