11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Þegar mál þetta var til 1. umr. í gær urðu um það fremur stuttar umr. af eðlilegum ástæðum, þar sem unnið var að því eð koma málinu til n. og greitt fyrir því að það gæti fengið hér tiltölulega fljóta afgreiðslu. En ekki hafði mér komið til hugar að það yrði tekið hér fyrir strax daginn eftir, eins og hér er um viðamikið mál að ræða, og það á sérstökum aukafundi, þar sem málið hafði ekki einu sinni verið tilgreint á dagskrá. Ég tel að það sé að vísu sjálfsagt að greiða fyrir því að mál þetta nái fram að ganga, ef það gæti orðið að einhverju leyti að liði í sambandi við samninga um kjaramál á milli sjómanna og útgerðarmanna. En hitt tel ég líka alveg útilokað, að mál þetta verði afgreitt hér á þann hátt að litlar sem engar umr. fari fram um þetta viðamikla mál, allra síst þegar maður heyrir að ýmsir hv. þm., sem meira að segja hafa þó haft aðstöðu til þess að fjalla örlítið um málið í n., kunna ekki skil á undirstöðuatriðum þess máls sem hér er um að ræða. Þá er a. m. k. full þörf á að talað sé svolítið við þá um hvað málið fjalli. En eigi að síður fer eflaust svo að vegna þess hvað málið er komið í mikið óefni, vegna tímaskorts verða menn eigi að síður að stytta mál sitt og fara ekki eins nákvæmlega út í umr. um málið og vissulega væri ástæða til. Eins og hér hefur komið fram, hafa menn rætt allmikið um svonefnt sjóðakerfi að undanförnu, um sjóðakerfi sjávarútvegsins, og að það væri mikil þörf á að breyta þessu sjóðakerfi, án þess þó að gera því ýkjamikil skil hvernig þetta vandamál er í raun og veru vaxið, hvenær það kom upp og hvers eðlis það er. Auðvitað er það rétt, að það eru starfandi á vegum sjávarútvegsins mjög margir sjóðir og eru búnir að vera það lengi. En það hafa ekki staðið neinar og standa í raun og veru ekki enn neinar sérstakar deilur um marga þessa sjóði. Hins vegar hafa staðið alveg frá upphafi eða frá tilkomu viðkomandi sjóða miklar deilur, sem hafa komið t. d. upp við samningaborð milli sjómanna og útvegsmanna í hvert skipti síðan þessir sjóðir voru lögfestir. Það eru miklar deilur um nokkra þessa sjóði.

Sjóður, sem sérstaklega hefur verið deilt um nokkuð mörg ár, er Stofnfjársjóður fiskiskipa sem lögleiddur var árið 1968 þegar tekin var upp sú regla, að vísu með nokkrum breytingum síðar, að greiða skyldi af því fiskverði, sem skipin áttu að fá fyrir upplagðan afla hér innanlands og einnig fyrir seldan afla erlendis, — þá ætti í stórum dráttum — það eru svolitlar breytingar á því — að taka um 10%o af verði þessa upplagða afla og greiða inn á sérstakan sjóð hjá Fiskveiðasjóði, svonefndan Stofnfjársjóð, og skyldi nota þennan sjóð til þess að greiða afborganir og vexti af stofnlánum fiskiskipa. Þá fjárhæð, sem tekin var með þessum hætti, átti að draga frá skiptaverðinu. Það átti að taka af verði aflans áður en aflaverðmætið kom til skipta.

Það gaf auðvitað auga leið þegar þetta var sett í lög, að þá risu sjómenn upp og mótmæltu því kröftuglega og sögðu: Hér er verið að grípa inn í okkar kjaramál. Það er verið að skekkja okkar umsamda grundvöll til kaups. — Og þeir hafa síðan barist á móti þessu allan tímann.

Það er svo sjálfsagt að geta þess, að það var Alþfl. sem hafði sérstaka forustu í því að koma þessum sjóði á. Það er svona til samræmis við það sem hv. þm. Alþfl. sagði hér um afstöðu þess flokks til sjóðakerfisins. En rétt er að taka það fram, að Alþfl. hefur haft alveg sérstaka forustu í því hér á Alþ. að lögleiða þá sjóði sem deilurnar hafa staðið um.

Það hefur sem sagt verið baráttumál í langan tíma hjá sjómannasamtökunum að fá þessu aftur breytt. Í minni stjórnartíð var gerð á þessu talsverð breyting í áttina til krafna sjómanna, en hins vegar náðust ekki fram allar þær breytingar sem þeir heimtuðu. Það var dregið úr greiðslum allverulega, en sem sagt meginefnið stóð þó eftir.

