10.02.1976
Neðri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum nú strax við þessa 1. umr. þessara mála gera grein fyrir meginsjónarmiðum mínum til þeirra. Ég tel að þótt formlega eigi að ræða hér annað dagskrármálið, þá sé þetta svo nátengt að það sé í raun og veru sjálfsagt að tala um bæði málin samtímis.

Eins og hér hefur komið fram bæði hjá hæstv. sjútvrh. svo og öðrum hv. þm., þá er hér um að ræða, má kannske segja, frv. sem til eru orðin vegna óska bæði frá sjómannasamtökunum og samtökum útvegsmanna um endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Það hefur um nokkurn tíma verið ósk a. m. k. sjómannasamtakanna að hér yrði gerð á breyting og a. m. k. megnið af því sjóðakerfi, sem nú er í gildi, yrði lagt niður, og sú ósk mun einnig hafa verið a. m. k. um nokkurn tíma af hálfu útvegsmanna.

Það mun og vera rétt, sem hér hefur verið á minnst, að aðilar, þ. e. a. s. fulltrúar sjómanna og útvegsmanna í þeirri n. sem sjútvrh. tilnefndi á sínum tíma, leggja á það þunga áherslu að þessi frv., sem byggð eru á starfi þeirra og till., fari a. m. k. óbreytt í meginatriðum í gegnum þingið. Er það að sjálfsögðu eðlileg ósk, því að það verður að teljast eðlilegt að í þessu tilviki hafi fulltrúar sjómannasamtakanna og útvegsmanna, sem fjalla um þessi mál, mest um þau að segja. Sem sagt, bæði þessi frv. eru í meginatriðum a. m. k. byggð á till. hinnar svokölluðu sjóðanefndar. Hér er um að ræða að fella niður nokkuð stóran hluta af núverandi sjóðakerfi sjávarútvegsins. Sjálfsagt munu koma fram um það raddir, að þetta skref sé ekki stigið nógu stórt nú, en hér er þó alla vega byrjunin á því, sem allflestir eru, held ég, sammála um, að draga mjög úr þessu sjóðakerfi eins og það hefur verið. Ég er því þeirrar skoðunar, að í meginatriðum sé hér stefnt í rétta átt. Ég hef látið það í ljós áður hér á Alþ., að það bæri að hefjast handa um endurskoðun þessara mála með það sjónarmið í huga að minnka sjóðakerfið og gera það einfaldara í framkvæmd.

Vel má vera og líklegt kannske að nokkur atriði komi upp sem menn verði ekki alveg sammála um, þó að meginstefnan sé talin rétt.

Ég vil t. d. benda á það, að ég veit ekki betur en það sé skoðun sjómannasamtakanna eða fulltrúa þeirra að hér sé aðeins um að ræða byrjunarskref í þeim áfanga að leggja niður framlag í Stofnfjársjóð fiskiskipa, þannig að hér er um bað að ræða að það er lækkað úr 15% í 10% nú. En það er skoðun sjómannasamtakanna a. m. k. að hér sé aðeins um fyrsta skref að ræða í þessum efnum, framhaldið eigi að vera að þetta verði tekið út, þó að ekki sé talið fært að stíga skrefið stærra í bili.

Einnig eru önnur atriði sem sjómannasamtökin annars vegar og útvegsmenn hins vegar eiga eftir að semja um á grundvelli þessara frv. og þá laga, ef samþykkt verða, því að eins og hér hefur komið fram og sjútvrh. tók fram, þá er forsenda þessara frv. sú, að samtök sjómanna og útvegsmanna nái samkomulagi í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir. Það eru sjálfsagt nokkur veigamikil atriði, sem menn kunna þar um að deila og togast á um, og eitt af þeim atriðum verður sjálfsagt það, að eins og fram hefur komið eru hugmyndir uppi um að taka aftur upp það fyrirkomulag að greiða olíukostnað af óskiptu aflaverðmæti. Það var áratuga barátta sjómannasamtakanna að ná því marki, að sjómenn hættu að greiða útgerðarkostnað, og það er enginn vafi á því, að það verður talsvert togast á um það í þessum samningum hvort innleiða eigi þetta fyrirkomulag aftur.

Það er enginn vafi á því, að kröfur sjómanna um endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins hafa verið settar fram í því skyni að sú endurskoðun leiddi af sér hagsbót til handa sjómönnum sjálfum. Á því er sjálfsagt enginn vafi, enda öllum ljóst að það hafa verið óskir og kröfur sjómannasamtakanna að breyting í þessa átt hefði í för með sér bætt kjör sjómönnum til handa. Er talið að þessi breyting, sem hér er um að ræða, lækkun um 4 milljarða í sjóði sjávarútvegsins, geti þýtt um 24% fiskverðshækkun. Og enginn vafi er á því, að sjómenn telja sig eiga að fá nokkuð verulegan hluta til sín úr þeirri hækkun. Aftur á móti er það einnig ljóst, að útvegsmenn eru á annarri skoðun. Um þetta verður að sjálfsögðu togast á í kjarasamningunum og kannske ekki ástæða til þess að ræða það neitt frekar hér.

Ég vil sem sagt láta það koma fram strax nú við 1. umr., að ég lít svo á að hér sé stefnt í rétta átt, hér sé verið að stíga fyrsta skrefið og það hljóti að verða áframhald á þessari braut og hljóti að enda með því að a. m. k. verulegur hluti af sjóðakerfi sjávarútvegsins verði lagður niður. Þá verður a. m. k. að mínu viti að hafa það ríkt í huga, að með slíkri breytingu verður að ætlast til þess að sjómenn beri úr býtum nokkuð verulegar kjarabætur í sambandi við breytinguna og fái með henni nokkuð réttan sinn hlut, sem þeir hafa talið að væri ekki eðlilega stór miðað við ástandið eins og það hefur verið.

Ég sé ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að hafa þessi orð fleiri að sinni. Þó að ég hafi hér lýst samþykki mínu við meginstefnu þessara frv., þá eru að sjálfsögðu í þeim atriði sem ég áskil mér rétt til þess að skoða betur og hugsanlega koma til með að greiða atkv. gegn. En sem sagt, meginstefna þessara frv. er að mínu áliti rétt og átti að geta orðið til þess, ef sæmilega tekst til, að bæta stöðu sjómanna á flotanum, og er vissulega ekki vanþörf á í þeim efnum, a. m. k. á hluta flotans.