10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

77. mál, jöfnun símgjalda

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitti hér, og fyrir þann áfanga, sem náðst hefur, vil ég þó jafnframt taka undir þau orð hans, að betur má ef duga skal. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að í framsöguræðu, sem ég flutti fyrir þeirri þáltill. sem flutt var á vegum milliþn. um byggðamál og nefnd hefur verið í þessu sambandi, gerði ég grein fyrir því, sem n. sá, eftir að hafa kynnt sér þessi mál mjög vel, að um töluverðan stofnkostnað er að ræða til að jafna símgjöld að því leyti sem 2. liður þál. gerir ráð fyrir.

Nú eru hins vegar liðin u. þ. b. tvö ár frá því að þessi till. var samþ., og því get ég ekki annað en tekið jafnframt undir það með hv. fyrirspyrjanda, að gjarnan mætti koma nokkru meiri hraði á þetta mál. Í því sambandi hef ég einnig tilhneigingu til að taka undir það, sem kom fram hjá honum, að nokkur tregða mun e. t. v. ríkja í kerfinu í þessu sambandi. Ég stóð því upp til þess að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti nokkuð sagt okkur um það sem fram mun hafa komið á fundi samtaka fjórðungssambandanna fyrir nokkru, þar sem lagt var til að sett yrði á fót n. með þáttlöku þeirra til þess að skoða á hvern máta þessum málum mætti hraða. Ég vil taka fram fyrir mitt leyti, að það gæti verið eðlileg og æskileg skoðun á þessu máli.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að taka undir það, sem einnig hefur komið hér fram, að fleira þarf að sjálfsögðu að bæta heldur en að jafna þessi — sem ég vil kalla — sjálfsögðu mannréttindi allra íslendinga, að geta með svipuðum kostnaði leitað til þess miðstjórnarvalds sem situr hér í Reykjavík.

Þá þarf einnig að athuga gæði símaþjónustunnar. Það veldur mér sannarlega orðið áhyggjum hve það verður stöðugt erfiðara að ná til dreifbýlisins og lakara samband. Símasambandið slitnar í tíma og ótíma og fylgir því óhemjumikill aukakostnaður og tímasóun.