Hinn sjóðurinn, sem deilur hafa staðið um í langan tíma, enn fleiri ár en um Stofnfjársjóðinn, er Tryggingasjóður fiskiskipa sem líka var lögleiddur fyrir forgöngu Alþfl., en auðvitað á ábyrgð þeirrar ríkisstj. sem það gerði á sínum tíma. Um þennan sjóð eru líka búnar að standa deilur í mjög mörg ár, og enginn hefur ábyggilega talað eins mikið á Alþ. og oft gegn þessum sjóði og ég. Þar var um það að ræða, að þessum sjóði var aflað tekna með sérstökum útflutningsgjöldum á allar útfluttar sjávarafurðir, misjafnlega hátt gjald á hinum einstöku útflutningsvörum. En sem sagt, tekna var aflað í þennan sjóð í því skyni að hann ætli síðan að standa undir greiðslum á vátryggingagjöldum fiskiskipa að langmestu leyti. Þetta var auðvitað gert af sömu ástæðum og áður, að hér var verið að taka af óskiptum afla ákveðna fjárhæð. Það var verið að lækka fiskverðið áður en það kom til skipta til sjómanna, og greiða tiltekinn rekstrarkostnað útgerðarinnar. Af þessum ástæðum hafa staðið deilur um þessa tvo sjóði.

Eins og ég sagði hafa þessir sjóðir verið miklu fleiri, og það er rétt að geta þeirra hér rétt aðeins. Þeir sjóðir, aðrir en þessir tveir, sem hafa staðið í alllangan tíma því að Olíusjóðurinn kom miklu seinna, ég vík að honum síðar, — hinir sjóðirnir hafa allir verið minni háttar og um þá hafa ekki verið neinar teljandi deilur.

Einn af hinum eldri þessara sjóða er Aflatryggingasjóður sem á þó í rauninni enn þá lengri sögu á meðan hann hét Hlutatryggingasjóður o. s. frv. Það litla gjald, sem lengst af rann í þann sjóð ásamt sérstöku framlagi úr ríkissjóði á móti, það átti að skapa visst öryggi fyrir því að sjómenn, sem eru hlutarráðnir, gætu fengið hlut sinn greiddan þegar út af bæri, þegar um aflaleysi væri að ræða eða aflabrest. Það hafa ekki verið neinar meiri háttar deilur um þennan sjóð sem slíkan. Deilurnar varðandi hann hafa einvörðungu svo að segja snúist um það hvernig reglum sjóðsins væri beitt. Það hefur stundum þótt við brenna að einstakir útgerðarmenn gætu hagað þannig rekstri skipa sinna að þeir kæmust í það að fá greiðslur úr þessum sjóði vegna aflabrests eftir reglum hans, kannske umfram það sem réttlátt hefði átt að teljast.

Sama er að segja um aðra deild sem síðar kom til við Aflatryggingasjóðinn, svonefnda áhafnadeild. Það er ekki ýkjastór deild heldur á mælikvarða þessara sjóða, en þar var um að ræða sérstaka deild sem fjár var aflað til og kom upp úr samningum milli sjómanna og útgerðarmanna og átti að hafa það hlutverk og hefur haft það hlutverk að greiða hluta af fæðiskostnaði sjómanna, sem þeir höfðu lengi gert kröfu um að fá greiddan. Það er ekki heldur og hafa ekki verið neinar meiri háttar deilur milli sjómanna og útvegsmanna um þessa deild í Aflatryggingasjóði.

Þá hefur einnig verið í lögum í langan tíma minni háttar gjald, sem runnið hefur til Fiskveiðasjóðs, stofnlánasjóðs sjávarútvegsins, og framleiðslugjald sjávarafurða er í sambandi við mat á nýjum fiski upp úr bátum, og síðan smávægilegt gjald sem runnið hefur til Hafrannsóknastofnunarinnar í sambandi við starfsemi hennar og einnig í sambandi við byggingu á síldarleitarskipi og fiskrannsóknaskipi. En allt eru þetta minni háttar gjöld sem engar verulegar deilur hafa staðið um.

Málið hefur staðið þannig, að deilan í allmörg ár um sjóðakerfið hefur staðið um Tryggingasjóð fiskiskipa, en nú er svo komið að þessi sjóður, Tryggingasjóður fiskiskipa, er farinn að hafa tekjur nokkuð á annan milljarð, 1.1 milljarð á ári, samkv. nýjustu áætlunum sem liggja fyrir, af útflutningsgjöldum. Þarna er því um allverulega fjárhæð að ræða, sem tekin er af óskiptum afla og skerðir aflahlut sjómanna, í því skyni að borga einn tiltekinn gjaldalið fyrir útgerðina.

Svo er Stofnfjársjóðurinn, en nú er hann orðinn svo stór að talið er að tekjur hans mundu vera samkvæmt gildandi lögum á einu ári í kringum 3000 milljónir eða 3 milljarða kr. sem líka eru teknir af óskiptum afla og skerða þar af leiðandi aflahlut sjómanna.

