10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

77. mál, jöfnun símgjalda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 82 er fsp. frá hv. þm. Helga F. Seljan og Jónasi Árnasyni sem ég ætla að leyfa mér að svara og upplýsa að því leyti sem fyrir liggur þar um.

Hv. fyrirspyrjandi gerði hér grein fyrir fsp. svo að ég þarf ekki að endurtaka það, eins og ég hafði þó gert ráð fyrir. Þess vegna sný ég mér að svarinu og það verður á þessa leið:

Símgjöld eru í eðli sínu með tvennum hætti: innanstaðarsímgjöld, sem reiknast eitt teljaraskref fyrir hvert samtal, venjulega óháð tímalengd, og langlínusímgjöld milli símstöðva, þar sem gjaldið fer bæði eftir tíma og vegalengd. Síðari ár hefur verið stefnt að því í áföngum að jafna gjaldbyrðina milli gjaldenda innan staða og langlínustöðva. Hefur það verið gert með því að lengja teljaraskrefið úti um land, en fækka þeim skrefum sem eru innifalin í afnotagjaldi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta verður þó ekki gert nema í sambandi við breytingar á gjaldskrá, og eðlilegast er um slíka tilfærslu á kostnaði að koma henni á í áföngum og hlýtur hún því að taka nokkurn tíma. Það er byggt á þeirri meginstefnu við setningu gjaldskrár Pósts og síma að tekjur standi undir rekstrar- og fjárfestingarkostnaði. Verður að gæta þess, ef dregið er úr gjöldum á einum stað, að á móti komi samsvarandi tekjuauki annars staðar.

Síðustu árin hefur verið reynt, er gjaldskrá hefur verið breytt, að færa gjaldskrárbyrðina í vaxandi mæli til, þannig að höfuðborgarsvæðið beri meira en áður af hinum sameiginlega heildarsímnotakostnaði. Við gjaldskrárbreytingar undanfarandi ár hefur skrefafjöldi sá, sem hvert númer á höfuðborgarsvæðinu getur notað án greiðslu, verið lækkaður úr 5.25 í 4 og loks í 3 í ár, í sömu breytingum er gert verulegt átak, þótt ekki sé þar um neitt lokamark að ræða, í lengingu teljaraskrefa í dreifbýli. Voru t. d. á áfengum milli endastöðva og hnútastöðva, sem eru eins konar krossgötur á símaleiðum, mjög víða lengd skref úr 12 í 24 og jafngildir 50% hækkun. Milli hnútastöðva jafngildir lækkunin yfirleitt 20–30%. Með þessari breytingu í ársbyrjun 1975 voru færðar til um 70 millj. kr. af símgjaldabyrðinni af notendum í dreifbýli á notendur á höfuðborgarsvæðinu.

Það má einnig minna á næturtaxtana á langlínuvali, sem komið var á 1972. Var það hálfur dagtaxti frá klukkan 8 að kvöldi til klukkan 8 að morgni og frá klukkan 3 síðdegis á laugardögum til klukkan 8 að morgni á mánudögum. Athuganir Landssímans sýna að símanotendur hagnýta sér þessa ódýru þjónustu í mjög ríkum mæli.

Niðurstaðan er því sú, að nokkuð hefur þegar verið gert. Rétt er að halda áfram á sömu braut og stefna að því að sama verð komist á innan allra símasvæða eftir því sem tæknilega er framkvæmanlegt. Jafnframt er stefnt að því að koma upp tæknibúnaði þannig að símtöl, sem nú reiknast eitt tímabil eða teljaraskref óháð tímalengd, verði merkt með margfeldni á hæfilega löngum viðtalsbilum. Slíkur tækniútbúnaður er til, en kostar verulegt fé og sérfræðingar símans telja að það taki ein tvö ár að koma honum á hér í Reykjavík.

Þetta, sem ég hef rakið, er í samræmi við 1. tölulið þál. sem fsp. fjallar um.

2. töluliður þál. stefnir að því að ná fullum jöfnuði, þannig að jafndýrt verði fyrir fólk í dreifbýli og á höfuðborgarsvæðinu að tala við stjórnar- og þjónustustöðvar í Reykjavík. Það krefst mikillar og dýrrar fjárfestingar í langlínusamböndum, og var á það bent af fyrsta flm. og frsm. þáltill., að þótt slíkt væri markmið, sem stefna bæri að, væri naumast raunhæft að gera ráð fyrir því að unnt væri að stiga það skref að fullu, að jöfnuður næðist, án mikils undirbúnings.

Við þetta vil ég bæta því, að raunverulega hefur ekki átt sér stað nema ein gjaldskrárbreyting síðan ég varð ráðh. þessara mála. Þá var tekinn upp sá jöfnuður sem ég greindi frá áðan. Reyndar var byrjað á því áður, en þá í smærra mæli. En í sambandi við það mál vil ég vekja athygli á því, að í framkvæmdinni kom fram eitt atriði, að í vísitöluútreikningi, sem þá var í gildi, giltu aðeins taxtar á símtölum hér í Reykjavík, en ekki annars staðar á landinu, svo að hækkun þeirra var tekin inn í kaupgjaldsvísitöluna eftir þessa breytingu, en ekki var gert ráð fyrir því af okkar hálfu þegar að þessu var stefnt. Hins vegar vil ég segja það, eins og hefur verið upplýst, að nú er unnið að tæknilegri hlið þessa máls og í næstu gjaldskrárbreytingu verður haldið áfram á sömu braut. Ég vil hins vegar marka þá stefnu, sem ég mun fylgja í þessu efni, og þá er það fyrst að gera jöfnuð innan svæðanna, sem ég tel mikils virði og verulega var gert að siðast, þó að betur megi ef duga skal, í öðru lagi jöfnuð á milli svæðanna, en það verður að hafa í huga að þetta verður að gerast í sambandi við gjaldskrárbreytingu, vegna þess að það er ekki hægt að komast fram hjá því að Póstur og sími hafa ekki aðrar tekjur en þær sem þeir afla. Er það eina ríkisstofnunin sem er látin greiða af sínum framkvæmdum og öðru slíku tolla og skatta til ríkissjóðs, alveg eins og um einkafyrirtæki væri að ræða. Ég er ekki heldur sammála því, að það eigi að hætta framkvæmdum í símamálum og þeir að sitja á hakanum sem ekki njóta nú sjálfvirkra stöðva eða búa við mjög slæm skilyrði vegna þess að línurnar eru orðnar gamlar og slitnar. Þess vegna verður þetta að fara saman, fjárhagur þessarar stofnunar og sú stefnumörkun sem ég hef hér lýst og hef unnið að, að því litla leyti sem ég hef komið fram breytingum á gjaldskrá Landssímans.

Þetta vona ég að nægi hv. fyrirspyrjanda.