10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

305. mál, ráðgjafarþjónusta

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin, en harma það jafnframt sem hann sagði, að ekki væri hægt að setja neina reglugerð eða framkvæma neitt í sambandi við þennan kafla á þessu ári. Ég vil hins vegar benda honum á, að það er ekki rétt hjá honum að það þurfi að vinna að framkvæmd í samráði við menntmrn. Það er aðeins um framkvæmd 7. gr. sem kveðið er á, með leyfi forseta, að „fræðsluyfirvöld skulu í samráði við skólayfirlækni veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífsins á skyldunámsstigi í skólum landsins. Einnig skal veita þessa fræðslu á öðrum námsstigum.“

Þarna er að vísu gert ráð fyrir að fræðsluyfirvöld geri þetta í samráði við skólayfirlækni. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í upphafi kaflans um ráðgjöf og fræðslu að landlæknir hafi á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu. Get ég því ómögulega séð annað en að þetta heyri beint undir heilbrrn. Mig langar að koma því hér á framfæri, sem starfsfólk ráðgjafarþjónustu þeirrar, sem nú starfar í Reykjavík, hefur tjáð mér, að greinilega er mjög mikil þörf á þessari þjónustu og þangað koma nú á deildina í hverri viku, þegar opið er, um það bil 20–25 manns að meðaltali. Er þarna mest um að ræða unglinga og ungar konur.