Deilan hefur sem sagt staðið um þessa tvo sjóði. Svo kemur sá þriðji til, sem er nú þeirra stærstur og mestur, en það er Olíusjóðurinn sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir að ég hafi stofnað og rök fyrir því að til þessa sjóðs hafi verið stofnað hafi verið þau, að hinn nýi togarafloti landsmanna gæti ekki staðið undir verðhækkun á brennsluolíu. Allt er þetta eintómur þvættingur og vitleysa. Hið sanna er það, að lög um Olíusjóðinn eru ekki sett fyrr en í tíð núv. ríkisstj. seinni hluta ársins 1974 og síðan aftur með breytingum á árinu 1975, En það, sem hafði gerst í minni ráðherratíð í sambandi við olíuniðurgreiðslu, það er rétt að rekja hvað þar gerðist.

Það er rétt, að við fiskverðsákvörðun í janúarmánuði árið 1974, þegar sjómenn og útvegsmenn og fiskkaupendur í landinu höfðu komið sér saman um fiskverð og búið var að ákveða loðnuverð í landinu og verðbreyting á loðnu hafði orðið frá 70–90% hækkun, af því að talið var að rekstrarskilyrði væru mjög hagstæð hjá þeim sem framleiddu loðnuafurðir, þá voru allir aðilar sem stóðu að þessum samningum. Þeir voru sammála um að verðhækkunin sem orðin var með þeirra samkomulagi á loðnu, væri svo mikil að það gæti verið beinlínis hættulegt að hafa þá verðhækkun öllu meiri, miðað við þá verðhækkun sem menn höfðu komið sér saman um í sambandi við aðrar fisktegundir, enda var það svo, að þrátt fyrir þessa hækkun á loðnuverðinu frá 70–90% varð mikið fjármagn eftir sem átti eigi að síður að takast af loðnuframleiðendum í landinu og leggjast inn á Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins til geymslu. Það skipti nokkrum hundruðum millj. kr.

Þegar þessi mál stóðu svona komu aðilar í Verðlagsráði sjávarútvegsins, þ.e. a. s. fulltrúar sjómanna og fulltrúar bátaeigenda, sér saman um það að vegna fyrirsjáanlegrar hækkunar á olíuverði, sem þá blasti við, í upphafi árs 1974, þá sæktu þeir um heimild til þess að af áætluðu framlagi, sem átti að leggjast inn í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins af loðnuafurðum, eftir að loðnuafurðirnar höfðu hækkað svona mikið í verði, mætti taka 225 millj. kr. til þess að halda óbreyttu verði á gasolíu til fiskiskipaflotans, ekki bara til stóru togaranna eða annarra togara, heldur til fiskiskipaflotans alls. Á þetta var fallist sem samkomulag á milli þessara aðila, að þessi háttur skyldi á hafður. Það var sem sagt minnkuð sú fjárhæð sem annars átti að leggjast til geymslu í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins af loðnuafurðum. Eftir að loðnuafurðirnar höfðu hækkað miklu meira en aðrar afurðir, þá var fallist á að taka þessa upphæð og lögum var hér breytt í samræmi við þetta, að þessi fjárhæð skyldi ekki renna í Verðjöfnunarsjóðinn, heldur ganga til niðurgreiðslu á olíu, 225 millj. kr. áætlað. Það er rétt, á þetta var fallist af mér sem sjútvrh. á þessum tíma og af ríkisstj. á þeim tíma og staðfest hér á Alþ. Það má auðvitað segja það — það er alveg rétt — að þetta hafi verið upphafið að því að farið var inn á þá braut að greiða niður verð á olíu. En það var vitanlega grundvallarmunur á þessu og því sem síðar var gert með lögum frá Alþ. og núv. hæstv. sjútvrh. lagði hér fyrir og staðfest var á Alþ. 19. des. 1974, en þá er ákveðið að stofna sérstakan Olíusjóð fiskiskipa og þá er ákveðið að afla þeim sjóði tekna með almennu útflutningsgjaldi af öllum sjávarafurðum. M. ö. o.: það var settur upp sjóður sem átti einvörðungu að hafa tekjur frá sjávarútveginum og síðan átti að taka þessar tekjur, sem voru teknar af sjávarútveginum sjálfum, enginn annar borgaði neitt í sjóðinn, og dreifa þessum tekjum aftur út til sjávarútvegsins í formi þess að greiða niður olíu. Með þessari löggjöf var í fyrsta skipti stofnað til Olíusjóðs sem vitanlega hlaut að leiða til stórkostlegra vandræða. Á þetta benti ég hér í umr. margsinnis og reyndar fleiri en ég sem þá voru á móti þessari lagasetningu. Við bentum m. a. á það, sem þá vorum á móti þessu, að hér væri um það að ræða að byggja upp feiknalegt millifærslukerfi, því að ef þetta ætti að koma að verulegu gagni yrði að koma fjármagn einhvers annars staðar frá. Það er rétt, þetta gat að einu leiti komið að gagni fyrir útgerðina í landinu. Það var að því leyti til, að það var verið að skerða hlut sjómannanna með því að taka þetta af óskiptum afla. Á þann hátt mátti segja að sjómenn, sem voru ráðnir upp á aflahlut, borguðu raunverulega í þennan Olíusjóð, einhvers staðar á milli 40 og 50%, en útgerðarmennirnir sjálfir borguðu hinn hlutann, á milli 50 og 60%.

