10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

77. mál, jöfnun símgjalda

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði vonast til þess að geta komist hjá því að taka til máls í þessu máli, gerði ekki ráð fyrir að umræðan gæfi tilefni til þess. En eins og hæstv. ráðh. upplýsti hafa teljaraskref úti á landi aukist úr 12 og upp í 24, orðið um 50% lækkun, hann orðaði það þannig sjálfur og taldi sjálfsagt að höfuðborgarsvæðið bæri meira og meira af heildarkostnaðinum. Ég tel þetta mjög hættulega stefnu sem ráðh. þarna mótar — mótar þó ekki, því að þessi stefna hefur, að mér skilst, verið ríkjandi hér í sölum Alþ., enda held ég að útilokað sé að koma í veg fyrir hvaða till. til hagsbóta fyrir landsbyggðina sem er og kæmi hér fram, þrátt fyrir aðvaranir þm. þéttbýliskjarnans hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það er tvímælalaust eitthvað að í opinberum rekstri þegar þjónustugjöld eru orðin almennt það þungbær fyrir landsbyggðina eða landsmenn alla, að það er þeim um megn að standa undir þeim. Og ég vil vara við því, að áfram sé fundin lausn á sama hátt hvað eftir annað, að auka gjöld á reykvíkingum og á þéttbýliskjarnanum hér á Suðurlandsundirlendinu. Hljóta allir að sjá það, að greiðslugetu og þolinmæði þess fólks, sem býr hér, eru takmörk sett. Það held ég hljóti að vera. Það er á nákvæmlega sama hátt og það virtist hafa verið í tísku um tíma, þangað til á það var bent, að hafa þá stefnu í vegagerð og fleira að gefa út síendurtekið ný og ný skuldabréf sem borgast svo með margföldu verði 10–12 árum seinna og koma ríkissjóði hreinlega á hausinn. Við erum ekki nokkrir menn til að standa undir þeim greiðslum sem við tókum á okkur þegar við gáfum út þau bréf.

Ég bið afsökunar, herra forseti. Ég skal stytta mál mitt og hætta við að tala um það sem ég er með hér skrifað. Tími minn er útrunninn. En ég vil vara við þessari stefnu, sem virðist vera uppi hjá landsbyggðarþm., að jafna kostnað með því að auka álögur á dreifbýliskjarnann hérna. Það er röng stefna. Það verður að finna eitthvað annað. Við lögðum niður viðtækjaverslunina þegar þjónustan var orðin of dýr. Er ekki kominn tími til að gera það sama í sambandi við þjónustu við síma? Einstaklingar geta ráðið við viðgerðir á þeim eins og öðrum rafmagnstækjum.