Síðan gerðist það á næsta ári á eftir, að núv. hæstv. ríkisstj. flutti á nýjan leik annað frv., enda kom þá til önnur gengislækkun. Þá var enn lagt til að auka framlegið í Olíusjóð og stækka hann upp í það sem talið er að hann sé eftir núgildandi reglum, rétt í kringum 3.2 milljarða kr. Það er sem sagt tekin af útgerðinni í landinu í þennan sjóð fjárhæð sem nemur 3.2 milljörðum kr., og upphæðinni er síðan deilt út til niðurgreiðslu á olíuverði. Afleiðingarnar urðu tvennar: Í fyrsta lagi, að það var verið að taka af sjómönnum verulegan hluta af því sem þeir töldu sig eiga í brúttó-aflaverðmæti. Og í öðru lagi var verið að taka upp millifærslukerfi sem hlaut að leiða til þess, að sumir aðilar í útgerð meðal útgerðarmannanna sjálfra hlutu að borga miklu meira en aðrir. T.d. þeir sem fiskuðu mikið, þeir borguðu eðli sínu samkv. meira en hinir, sem fiskuðu lítið, til þess að verðlækka olíu, þó auðvitað allt miðað við það, að það getur verið mjög breytilegt í hinum einstöku útgerðargreinum, hversu mikill olíukostnaður er miðað við endanlegt útflutningsverð þeirrar vöru sem þeir framleiða.

Það er auðvelt fyrir alla hv. þm. að kynna sér þær umr. sem hér fóru fram þegar lögin um Olíusjóð voru sett. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var einn af þeim sem töluðu þar allmikið og auðvitað á alveg sama hátt og ég geri nú, þegar hann varaði við setningu þessara laga um Olíusjóð, þó að þetta hafi ruglast svona í kollinum á honum nú, að það hafi verið ég sem hafi sett upphaflega lögin um Olíusjóð. Minn hlutur í þessum efnum er ekki annar en sá sem ég hef greint, að við féllumst í janúarmánuði 1974 á þá till. sem bæði fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna höfðu komið sér saman um og fiskkaupendur féllust á, að framlagið til Verðjöfnunarsjóðs af loðnuafurðum yrði þetta miklu minna sem ég hef greint frá og rynni til þess að verðlækka olíu á vetrarvertíðinni. Lengra náði það ekki.

Það var svo í tíð núv. stjórnar og núv. hæstv. sjútvrh., að meginefni till. hans í sambandi við gengislækkanirnar tvær, sem samþ. voru, var einmitt að stórefla þessa umdeildu sjóði sjávarútvegsins. Till. hans voru um að gera Olíusjóðinn svona gífurlega stóran og algjörlega almennan, þannig að öll útgerðin í landinu varð að borga í sjóðinn og öll útgerð landsmanna gat fengið greitt úr sjóðnum. Og hann lagði einnig til að framlögin í hinn umdeilda Stofnfjársjóð, sem greiðir afborganir og vexti af fiskiskipum, yrðu hækkuð um þriðjung, úr 10% upp í 15%. Auk þess lagði hann svo til og var hér samþ. að stórhækka framlögin til Tryggingasjóðsins. Málin eru því ofur auðveld og skýr fyrir þá sem þekkja hér til. að ofvöxtur í alla þessa sjóði varð í tíð núv. ríkisstj. og fyrir hennar forgöngu. Hún ákveður þetta og þarf að samþ. það hér á Alþ. í andstöðu við stjórnarandstöðu og gegn hennar atkv.

Auðvitað mótmæltu svo sjómannasamtökin í landinu þessari lagasetningu allri.

Þegar menn höfðu haldið þessu áfram um hríð fóru auðvitað að koma betur í ljós þeir annmarkar á þessu kerfi sem við höfðum verið að benda á, að hér væri farið inn á svo hroðalega millifærslu að það hlyti að koma einnig í höfuðið á útgerðarmönnum sjálfum. Og það hefur auðvitað komið fram. Þá varð það sem sjómenn tóku til sinna ráða. Þeir urðu svo óánægðir með sinn hlut í málinu að þeir grípa fram fyrir hendur á öðrum, sigla flota sínum í land og segjast ekki fara út á veiðar aftur nema þeir fái einhverja tryggingu fyrir því að þetta sjóðakerfi verði tekið til endurskoðunar. Og því var heitið, að sjóðakerfið skyldi tekið til endurskoðunar.

Nú stöndum við hér frammi fyrir áliti þeirrar n. sem hefur unnið að endurskoðuninni. Auðvitað komu fram í þessari n. mjög skiptar skoðanir og þær eru enn mjög skiptar á milli aðila um einstaka meginþætti málsins. En þar virðast þó allir vera á því máli, að úr því sem komið er beri að reyna að draga úr sjóðakerfinu, minnka það, það sé orðið allt of mikið.

Menn sjá auðvitað mikla annmarka á því að ætla að stiga út úr öllu sjóðakerfinu í einu lagi. Það sé ég líka. Ég býst við að það sé nær óframkvæmanlegt. Ég tek líka undir það með hæstv. sjútvrh., að ég dreg líka mjög í efa að það sé rétt að leggja alla þessa sjóði niður, þessa gömlu sjóði, sem ekki hafa verið umdeildir, og minni sjóði. Það er ekkert höfuðatriði og satt að segja mjög vafasamt að leggja suma þeirra niður. En það eru þessir eiginlegu millifærslusjóðir sem deilan hefur staðið um. Ég álít að það sé mikið þarfaverk að vinna að því að draga úr þeim og leggja þá niður. Það hefur lengi verið skoðun mín að Tryggingasjóðurinn sé ranglega upp byggður og hann íþyngi útgerðinni í landinu þegar allt er saman talið. Ég hef margsinnis túlkað þessa skoðun. Á meðan ég var ráðh. beitti ég mér fyrir því að reyna að fá fram samkomulag við aðila í sjávarútvegi um það að gera breytingar á þessu kerfi, skipaði sérstaka n. til þess, en því miður höfðu útvegsmenn ekki þá framsýni þá að geta fallist á breyt. á lögunum og hótuðu öllu illu ef lögunum yrði breytt án samkomulags við sig. Af því hikaði ég við að fara í deilu við þá frekar um málið, þó að ég margítrekaði það sem mína skoðun að vátryggingakerfið, eins og það væri upp byggt með þessum Tryggingasjóði, væri orðið afar óheppilegt. Og ég stóð gegn því að þessi sjóður héldi áfram að vaxa.

En þegar núv. ríkisstj. tók við, þá var stefnunni aftur snúið við og tekið upp á því að efla þennan sjóð, stórauka hann frá því sem hann var með auknum útflutningsgjöldum. Sem sagt stóraukin millifærsla í sambandi við greiðslur á vátryggingagjöldum.

Sama er að segja um hina sjóðina. Það má ýmislegt segja um Stofnfjársjóð fiskiskipa. Hann er ekki að mínum dómi að öllu leyti slæmur sjóður. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að slíkt innheimtukerfi eins og þar er byggt upp geti átt rétt á sér gagnvart útgerðarmönnum, þ. e. a. s. að ákveðinn hluti af aflaverðmæti skipanna sé tekin til tryggingar því að útgerðarmenn standi skil á afborgunum og vöxtum. Hinu verður aftur ekki neitað, að það kemur upp ágreiningsmál á milli sjómanna og útgerðarmanna hvort hægt sé að draga slíka upphæð af aflaverðmætinu áður en til skipta kemur. Það hlýtur að vera samningsmál þeirra á milli.

Nú er sem sagt lagt til að stíga skref í þessu sjóðavandamáli, og það er býsna athyglisvert hvað lagt er til sem fyrsti áfangi til að komast út úr þessu sjóðakerfi. Það er lagt til að minnka vátryggingakerfið um ca. helming, alveg öfugt við það sem núv. ríkisstj. hafði gert, þar sem hún var alltaf að auka það. Það er lagt til að afnema alveg olíusjóðskerfið sem hún hefur alveg byggt upp og á þessum alranga grundvelli, að ætla að skattleggja alla útgerðina í landinu til þess að greiða svo fyrir hana allan tiltekinn kostnað, sem sagt að fara þarna inn á hreint millifærslukerfi á milli aðila.

Hitt var og er auðvitað allt annað. Ef upp kemur að ein grein í sjávarútveginum býr við slíka afkomu að fært þykir að skattleggja hana án þess að á henni sé níðst á nokkurn hátt, þá er allt annað hvort það er gert, að taka slíkan kúf af og ráðstafa í þágu sjávarútvegsins almennt. Það er allt annað mál. Það er alveg gjörólíkt kerfi. Mér er alveg ljóst, að ef t. d. sá grundvöllur, sem lagður var við ákvörðun loðnuverðsins í byrjun ársins 1974, hefði staðist, eins og menn trúðu þá á, þegar sú verðlagning fór fram, og ekkert hefði verið látið renna af þessu fé í Verðjöfnunarsjóð, þá hefðu auðvitað allir þeir, sem fengust við framleiðslu á loðnu, lent í gífurlegri skattlagningu til ríkisins og mikið af þessu fé hefði farið þangað. Það hefði verið skattlagt eigi að síður.

Nú er sem sagt þetta lagt til, að minnka Tryggingasjóðinn um helming, leggja Olíusjóðinn fullkomlega niður og draga úr framlagi í Stofnfjársjóð, að forminu til um þriðjung, úr 15% niður í 10%, en það verður ekki í reyndinni alveg svo mikið vegna þess að þessi 10%, sem nú er lagt til að eigi að renna í Stofnfjársjóð, reiknast af öðru fiskverði en 15% reiknuðust áður. Þarna er þó um að ræða talsverða minnkun á Stofnfjársjóði.

Ég hef með afstöðu minni til málsins lýst því yfir, að ég er samþykkur því að stefna að því að draga úr þessu sjóðakerfi. Ég er samþykkur þeim till., sem hér liggja fyrir, sem áfanga í þessum efnum, að minnka sjóðakerfið á þann hátt sem hér er lagt til. Þannig er ég sammála meginefni frv. að þessu leyti til. En ég hef bent á það, að sú della, sem upp hefur risið í sambandi við sjóðakerfið, er ekki leyst með þessu frv. Deilan stendur eftir, því að megindeilan hefur alltaf snúist um það og snýst um það enn, hvernig á að fara með þá fjárhæð, sem dregin er úr sjóðakerfinu og á nú að setja út í fiskverð, hvernig á að fara með þá fjárhæð í skiptum á milli útgerðarmanna og sjómanna. Ef það gerist nú í kjölfar þessara breytinga á sjóðakerfinu að fiskverð hækkar almennt um 24%, eins og talið er að það geti gert, þá gefur auðvitað alveg auga leið út frá því, sem áður hefur gerst í þessum málum, að sjómenn ætlast til þess að fá aflahlut úr þessari fiskverðshækkun líka. En hitt er jafnaugljóst, að útvegsmenn, sem hafa fengið alla þessa fjárhæð til sín gegnum sjóðakerfið, vilja láta fiskverðið hækka út af fyrir sig, en gera um leið aðrar ráðstafanir til þess að sjómenn fái ekkert af þessari fiskverðshækkun. Um það snýst vandinn nú í dag við samningaborðið á milli sjómanna og útgerðarmanna. Ef þeir ná samkomulagi um það, hvernig þeir skipta þessari fiskverðshækkun sín á milli, þá hefur þetta náð fram að ganga og er leyst a. m. k. í bili. En nái þeir ekki heldur samkomulagi nú í sambandi við sína kjarasamninga um þetta atriði, þá kemur að því, sem hæstv. sjútvrh. sagði í framsögu fyrir málinu í gær, að hann segir að frá sinni hálfu sé sá fyrirvari í sambandi við þessi frv., að því aðeins geti þau tekið gildi að samkomulag verði á milli sjómanna og útvegsmanna í kjarasamningunum um skiptingu á þessum fjárhæðum. Aðalvandamálið, sem deilurnar hafa staðið um, er enn óleyst þrátt fyrir þessar breytingar á sjóðakerfinu. Ef dregið yrði úr sjóðakerfinu eins og hér er lagt til, þá mundi hins vegar ýmislegt af þeim millifærsluvandamálum, sem upp hafa komið á milli hinna einstöku greina í sjávarútveginum, a. m. k. minnka, og að þessu leyti til er hér stefnt í rétta átt að mínum dómi.

Ég vil því segja það, að ég vil nú vænta þess að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson láti leiðrétta þá vitleysu sem hann fer með í sínu nál. Og reyndar ætti hann að sjá sóma sinn í því líka að leiðrétta það, því að ég sé þá hvaðan það er komið, það sem birt hefur verið í blöðum á Ísafirði nýlega alveg í sömu átt. Hann ætti þá að leiðrétta það líka, því að þetta er með öllu rangt, að ég hafi staðið fyrir því að lög hafi verið sett um Olíusjóð. Það er rangt. Og það er líka rangt, að sú niðurgreiðsla, sem ég átti aðild að eða samþ. á sínum tíma, hafi verið rökstudd með einhverjum sérstökum vandræðum togaraflotans. Þar var um það að ræða að allur fiskiskipaflotinn fékk notið þessarar niðurgreiðslu á olíuverði, sem fékkst með því að taka tiltekna fjárhæð af loðnuafurðunum í það skiptið.

Hitt skal ég líka segja, að ég er ekki fyrst og fremst að ásaka núv. hæstv. sjútvrh. fyrir það hvernig þetta sjóðakerfi hefur vaxið. Það hefur eðlilega komið upp vegna vandamála sem upp komu í sambandi t. d. við gífurlega hækkun á olíu og hlutu að trufla mjög allan útgerðarrekstur, nema þá að verulegar breytingar yrðu í kjarasamningum. Það voru auðvitað ástæðurnar. Og svo eins og alltaf þegar miklar gengisbreytingar eiga sér stað, þá hefur margsinnis áður verið gripið í að gera raunverulega með lögum hreyfingu á hinni eiginlegu skiptaprósentu sem um hefur verið samið á milli sjómanna og útgerðarmanna. Ástæðurnar eru þessar. En hann stóð að því, eins og hans ríkisstj„ að framkvæma þessar gengisbreytingar og fylgdi því á eftir á þennan hátt með því að byggja upp þennan sjóð á þessum grundvelli og gera hann svona stóran og aðra sjóði svona stóra eins og ég hef verið að lýsa.

Ég vildi að þetta kæmi hér skýrt fram vegna þess að þeir, sem hafa staðið að því að samþ. hér allar reglur varðandi sjóðakerfið frá upphafi, eiga að standa við þær samþykktir síðar og ekki reyna að fela sig á bak við neina aðra og segja að allir aðrir hafi staðið að þessu. Það er ekki rétt. Það var rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði um eina greiðslu sérstaklega sem hann nefndi og ég stóð að, og það var að setja sérstök lög um það, að tiltekinn tíma skyldi 1% af verðmæti útfluttra sjávarafurða renna í Fiskveiðasjóð honum til eflingar með því skilyrði að ríkissjóður legði jafnmikið fjármagn á móti til eflingar Fiskveiðasjóði. Þetta var í sambandi við uppbyggingu flotans í landinu. Það er rétt, þetta var gert. Og auðvitað var það líka rétt, að þessi fjárhæð verkaði á óbeinan hátt á skiptagrundvöll á milli sjómanna og útgerðarmanna. En ég hafði ráðgast við samtök sjómanna um þetta og þau mótmæltu þessu ekki. Þau höfðu það mikinn áhuga á því að hægt væri að standa að uppbyggingu fiskiskipaflotans að þetta var gert. Gjaldið var sett til tiltekins tíma. Núv. hæstv. sjútvrh. hefur síðan beitt sér fyrir því að halda þessu gjaldi áfram, og ég er honum alveg sammála um það. Ég álít að verkefni Fiskveiðasjóðs hafi verið með þeim hætti og séu þannig að það hafi verið fullkomlega eðlilegt. En að öðru leyti er það svo um hina umdeildu sjóði, að ég tel að ég hafi ekki tekið nokkurn tíma þátt í því, hvorki að setja um þá lög né heldur að efla þá, heldur þvert á móti. Ég hef einmitt varað við þessum sjóðum og bent á að það ætti að fara aðrar leiðir.

Í þessu frv., eins og það liggur fyrir, eru svo aðeins minni háttar atriði önnur sem ég hef hnotið um, af því að ég hef tekið hér fram að ég er samþykkur meginstefnu frv., þó að ég geri mér grein fyrir því að deilurnar á milli útgerðarmanna og sjómanna, sem tengst hafa sjóðavandamálinu, eru ekki leystar. Þær eru annars staðar til úrlausnar nú. En þau minni háttar atriði, sem ég hefi við skyndilestur strikað við, eru þessi m. a., að ég tek eftir því að sú nýja skipting á útflutningsgjaldinu, sem upp á að taka samkv. frv., gerir ráð fyrir því að Aflatryggingasjóður fái nokkru meira fé en hann mundi fá samkv. núgildandi reglum. Það er gert ráð fyrir því, að samkv. frv. geti hann fengið 500 millj. kr., almenna deildin, í tekjur, á móti 461 millj. samkv. núgildandi reglum. Ég sé nú ekki ástæðu til þess arna og hef hvergi séð bein rök fyrir því að þetta skuli vera gert. Þessu er smeygt hér inn á sama tíma og verið er að draga úr vexti sjóðakerfisins. Og þó að það hafi ekki verið aðaldeilur um Aflatryggingasjóðinn, eins og ég hef bent á, þá sé ég enga ástæðu til þess að í fylgd með þessu frv. sé verið að auka framlögin í þennan sjóð. Og það er ekki aðeins hin almenna deild Aflatryggingasjóðs, heldur einnig áhafnadeildin, sem greiðir hluta af fæðiskostnaði, það er gert ráð fyrir því að hún fái 590 millj. kr. samkv. frv., en 554 millj. samkv. núgildandi lögum. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess arna. Ég hef lýst því yfir margsinnis áður að ég er persónulega á móti þessari deild. Ég tel að hún sé mesta vandræðadeild, vegna þess að þarna er farið að reikna út fæðiskostnað á skipum eftir því, hvað menn fiska mikið, og greiða allverulega upphæð úr sjóðnum á þeim grundvelli, sem ég tel afar vitlaust og óheppilegt. Þarna er um millifærslukerfi að ræða, og ég er því lítið glaður yfir að sjá það, þó að hér sé ekki um stóra upphæð að ræða. Hitt veit ég mætavel, að vegna þeirra samninga, sem sjómenn og útvegsmenn hafa gert um greiðslu á fæðiskostnaði, gerir hvorugur þeirra nú athugasemd við að halda þessu áfram. Þeir eru ásáttir um þetta. En við getum haft okkar skoðun á því, hvort kerfið er rétt.

Þá er einnig minni háttar atriði, að hér er lagt til að samtök sjómanna og útvegsmanna, sem hafa fengið örlítinn hluta af útflutningsgjaldinu til síns rekstrar, til sinnar starfsemi, það er verið að gera ráð fyrir því að þetta fé, sem rennur til þessara samtaka, og hefur satt að segja að mínum dómi alltaf verið heldur hæpið að þessi samtök fengju fé með þessum hætti, — það er verið að gera ráð fyrir því að samtökin fái nú samkv. frv. 18 millj. kr., en hefðu ekki fengið samkv. gildandi reglum nema 13 milli. kr. Ég er fyrir mitt leyti ekki með þessu. Ég álít að það hefði mátt líta fram hjá því ef það hefði verið það sama og áður, en ég sé ekki ástæðu til þess fyrir mitt leyti að hækka það. Fremur hefði átt að draga úr því. Auk þess eru svo þar gerðar vissar breytingar sem ég veit ekki hvernig verður tekið af viðkomandi aðilum, því að þessar tekjur hafa runnið til Landssambands ísl. útvegsmanna annars vegar, en hins vegar hefur gjaldið runnið til Sjómannasambandsins og Farmanna- og fiskimannasambandsins og Alþýðusambandsins að því leyti til sem það er allsherjarsamtök allmargra félaga sem hafa með sjómannamál að gera og eru ekki í Sjómannasambandinu. En nú er gerð sú breyting á, að þetta skuli ekki renna til Alþýðusambandsins lengur, heldur skuli það renna til Alþýðusambands Austurlands og Alþýðusambands Vestfjarða. Það má vera að þessir aðilar hafi verið eitthvað óánægðir með skiptinguna á þessum fjármunum frá Alþýðusambandinu, en þarna er allt í einu tekin upp regla um það, að skipta skuli þessum peningum til annarra aðila en verið hefur. Ég segi það líka, ég tel að það hafi verið heldur hæpið að fara að taka það upp í þetta frv.

Þá tek ég eftir því, að í till. eða í grg. þessarar endurskoðunarnefndar er lagt til að Fiskimálasjóður verði lagður niður eða sameinaður Fiskveiðasjóði, og síðan er gert ráð fyrir að þær tekjur, sem Fiskimálasjóður hefur haft, renni til Fiskveiðasjóðs. Eins og ég sagði í umr í gær, er ég alveg á móti þessari breyt., tel hana ekki rétta. Ég tel að þessar litlu tekjur, sem Fiskimálasjóður hefur haft, það hafi verið ætlunin að verja þeim í allt öðru skyni heldur en því sem Fiskveiðasjóður ráðstafar sinu fjármagni til. Hann er hreinn stofnlánasjóður sem veitir lán á hreinum lánagrundvelli, en Fiskimálasjóður hefur oft og einatt, eins og honum ber skylda til, stutt aðila með styrkjum til þess að gera veiðitilraunir og ýmsar verkunartilraunir og stutt margvíslega tilraunastarfsemi í þágu sjávarútvegsins. Ég óttast að þetta falli þá algjörlega niður, og ég sé enga ástæðu til að fara inn á þá braut að sameina þetta allt í Fiskveiðasjóði.

En þetta frv. fjallar ekki nákvæmlega um að gera þessa sameiningu. Það þyrfti þá sérstök lög til þess. Hins vegar er gert ráð fyrir því í 4. gr. eða í athugasemdunum við 4. gr. frv., að þessar tekjur, sem runnið hafa til Fiskimálasjóðs, skuli renna, eins og þar segir, til Fiskveiðasjóðs og Fiskimálasjóðs: a) til lánastarfsemi og b) til styrkveitinga. Mér er ljóst að það er hægt að halda þessu alveg aðgreindu, og ég þykist vita að hæstv. sjútvrh. sé mér í þessum efnum alveg sammála, að það eigi að halda Fiskimálasjóði áfram og láta hann vinna að þeim verkefnum sem hann hefur haft. Sé tryggt að þessar tekjur renni eftir sem áður til Fiskimálasjóðs, þá er ég ásáttur með þetta. En ef í þessu felst að það sé verið að taka tekjurnar af Fiskimálasjóði til þess að koma þeim til Fiskveiðasjóðs, þá er ég því algjörlega andvígur.

Hæstv. forseti. Ég hef þá gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og til þess sem hér hefur komið fram í sambandi við umr. um málið. Afstaða mín er þessi, að ég er sammála því að draga úr sjóðakerfinu og fellst því á meginatriði frv. að því leyti til. Ég vek hins vegar sérstaklega athygli á því, að þó að þessi breyt. sé gerð, er ekki þar með búið að komast út úr þeim vanda, sem við höfum staðið í vegna uppbyggingar sjóðakerfisins, því deilurnar eru eftir sem áður á milli útgerðarmanna og sjómanna.

Að öðru leyti hef ég svo aðeins minni háttar aths. að gera við frv. sjálft. En afstaða mín til frv. miðast við þessa grg. mína, að ég fellst á þetta sem áfanga að því marki að draga úr sjóðakerfinu, en ekki að ég sé þar með ásáttur með að hafa þetta í þessu formi. Það er ég ekki. En ég taldi líka rétt að fram kæmi hið sanna um það hvernig þetta sjóðakerfi hefur orðið til og hvaða deilur hafa á undanförnum árum staðið um þetta sjóðakerfi hér í raun og veru.